Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:10:03 (2216)

[15:10]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ákvað að spyrja hv. þm. til þess að leiða það í ljós að grundvallarafstaða hans er gegn einkavæðingu. Nú er það svo að um heim allan hafa þjóðir, ríkisstjórnir reynt að gera það sem þær geta til þess að koma á einkavæðingu. Í raun er það svo að á vegum stofnunar eins og IMF er sagt að þær þjóðir sem eru að reyna mest að einkavæða séu þær þjóðir þar sem lífskjörum hefur farið mest fram.
    Hv. þm. sagði hér að hann vonaðist til þess að sjá á næsta kjörtímabili heilbrigðari viðhorf, eins og hann orðaði það, en einkavæðingarviðhorfin. Ég held að full ástæða sé til þess að leiða þetta hérna fram vegna þess að þeir sem skilja að einkavæðing getur verið af hinu góða vita að það er gagnlegt að fá fólk til þess að gerast þátttakendur í atvinnulífinu með því að eignast hlut og einmitt á slíkum grundvelli og á markaðskerfinu hafa lífskjörin batnað. Það hefur heldur betur farið fram hjá hv. þm. ef það hefur farið fram hjá honum að á undanförnum árum og á síðasta áratug reyndar og fram á þennan dag hafa einmitt þau kerfi sem hafa byggt mest á miðstýringu, kerfi sem ég veit að hv. þm. er reyndar mjög hrifinn af, hafa verið að fara yfir um vegna skilningsleysis á því að það á að reyna að koma fyrirtækjum til almennings og gera almenning ábyrgan fyrir því sem er að gerast og reyna að knýja fram atvinnulífið með þeim hætti. Þetta hafa flestallir skilið, jafnt í hægri sem vinstri stjórnum í Vestur-Evrópu. Þetta skildu ekki gömlu kommúnistarnir í Moskvu en nú hafa nýir valdhafar tekið við og um allan heim hefur vaxið skilningur á því að þetta er nauðsynleg forsenda þess að við getum bætt lífskjörin.
    Hér uppi á Íslandi stendur einn þingmaður Alþb. upp, 4. þm. Norðurl. e., og segist bíða eftir heilbrigðari viðhorfum. Þetta þurfti að koma fram. Þetta hefur komið fram í umræðunni og ég tel að það sé afar gott og brýnt að það hafi gerst.