Lyfjalög

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:10:30 (2225)


[16:10]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram við 1. umr., er ég einn þeirra þingmanna sem hef fyrirvara við þetta frv. sem hv. heilbr.- og trn. flytur hér. Ég vil aðeins ítreka þá fyrirvara mína sem að stærstum hluta eru samhljóða þeim fyrirvörum sem fram komu hjá þeim ræðumanni sem var að ljúka ræðu sinni. Við vorum fjórir hv. þm. sem skrifuðum undir frv. með fyrirvara. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, ég vísa aðeins í þá ræðu sem ég flutti við 1. umr. um málið. Fyrirvararnir eru fyrst og fremst gagnvart því að ekki liggur fyrir svo óyggjandi sé að þetta frv. standist grundvallaratriði samkeppnislöggjafar og einnig að lausasölulyfin, sem samkvæmt úrskurði heilbr.- og trmrn. eiga að vera óháð verðlagsákvæðum, ef þau eiga að standast EES-samninga sem Alþingi hefur samþykkt, skuli nú eiga að lúta verðlagsákvæðum. Vissulega er það öryggisatriði og sett þannig fram til þess að hægt sé að stýra verðlagningu á lausasölulyfjum og til þess að mæta þeirri umræðu sem varð innan nefndarinnar um það að verð dýralyfja gæti orðið mjög hátt, sérstaklega lausasölulyfja, ef breytt væri því fyrirkomulagi sem núgildandi lyfjalög kveða á um. Til

þess að mæta því og setja undir þann leka eins og það var orðað eiga lausasölulyfin að vera háð verðlagsákvæðum.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í vor stangast það á við EES-samninginn því að lausasölulyf fyrir menn máttu ekki vera undir verðlagsákvæðum og ég get ekki séð að önnur ákvæði gildi varðandi lausasölu dýralyfja. Ég hef reyndar leitað eftir því á milli umræðna hvort svo sé og ekki fengið það staðfest. Ég hef hvergi getað fengið það staðfest að heimilt sé að láta lausasölulyf ef þau eru fyrir dýr vera háð verðlagsákvæði, en lausasölulyf ef þau eru fyrir menn, þá séu þau fyrir utan verðlagsákvæði.
    Ég ítreka fyrirvara mína gagnvart frv. og hefði talið skynsamlegast að beitt væri undanþáguákvæði og meginreglan væri sú að lyf yrðu seld í lyfjabúð. Það var nánast eina atriðið sem nefndin varð sammála um við umfjöllun um lyfjalög á síðasta þingi og ekki kom fram nein gagnrýni við umræður á að lyfjasalan færi fram í lyfjaverslunum. Það færi ekki saman að ávísa og selja lyf. Þar var þó eitt grundvallaratriði sem við vorum sammála um og ég hefði gjarnan viljað sjá því grundvallaratriði haldið í lyfjalögunum, en því miður, svo verður ekki við samþykkt þessa frv. Engu að síður til þess að leysa þann hnút sem hefur myndast tókum við þá ákvörðum sem höfum þennan fyrirvara að standa að samþykkt frv. því að önnur leið virtist ekki fær.