Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:14:38 (2218)

[15:14]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það kemur nokkuð á óvart að hér skuli vera komið á dagskrá strax á þessu haustþingi frv. um Lyfjaverslun Íslands hf. þar sem eitt síðasta málið sem við afgreiddum á vorþinginu var heimild til ríkisstjórnarinnar að breyta Lyfjaverslun ríkisins í Lyfjaverslun Íslands hf., breyta fyrirtækinu í hlutafélag og með fylgdi heimild til þess að selja helming hlutafjárins á almennum markaði.
    Þetta segi ég, virðulegi forseti, í tilefni orða hæstv. fjmrh., lokaorða í hans ræðu áðan þegar hæstv. ráðherra var með brýningarorð til þess sem hér stendur, formanns efh.- og viðskn., að sjá nú til þess að þetta fengi skjóta og góða afgreiðslu. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa tryggt að hann hefði stjórnarmeirihluta fyrir þessu máli og þurfi þar af leiðandi ekkert að vera upp á stjórnarandstöðuna kominn með framgang þess og ekki skal ég þvælast fyrir eðlilegri afgreiðslu málsins. Ég held hins vegar, virðulegur forseti, að miðað við forsögu málsins hefði hæstv. ráðherra átt að spara sér þessi frýjunarorð --- og nú vænti ég þess að hæstv. ráðherra sjái sér fært að hlýða á mál mitt. Ég held, virðulegur forseti, að miðað við forsögu málsins hefði hæstv. ráðherra átt að spara sér þessi frýjunarorð.
    Ég vil leyfa mér að minna eilítið á það hvernig það mátti til koma að þetta mál komst fram í tímaþröng. Það komst fram með því að við framsóknarmenn sömdum um það að styðja þetta mál því við skildum rökin fyrir því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Við féllumst á að styðja málið þar sem við komum því inn að það yrði einungis helmingurinn af hlutafénu seldur án þess að til kæmi heimild frá Alþingi. Á þeim tíma datt mér ekki í hug að samkomulag við hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn væri ekki meira virði en nú er að koma í ljós því ég geri engan greinarmun á því hvort þetta er selt í einu lagi með því móti að það hefði allt verið sett í sölu 17. nóv. eða helmingurinn þá og síðan eigi að koma og biðja um lagaheimild fyrstu daga í desember til þess að klára alla söluna fyrir áramót. En það mun vera hugsunin á bak við þetta að klára að selja þetta að fullu fyrir áramót. Ég tel að þarna sé bæði verið að koma aftan að þeim sem studdu þetta mál á síðasta vori og sömuleiðis sé ekki verið að gæta hagsmuna ríkisins.
    Það eru vægast sagt furðuleg rök sem stundum koma upp hjá hæstv. ríkisstjórn þegar rætt er um sölu á eignum ríkisins. Það veitti ekkert af að það kæmi einn og einn inn í þinglið Sjálfstfl., ég tala nú ekki um inn í ráðherrahópinn sem hefði einhvern snefil af viti á því hvernig kaupin ganga á eyrinni hjá fyrirtækjum sem eru á almennum markaði. Það vekur eilitla athygli þegar litið er á einkavæðingarnefndina, þar eru gegnar og góðar persónur, en ég spyr: Hvaðan hafa þeir einstaklingar reynslu af hinum almenna markaði utan úr atvinnulífinu íslenska? Enga. Ekki nokkra. Ég tel reyndar að tillögur og málflutningur ráðgjafa ríkisstjórnarinnar og reyndar þá ríkisstjórnarinnar sjálfrar mótist mjög af þessu.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan að við framsóknarmenn skildum rökin fyrir því að breyta Lyfjaversluninni í hlutafélag, m.a. vegna þeirra samstarfsverkefna sem Lyfjaverslun ríkisins og nú Lyfjaverslun Íslands hf. er að fara í og er komin í á erlendri grundu.
