Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 17:15:54 (2235)

[17:15]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í kynningu hæstv. forseta þá er hér til umræðu frv. til laga um heimild til sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Lyfjaverslun Íslands hf. og það felur í sér að fjmrh. sé veitt heimild til þess að selja það sem eftir er af hlutabréfunum í Lyfjaverslun Íslands, þ.e. þau hlutabréf sem eru í eigu ríkisins.
    Ég vil aðeins í upphafi ræðu minnar rifja upp aðdraganda málsins þó að það hafi reyndar verið gert hér áður en það gerðist í meðferð málsins á síðasta þingi að ég tók þá ákvörðun að snúast gegn því að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag. Sú afstaða mín réðist fyrst og fremst af annars vegar starfsmannamálum og öllu því sem óljóst var í þeim efnum og hins vegar af skýrslu Ríkisendurskoðunar og þeirri miklu umræðu sem varð um söluna á SR-mjöli. Ég hef ekki breytt skoðun minni á þessum málum.
    Ég get ítrekað það enn einu sinni að ég tel að einkavæðing eigi vissan rétt á sér. Ríkisvaldið á ekki

að vera í atvinnurekstri þar sem um er að ræða samkeppni við hugsanlegan fjölda fyrirtækja eða í rekstri sem ekki snertir beinlínis almannahag og aðrir geta sinnt en einstaka sinnum kann að vera nauðsynlegt að ríkisvaldið sjái til þess að samkeppni sé til staðar. Við hljótum að velta því fyrir okkur varðandi þá einkavæðingu sem hér hefur átt sér stað hvort hún hafi orðið til þess að skapa aukna samkeppni eða hvort þar sé í raun verið að færa einokunaraðstöðu til annarra. Nú er sala þessara fyrirtækja með ýmsu móti. Hér var fyrr í umræðunni nefnt dæmi um það að Jarðboranir, sem hétu Jarðboranir ríkisins á sínum tíma, væru komnar með algjöra einokunaraðstöðu á markaðnum. Þetta getur auðvitað ekki verið tilgangurinn með einkavæðingu. Einkavæðingarmarkmiðin hljóta í fyrsta lagi að vera þau að draga úr ríkisumsvifum þar sem það á við og hins vegar að bæta samkeppni á markaði og ég ætla að fara á eftir ofan í þessi einstöku dæmi sem nefnd eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Við hljótum að velta fyrir okkur alveg sérstaklega markmiðunum með einkavæðingu. Hvaða markmið hefur ríkisstjórnin sett sér með einkavæðingu og hafa þau markmið náð fram að ganga? Ég vil sérstaklega vitna til skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 8 þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Marka þarf ákveðna stefnu varðandi breytingar sem gera þarf á fyrirtækjum áður en þau eru seld enda ekki sjálfgefið að ríkisfyrirtæki séu að óbreyttu góð söluvara.``
    Ég vil meina að þessu hafi ekki verið framfylgt og ég spyr: Hvaða markmið settu menn sér varðandi Lyfjaverslun ríkisins og hvaða markmið er hæstv. fjmrh. að setja varðandi þessa seinni sölu sem á að fara fram? Hvaða markmiðum á að ná? Hvaða stefnu er verið að marka með þessari sölu?
    Nú efast ég ekki um eftir reynsluna af sölunni á fyrri helmingi hlutabréfanna í eigu ríkisins að Lyfjaverslun Íslands eins og hún heitir sé nokkuð góð söluvara þó að auðvitað vakni spurningar um það hvort þarna hafi átt hlut að máli fólk sem var að ná sér í hlutabréf til þess að fá skattafslátt. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram að ég held að það væri réttara að bíða með söluna, sjá hvernig þróunin verður, sjá hvort hugsanlega megi fá meira fé fyrir hlutabréfin og sjá hvað gerist eftir áramót. Ætlar fólk að losa sig við þessi bréf? Því að auðvitað á ríkið að reyna að fá sem allra mest fyrir þessar eignir sínar.
