Framlagning skattafrumvarpa og störf þingsins fram að jólahléi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 13:42:35 (2202)


[13:42]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess að ræða störf þingsins vegna þess að ástandið í þeim efnum er, eins og hér hefur fram komið, óvanalega slæmt. Það hefur komið fram að 2. umr. um fjárlög hafi verið frestað um viku. Það liggur fyrir. Þar er í sjálfu sér ekki við meiri hluta fjárln. að sakast heldur ástandið í ríkisstjórninni þar sem ekki hafa komið fram þær ákvarðanir sem til þarf til þess að koma þessari umræðu að, hvorki um fjáraukalög né fjárlög. Það kom reyndar fram í viðtali í útvarpi í gær við hv. formann þingflokks Sjálfstfl. að bollaleggingar um kosningar í sumar hefðu tafið verk hjá ríkisstjórninni ( Gripið fram í: Sagði hann það?) og þess vegna hefði dregist að leggja fyrir þingið mál. Þetta náttúrlega segir sína sögu um ríkisstjórn sem er ekki starfhæf vegna bollalegginga um kosningar.
    Það hefur einnig komið fram hjá hv. þm. Alþfl. í haust að þeir hafa ekki sagt það opinberlega að þeir samþykki þá tilhögun að framlengja ekki hátekjuskattinn. Ég spyr: Er komið samkomulag í því máli við Alþfl.? Er frv. væntanlegt um þá framlengingu eða er það ekki væntanlegt?
    Ég hef ekki heyrt þingmenn Alþfl. lýsa því yfir að þeir samþykki tekjuhlið fjárlaga eins og hún er. Þess vegna spyr ég: Hefur Alþfl. samþykkt hátekjuskattinn? Er ekkert frv. væntanlegt um framlengingu hans? ( GÁ: Auðvitað mun hann gera það.) Sennilega. En ég veit ekki.