    Ég vil til viðbótar við þetta segja að það er mín skoðun að lyfjaverslun hafi eilitla sérstöðu vegna þess að það er einu sinni þannig að 70% af andvirði allra lyfja sem eru í verslun hér á landi eru greidd af ríkinu. Þess vegna tel ég að það beri að skoða hvort ekki sé æskilegt að ríkið eigi áfram ítök í einu fyrirtæki á þessum markaði. Ég hef að vísu kynnt mér það um þau álitamál sem uppi voru í fyrra varðandi birgðahald á dreypilyfjum og birgðahald fyrir almannavarnir að um þau mál hefur verið samið og ég tel að þau séu eftir atvikum komin í eðlilegt horf. En ég ítreka það, virðulegur forseti, að ég kann ekki við þessi vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstjórn, hjá hæstv. fjmrh., og vitna til þess aftur og enn á hvern hátt hæstv. ráðherra kom þessu máli í gegn á vorþinginu. Ég vitna til þess líka að það var með stuðningi okkar framsóknarmanna að Áburðarverksmiðju ríkisins var breytt í hlutafélag á síðasta vori og fyrir því taldi ég og tel enn að séu full rök og séu í raun meiri líkur fyrir því að það takist að halda þeirri starfsemi hér á landi áfram eftir að sú breyting var komin í gegn.
    Virðulegur forseti. Ég vil síðan fara nokkrum orðum um þau sjónarmið sem ég hef sett fram varðandi einkavæðingu. Ég viðurkenni þau rök að í mörgum tilfellum er æskilegt að breyta um rekstrarform þannig að reksturinn sé í sama formi og annar rekstur í landinu. Það er hins vegar mín skoðun og hún er staðfest í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það hafi vantað skýrari markmið hjá stjórnvöldum um það hvaða tilgangi breyting á fyrirtækjum í eigu ríkisins á að þjóna. Þetta dæmi sem við stöndum frammi fyrir núna sýnir að þar er engu að treysta. Það var búið að ná fram því markmiði að breyta rekstrarformi Lyfjaverslunarinnar. Hún hafði þar af leiðandi alla möguleika til þess að vinna á almennum markaði. Eignaraðildin var orðin það dreifð með sölu helmingsins að hún komst inn á almennan markað þannig að það var ekki það sem þurfti á að halda.
    Ég vil leyfa mér að fullyrða að eftir þær viðtökur sem salan á hlutabréfunum fékk í síðasta mánuði mundi ekki nokkur maður úti á hinum almenna markaði ákveða það að selja samstundis afganginn af fyrirtækinu á sama verði. Hvað þýðir það? Hvað þýðir þessi mikla eftirspurn eftir hlutabréfum í fyrirtækinu? Að mínu mati þýðir hún m.a. að það er verið að selja á undirverði. Ef eftirspurnin er svona mikil þá hljóta að vera yfirgnæfandi líkur á því að á eftirmarkaði hækki verðgildi þessara hlutabréfa.
    Ég veit ekki hvað yrði gert og hvaða örlög stjórnandi einkafyrirtækis fengi sem ryki út í aðgerðir sem þessar. Ég er nánast viss um það að hann fengi fyrirmæli frá sinni stjórn um það að bíða og sjá til hvaða verð þessi bréf mundu taka á almennum markaði. Og með því, ef það er einlægur vilji og trú hæstv. ráðherra að það eigi að selja þetta, þá væri hægt að ganga úr skugga um það hvort ekki fengist fyrir bréfin hærra verð.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna óbeint í skýrslu sem var verið að kynna fyrir helgina um fjárreiður ríkisins, Ný uppbygging ríkisreiknings og fjárlaga. Í henni eru margar nýjungar sem ég tel vera til bóta. Í stuttu máli snýst málið um það að færa uppsetningu á ríkisreikningi og allri fjármálameðferð ríkisins nær því sem gerist á hinum almenna markaði og á því tel ég vera fulla þörf. Ég ætla m.a. að setja það inn í það samhengi varðandi einkavæðingu núv. ríkisstjórnar þar sem það hefur verið sett inn í fjárlög hvort sem það eru 1.100 millj. eða 1.500 millj., við skulum halda við okkur 1.100 millj., fjmrh. ( Fjmrh.: 1992.) 1.100 millj. árið 1992. ( Fjmrh.: 1.500 millj. árið 1993.) 1.500 árið 1993. ( Fjmrh.: 500 árið 1994.) Já. Þá eru markmiðin upp á 3,1 milljarð á þessum þremur árum. Þá er dæmið sett þannig upp að ef þetta hefði náðst þá hefði verið hægt að lækka ríkissjóðshallann sem þessu næmi, þ.e. 1.100 millj. eitt árið, 1.500 annað og 500 það þriðja. En hvernig liti þetta út ef um hefði verið að ræða fyrirtækið ríkissjóð, ef hann hefði lotið sömu lögmálum og önnur fyrirtæki á hinum almenna markaði? Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því.
