Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:52:02 (2220)


[15:52]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú talar hæstv. ráðherra um misskilning. Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna og spyr á móti: Hver skildi þetta þannig að það gæti komið upp sú staða að lögð yrði fram beiðni um að selja seinni hlutann af fyrirtækinu samhliða því að salan á fyrri hlutanum færi fram? Það datt bara ekki nokkrum manni slíkt í hug. ( Fjmrh.: Það hefur ekki verið gert.) Það hefur ekki verið gert, segir hæstv. ráðherra. Að sjálfsögðu hefur það verið gert og ég geri engan greinarmun á því þó að það gerist tveim vikum eftir að sala fer fram. Það er verið að tala um það að selja fyrirtækið allt saman núna á því verði sem sett var á fyrri hlutann. Og rökin eru að mínu mati að hluta til fjarstæðukennd. Rökin eru þau þar eð fyrri hluti fyrirtækisins rauk út á þessu verði þá eigi að selja það allt á því verði.
    Nú bið ég hæstv. fjmrh. að fara út á hinn almenna markað, inn í fyrirtæki sem eru að sýsla við og selja eigur sínar, og athuga hvort einhverjum manni þar dytti í hug að gera þetta.
    Hvers vegna seldust bréfin svona vel? Ef við lítum á það út frá markaðssjónarmiðum, sem ég vil trúa að ráði, þá er það vegna þess að menn álita að þau séu boðin á góðu verði. Það hníga öll rök að því miðað við þessa skjótu og snöggu sölu að þau séu á undirverði. Allir þeir sem væru að huga að að fara vel með sínar eigur vildu bíða og sjá hvaða verð þessi bréf tækju á almennum markaði áður en rokið yrði til þess að selja afganginn. Það á ekki við um ríkið. Vegna þess að útsalan gekk vel á 50% þá á að selja hin 50% líka. Þetta kalla ég, virðulegi forseti, hundalógík.