    Varðandi þau atriði sem snerta þetta mál sérstaklega, Lyfjaverslun Íslands, þá er fyrsta spurningin sem vaknar sú hvort það verð, hvort það mat sem lagt hefur verið á fyrirtæki sé rétt og hvort þar hafi verið nógu vel að verki staðið. Því er haldið fram í frv. og hæstv. fjmrh. hefur haldið því fram að þar hafi verið staðið vel að verki en það er erfitt að átta sig á því þegar svona skammt líður á milli og þegar svona mikil harka er í því að selja fyrirtækið þá er erfitt að átta sig á því hver þróunin er varðandi verðið á þessum hlutabréfum.
    Það stendur í núgildandi lögum um Lyfjaverslun Íslands að það eigi að leggja skýrslu fyrir Alþingi varðandi birgðastöðu fyrirtækisins og það var jú eitt það mikilvægasta í tengslum við umræðuna um lyfjaverslunina hvað yrði um öryggishlutverkið sem lyfjaverslunin átti að sinna. Ég hlýt að spyrja um það hér hvernig þeim málum er nú háttað. Hafa verið gerðir samningar við fyrirtækið eða við önnur lyfjafyrirtæki varðandi þetta öryggishlutverk? Það kom fram í umræðunni fyrr í dag að slíkir samningar hefðu verið gerðir. Ég hef ekki heyrt um það og vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. upplýsti okkur um það.
    Síðan er kannski ein af stóru spurningunum varðandi þessa breytingu sú hvað hefur orðið um starfsfólkið. Hvað hefur orðið um kjör starfsfólksins? Hefur starfsfólki fækkað? Hafa laun lækkað við þessa breytingu? Því var haldið fram af fulltrúum stéttarfélaga og fulltrúum starfsfólks að kjörin mundu rýrna við það að starfsfólkið yrði að ganga í önnur stéttarfélög.
    Við vitum að það eru málaferli í gangi á vegum BSRB út af fyrri einkavæðingarmálum og ég ítreka það hér að mér finnst rétt að staldra við og bíða eftir úrslitum í þeim málaferlum varðandi starfsfólkið áður en lengra er haldið því að sá dómur sem væntanlega mun falla gildir auðvitað alveg jafnt um starfsmenn Lyfjaverslunar Íslands eins og um starfsfólk SR-mjöls. Þetta er jú einn stóri þátturinn í þessu máli öllu saman, hvaða áhrif hefur einkavæðingin haft. Það segir á bls. 14 í skýrslu Ríkisendurskoðunar að velta þeirra 10 fyrirtækja sem ríkisstjórnin hefur þegar selt hafi numið um 4,6 milljörðum kr. síðasta árið sem þau voru í ríkiseign og að þar hafi starfað liðlega 340 manns. Mér þætti fróðlegt að vita það hversu margir starfa núna hjá þessum fyrirtækjum. Hefur það komið fram sem spáð var að þetta þýddi að það væri verið að vísa fólki út í atvinnuleysi og versnandi kjör?
    Það er í rauninni athyglisvert miðað við þá miklu áherslu sem núv. ríkisstjórn hefur lagt á einkavæðingu hversu illa hún hefur gengið. Ég hef margoft rifjað þá sögu upp hér, þau miklu áform sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin hafði í þeim efnum og vitnaði til í skýrslunni þar sem m.a. er vitnað í það í ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann taldi að það væri hægt að selja fyrirtæki fyrir allt að 2 milljarða kr. á ári. Þetta kemur fram á bls. 17 í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta.
    Þetta sýnir hvað þessi einkavæðingaráform voru óraunhæf enda kom það fram strax á fyrsta ári að þetta gekk ekki eftir. Það var áætlað á þessum þremur árum sem liðin eru af kjörtímabilinu að selja ríkisfyrirtæki fyrir 2,1 milljarð kr. ef tekið er mið af fjárlagafrv. en samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur salan skilað ríflega 800 millj. kr. Þetta er mjög slælegur árangur og það er ýmislegt sem veldur. Það er ekki það að menn hafi endilega staðið það slælega að verki heldur hafa aðstæður ráðið þar um margt.