    Ef ríkissjóður lyti sömu uppgjörsreglum og hin almennu fyrirtæki hefði hæstv. ráðherra þá getað sett þetta upp á þennan hátt og skráð það inn á rekstrarreikning fyrirtækisins ríkissjóður það ár sem salan fór fram? Nei, það hefði ekki verið hægt. Og þarna komum við að veilunum í þessu öllu saman að það er ekkert horft á annað en fjárlög og niðurstöður fjárlaga. Það er ekkert horft á hvað þetta þýðir gagnvart þeim eignum sem Alþingi og ríkisstjórn bera ábyrgð á. Þannig getur ríkissjóður verið að selja fyrirtæki, selja eignir í raunverulegu bullandi tapi, langt undir því sem búið var að leggja í viðkomandi fyrirtæki eða eign en slegið því svo upp í fjárlögum að af þessu sé einhver hundruð milljón króna gróði. Þetta mundi ekki gerast svona í almennu fyrirtæki. Það yrði skoðað í hverju eignin stæði í efnahagsreikningi og ef það væri verið að selja undir því verði þá kæmi ekki inn á rekstrarreikninginn andvirði sölunnar heldur kæmi tapið sem næmi því hvað salan væri lægri heldur en bókfært verð eignarinnar.
    Þetta held ég að sé eitt af stóru vandamálunum í meðferð á opinberu fé og opinberum eigum í dag að það er ekki horft á það hvernig menn fara með eignirnar. Þess vegna finnst mér það kannski stóra gatið í þessum tillögum sem voru lagðar fram í síðustu viku að þar eru ekki settar fram nógu góðar tillögur að mínu mati um samhengi annars vegar eignabreytinga og eigna ríkisins og hvernig það síðan kemur fram í rekstrarreikningi ríkisins.
    En í þessu máli eins og öðrum, og það á við varðandi sölu þessara ríkisfyrirtækja á þessu kjörtímabili, þá hefði ekkert veitt af því að sjónarmiða utan úr hinum almenna rekstri hefði gætt meira við þessa vinnu. Það er athyglisvert að í þeim flokki sem gjarnan á góðri stund telur sig vera málsvara atvinnulífsins, Sjálfstfl., skuli vera jafnlítið um slík sjónarmið innan búðar og þar skuli vera jafnfátæklegt af mönnum með almenna reynslu úr atvinnulífinu og raun ber vitni.
    Ég ætla, virðulegur forseti, að koma að skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins. Ég byrja á að vitna óbeint í ræðu hæstv. fjmrh. áðan. Þar kom greinilega fram það sjónarmið sem hefur að undanförnu endurspeglast í ummælum hæstv. ráðherra um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hæstv. ráðherrum þykir gott að vitna í það sem kemur þeim vel en gagnrýna síðan harðlega allt annað. Ég held, virðulegur forseti, að það sé ekki svo að bara það sé rétt í þessum skýrslum sem kemur viðkomandi ráðherra vel en hitt sé allt gagnrýni vert. Ég trúi því reyndar að ríkisendurskoðandi og hans fólk vinni þessar skýrslur samviskusamlega. Það var afar athyglisvert að heyra fjmrh. lýsa eiginlega yfir hneykslun sinni yfir því áðan á því að Ríkisendurskoðun skyldi ekki vera búin að draga til baka skýrslu sína um sölu á SR-mjöli. Ég held að framkvæmdarvaldinu væri nær að sýna þessari stofnun þó ung sé eilítið meiri virðingu en kemur fram í þessum orðum. Ég get hins vegar tekið undir það með hæstv. ráðherra að það gengur ekki ef einstakir ráðherrar ætla að nota Ríkisendurskoðun til að gefa syndaaflausn. Það hefur aldrei verið hlutverk hennar.
    Það var einnig athyglisvert að heyra þá skoðun hæstv. ráðherra áðan að Ríkisendurskoðun ætti ekki að leggja mat á neitt annað en tölulegar upplýsingar og tölulegar staðreyndir sem ég skildi þannig að hæstv. ráðherra væri að gagnrýna Ríkisendurskoðun þar sem hún leggur huglægt mat og/eða kallar eftir pólitískri stefnumörkun sem Ríkisendurskoðun finnst ekki vera skýr. Það er einmitt það sem kemur fram í þessari skýrslu ef ég má vitna í skýrsluna, með leyfi forseta. Hér stendur:
    ,,Það sem að mati Ríkisendurskoðunar hefur helst torveldað framkvæmd þessara mála er að markmiðssetning stjórnvalda hefði mátt vera skýrari. Þetta á ekki síst við um það atriði hvort hámarka skuli tekjur af sölu eða hvort önnur sjónarmið, ósamrýmanleg þessu, eigi að hafa meira vægi.``
    Þetta er nokkuð hörð gagnrýni af hálfu Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun er að segja með þessari setningu að markmið einkavæðingar ríkisstjórnarinnar sé óljóst. Undir það tek ég eins og ég sagði fyrr í minni ræðu.
