Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:56:51 (2222)


[15:56]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Um það hvernig bar að skilja þá brtt. sem samþykkt var við frv. í fyrra. Auðvitað ber að skilja það þannig að fyrir henni hafi verið efnisleg rök, að það væri ekki ástæða til að selja fyrirtækið allt í einu. Það sem er hins vegar verið að gera núna og ríkisstjórnin stefnir að er að hefja sölu fyrirtækisins seinni hluta nóvembermánaðar 1994 og hafa lokið henni fyrir áramót. Sem sagt selja það allt saman í einu. Það eru staðreyndir málsins.
    Að sjálfsögðu voru fyrir því efnisleg rök að við sem studdum frv. töldum að það væri ekki skynsamlegt að selja fyrirtækið allt í einu, m.a. þau að tryggja að það félli ekki í hendur samkeppnisaðila. Ef

hæstv. ráðherra er svona mikið í mun að tryggja það, þá er ein pottþétt aðferð til þess og það er að hætta við frekari sölu á fyrirtækinu og láta standa eftir 50% eignaraðild ríkisins. Það er hin eina trygging sem hægt er að setja fyrir þessu og ég sé í sjálfu sér ekkert sem mælir á móti því að svo væri nú um sinn. Öðrum markmiðum um að breyta rekstrarforminu, gera það sveigjanlegra, gera það hæft til þess að taka þátt í erlendu samstarfi hefur verið náð og það voru þau markmið sem ég lagði höfuðáherslu á varðandi framlagningu þessa máls.
    En nú, virðulegi forseti, er þetta mál komið inn í það að þetta er orðinn hluti af trúarbrögðunum. Nú helgar tilgangurinn meðalið. Það á að selja sölunnar vegna.