    Það er ekki hægt að treysta hæstv. ríkisstjórn í þessum málum vegna þess að hún grautar öllu saman. Það er allt í sama potti hvort sem ástæðurnar eru þær eins og var með Lyfjaverslunina að það var augljóslega nauðsynlegt að breyta henni í hlutafélag. Það er hins vegar annað mál og óskylt að hve miklu máli á að selja hana. Þessu hefur ríkisstjórnin öllu grautað saman og tilraunum, eins og við framsóknarmenn gerðum á síðasta ári, til að koma einhverju viti í þetta er umsvifalaust klúðrað. Það eru ekki traustvekjandi vinnubrögð. Þeir aðilar sem svona vinna eru langt frá því að mínu mati að vera traustvekjandi samstarfsaðilar í pólitík. Ég verð nú bara að segja það.
    Ef ég held síðan aðeins áfram og vitna í þessa skýrslu af handahófi þá segir á bls. 11, með leyfi forseta, þar sem rætt um Þróunarfélag Íslands hf.:
    ,,Að mati Ríkisendurskoðunar vekur þessi sala upp þá spurningu hvort stundum sé of hratt farið í sakir við sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Í sumum tilvikum kann að vera skynsamlegra að bíða með sölu í þeirri von að hærra verð kunni að bjóðast síðar.``
    Hér er Ríkisendurskoðun að segja að í þessu tilfelli hafi menn flýtt sér svo mikið við söluna að væntanlega hafi menn ekki fengið það fyrir þessa eign sem hægt hefði verið að öðrum kosti.
    Ef ég held áfram þá kem ég að Íslenskri endurtryggingu hf. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Miðað við þessa forsendu sýnist engu að síður sem hagsmuna ríkisins hefði verið betur gætt með því að selja hlut ríkissjóðs í fyrirtækinu ekki að svo stöddu.``
    Hér kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að betra hefði verið að selja ekki og þannig hefði hagsmuna ríkissjóðs verið gætt sem best.
    Þriðja tilvitnunin sem ég ætla að grípa hér niður í, með leyfi forseta, er um SR-mjöl hf.:
    ,,Samanburður á mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls hf. og mati Verðbréfamarkaðar Íslands hf. benti til að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra en nam söluverði bréfanna.``
    Hér er bara sagt beinum oðrum: Fyrirtækið var selt á undirverði.
    Ég ætla þá næst, virðulegur forseti, að leyfa mér að vitna í þessa skýrslu á öðrum stað og kannski er þar sem hæstv. ríkisstjórn svíður undan. Ríkisendurskoðun gerist svo ósvífin, sjálfsagt að mati ríkisstjórnarinnar, að vitna í hvítbók ríkisstjórnarinnar. Þar stendur, með leyfi forseta, og tekur Ríkisendurskoðun það beint upp úr hvítbókinni, Viðeyjarsáttmálanum:
    ,,Markmið þessara ráðstafana [hér er verið að ræða um einkavæðinguna] er að breyta hagkerfi okkar í nútímahorf og losa það úr viðjum pólitískrar ofstjórnar. Þær miða einkum að því að farið sé vel með það fé sem þjóðin leggur í sameiginlegan sjóð.``
    Nú, virðulegur forseti, ætla ég að leyfa mér að endurtaka þessa setningu: ,,Þær miða einkum að því að farið sé vel með það fé sem þjóðin leggur í sameiginlegan sjóð. Þannig veitist stjórnvöldum raunverulegt svigrúm til að sinna af kostgæfni þeim félagslegu markmiðum sem þau hafa sett sér.``
    Þetta er í hvítbókinni og því betur tilheyrir þetta sögunni von bráðar. En hver er svo reyndin? Hvað segir Ríkisendurskoðun? Hvað segja þær tilvitnanir sem ég las upp áðan? Þær segja allar þrjár að ríkisstjórnin brást því hlutverki sínu að varðveita eigur ríkissins. Í öllum þessum þrem tilfellum kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að hagsmuna ríkisins hefði verið betur gætt með öðrum hætti en þarna var gert. Í tveim tilfellunum að bíða með söluna og í því þriðja að menn fóru fram með svo miklu offorsi fyrir síðustu áramót að það láðist að verðmeta og setja raunverulegan verðmiða á SR-mjöl. Því var ruslað út á nokkrum dögum fyrir síðustu áramót. Sem síðan sýndi sig nokkrum vikum seinna og hlýtur að hafa komið algerlega í bakið á hæstv. sjútvrh., að allur hamagangurinn að koma þessu út fyrir áramótin byggðist á því að nýju eigendurnir þurftu að nota hagnað frá árinu 1993, skipta honum upp með sér til þess að borga með fyrir fyrirtækið. Minnir þetta á fræga sölu á Olís fyrir nokkrum árum.
    Að mínu mati er þessi ferill ekki mjög glæsilegur.
    Það er athyglisvert að lesa upp úr þessari hvítu bók, með leyfi forseta:
    ,,Markmið þessara ráðstafana er að breyta hagkerfi okkar í nútímahorf og losa það úr viðjum pólitískrar ofstjórnar.``
    Hvenær skyldi þetta hafa verið skrifað? Ætli það hafi verið í byrjun viðreisnar? Var þetta á þeim tíma eða kannski enn þá fyrr? Nei, þetta var skrifað árið 1991, þegar búið var næstu ár á undan að gera grundvallarbreytingar á okkar fjármálakerfi og okkar hagkerfi þannig að á þeim tíma stóð ekkert það eftir sem gaf ástæðu til að gefa út yfirlýsingu af þessari stærðargráðu. Staðreynd málsins er nefnilega sú að umfang ríkisrekstrar hér á landi umfram það sem er hið lögboðna hlutverk ríkisins og snýr að þeirri samhjálp sem nánast allir eru sammála um að halda uppi er ekkert mikið og var í upphafi ferils þessarar ríkisstjórnar mun minna en í til að mynda löndum eins og Frakklandi. Maður skilur eiginlega ekki þessa stóru yfirlýsingu. Það voru engin þau tilefni til hinnar stóru einkavæðingar hér á landi. Enda kom í ljós að það stóð ekkert á bak við fyrirheit sem gefin hafa verið í fjárlögum um stóra sölu á ríkiseignum.
    Málið liggur allt þannig fyrir að mínu mati að hér er sígandi lukka best. Það ætti að eiga við í því máli sem hér er til umræðu að nú þegar búið er að selja helminginn og þau bréf komin út á frjálsan markað þá væri langsamlega skynsamlegast bæði út frá framtíðarhagsmunum fyrirtækisins og út frá hagsmunum ríkisins að doka nú við, leyfa þessum bréfum að taka verð á almennum markaði og sjá síðan til með framhaldið. Að mönnum gefist tóm til að velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að ríkið hverfi að fullu og öllu út úr fyrirtækjarekstri með lyf og framleiðslu á lyfjum. En eins og ég sagði fyrr þá er hægt að færa fyrir því rök að það geti verið skynsamlegt að ríkið sé þar að einhverju leyti inn í einfaldlega vegna þess, eins og ég sagði áður, að greiðsla fyrir lyf kemur 70% úr ríkissjóði.
    Virðulegur forseti. Það mætti síðan í framhaldi af þessu vitna í umræðu um aðra hluti, til að mynda einkavæðingu ríkisbankanna. Ég gríp aftur niður í gögn frá núv. ríkisstjórn. Í framsöguræðu hæstv. forsrh. á Alþingi hinn 6. des. 1991, vegna frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992, segir m.a., með leyfi forseta:

    ,,Undirbúin verði sala á hluta ríkisins í Ferðaskrifstofu Íslands, Bifreiðaskoðun Íslands, Endurvinnslunni hf., Gutenberg hf. og Sementsverksmiðjunni. Búnaðarbanka Íslands verður breytt í hlutafélag í upphafi næsta árs og hafin sala á hlut ríkisins í honum.`` ( Gripið fram í: Hvaða ár var það?) Þetta er 6. des. 1991. Þar segir hæstv. forsrh. að Búnaðarbankanum verið breytt í hlutafélag í upphafi næsta árs, væntanlega þá í ársbyrjun 1992 og sala hlutabréfa hafin. Saga einkavæðingar ríkisstjórnarinnar er því afar skrautleg.
    Það sama á við um ríkisbankana og reyndar Póst og síma hvað mín sjónarmið snertir að ég get séð full rök fyrir því að breyta um rekstrarform á þessum fyrirtækjum, gera þau öll að hlutafélögum. Ég er hins vegar algjörlega andvígur því að þau séu seld og sé engin rök fyrir því. Að fenginni reynslu mundi ég ekki treysta mér til að vinna að þessum málum undir forustu ráðherra í núv. ríkisstjórn þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Þar sem tilgangurinn er ekki sá að gera þessi fyrirtæki sveigjanlegri og hæfari til rekstrar heldur þar sem tilgangurinn er sá að selja þau.
    Ég hef sagt áður að ég gæti alveg hugsað mér að sjá nýtt rekstrarform sem héti ríkishlutafélag og væri hlutafélag sem lyti öllum sömu lögmálum og hlutafélög en hefði það í sínum samþykktum og markmiðum að vera áfram að fullu í eigu ríkisins. Ég held að reynsla okkar nágranna sýni að ríkið kemst ekkert undan ákveðinni ábyrgð á fjármálamarkaðnum og miðað við aðstæður í okkar litla þjóðfélagi þá held ég að skynsamlegt væri að ríkið ætti þessa banka áfram. Það er síðan aftur álitamál og skoðunarmál hvort það ætti að sameina þá í einn ríkisbanka, en ég ætla ekki að fara út í þá umræðu hér.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna hér eitt mál sem kom mér eilítið á óvart hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann sá ekkert athugavert við það að Jarðborunum ríkisins væri breytt í hlutafélag. Ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það en ég sé ýmislegt athugavert við framkvæmd þess máls. Þar gerðist það að fyrirtækinu var breytt í hlutafélag og hefur með aðstoð ríkisins eftir að sú breyting átti sér stað náð algerri einokunarstöðu hér á landi. Ég fylgdist eilítið með því þegar núv. ríkisstjórn beitti áhrifum sínum, þegar forsrn. beitti áhrifum sínum inni í Byggðastofnun sem hafði eignast eina samkeppnistækið sem til var í landinu og gat veitt Jarðborunum ríkisins einhverja samkeppni, þegar formaður einkavæðingarnefndar beitti sér fyrir því, væntanlega í umboði forsrh., að Byggðastofnun seldi Jarðborunum ríkisins eina tækið sem var til í landinu og gat keppt við þá, bor sem hafði unnið á vegum einkaaðila í nokkur ár og m.a. í upphafi haft veruleg áhrif á verðlagningu á jarðborun hér og reyndar á varanlegan hátt en ríkisfyrirtækið, á seinni stigum orðið hlutafélag, beitti afli sínu með ósæmilegum undirboðum og að lokum beitti ríkið afli sínu til þess að afhenda þessu einkafyrirtæki sínu eina tækið sem til var í landinu og gat keppt við það. Þarna finnst mér að sé um að ræða dæmi þar sem einkavæðing hefur algerlega snúist yfir í andhverfu sína. Ég átta mig reyndar ekki á því hvort hægt hefði verið að bregðast við þessu í dag með nýjum samkeppnislögum en þau munu væntanlega ekki hafa verið komin í gildi þegar Byggðastofnun var nánast þvinguð til þess að selja Jarðborunum ríkisins þetta tæki. Það eru því ýmsar hliðar á þessu máli, virðulegi forseti.
    En að lokum segi ég það sem mína skoðun að það verður að vera algerlega á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar og þess meiri hluta sem styður hana að koma málum hér áfram varðandi breytingu á lögum um Lyfjaverslun ríkisins miðað við forsögu málsins. Miðað við það samkomulag sem við framsóknarmenn töldum okkur hafa gert við hæstv. fjmrh. á síðasta vori þá endurtek ég það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar: Ég mundi ekki í sporum hæstv. ráðherra vera með þau frýjunarorð sem hann var með hér áðan.
    Ég get hins vegar sagt það hér og nú að að sjálfsögðu mun ég ekki sem formaður nefndarinnar þvælast fyrir afgreiðslu málsins. En hæstv. ráðherra verður að eiga það við sína menn og ég verð að segja alveg eins og er að miðað við hvernig samstarf gengur á því heimili, stjórnarheimilinu, þá finnst mér afar litlar líkur á að þetta mál komist fram og raunar afar lítil rök til þess að vera að taka þetta mál í vinnu þingsins fram yfir skattafrumvörpin ef og þegar þau koma fram.