    Það er mjög athyglisvert að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem hún fer í gegnum þessa einkavæðingu lið fyrir lið en Ríkisendurskoðun er fyrst og fremst að leggja mat á hina fjárhagslegu hlið þó að

reyndar sé komið inn á stöðu starfsmanna og þau vandamál sem upp hafa komið í því sambandi, t.d. varðandi lífeyrisréttindi, biðlaun, stéttarfélagsaðild og fleira, þá er það fyrst og fremst hin fjárhagslega hlið sem Ríkisendurskoðun er að leggja mat á. Þar er kannski ekki síst áhugavert að líta á hin minni dæmi sem hér eru tekin því þessi einkavæðingardæmi eru afar mismunandi stór. Langstærsta málið er salan á Síldarverksmiðjum ríkisins sem líka er jafnframt það mál sem hefur verið gagnrýnt hvað harðast, fyrst og fremst hvernig að því var staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu nefndarinnar, einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. En ég fór sérstaklega að skoða mál sem við höfum rætt töluvert mikið á hinu háa Alþingi, t.d. söluna á Menningarsjóði sem var afar umdeilt mál. Og þá vaknar spurningin: Hvað hefur orðið um þjónustuna sem þessi fyrirtæki áttu að veita? Er veitt sama þjónusta? Hafa aðrir tekið við henni eða hvernig er þeim málum háttað? Hefur þessi einkavæðing í raun og veru breytt einhverju, hefur hún einhvers staðar orðið til þess að bæta þá þjónustu sem ríkið veitti áður?
    Eins og ég sé t.d. Menningarsjóð, sem ég endurtek að er lítið dæmi í þessu öllu saman, þá fæ ég ekki séð að það hafi nokkur tekið við hlutverki hans. Hann veitir núna smástyrki til bókaútgáfu en á sama tíma hefur ríkisstjórnin ráðist mjög harkalega að bókaútgáfu í landinu með 14% virðisaukaskatti þannig að í rauninni er þarna um tvöfalda árás að ræða. Ég get ekki séð að þarna hafi þjónusta á nokkurn hátt verið bætt við almenning í landinu. --- Hæstv. fjmrh., ég var að velta fyrir mér því hvað orðið hafi um þá þjónustu sem ríkið veitti í gegnum sum af þessum fyrirtækjum sem það hefur selt.
    Ég vil nefna annað af þessum minni dæmum sem er hönnunardeild Húsnæðisstofnunar. Ég vil taka það fram að ég var algjörlega sammála því að leggja hana niður. Ég held að þar hafi verið um óeðlilegan rekstur að ræða og þess verið dæmi að menn sátu beggja vegna borðsins, voru annars vegar að hanna hús og selja sínar teikningar og hins vegar í sömu stofnun að fylgjast með framkvæmd á byggingum þeirra húsa sem þar höfðu verið hönnuð. Mér þætti forvitnilegt að fá að vita hvort eitthvað hefur í rauninni breyst. Teiknistofan var seld og starfsfólkið keypti og ég spyr: Hefur Húsnæðisstofnun eitthvað breytt starfsháttum sínum? Leitar hún til annarra arkitekta? Það væri fróðlegt að fá að vita það og þar með fylgir auðvitað sú spurning: Hefur einkavæðingin breytt einhverju í þessu efni? Við hljótum eins og ég nefndi áðan að spyrja okkur að því hver markmiðin eru og hverju einkavæðingin skilar. Það er ekki bara tilgangurinn að ná inn einhverjum peningum í ríkissjóð sem reyndar er mjög umdeilanlegt hvort hafi skilað því sem átti að skila. Það hljóta líka að vera spurningar um þjónustuna og um það hvort einkavæðingin breytir einhverju í raun og veru.
    Ég ætla ekki að fara djúpt í önnur dæmi vegna þess að margt af þessu tel ég hafa verið eðlilegt eins og söluna á hlutabréfunum í Gutenberg og Ferðaskrifstofu Íslands svo að dæmi séu tekin. En því er ekki að leyna að það kemur fram býsna hörð gagnrýni af hálfu Ríkisendurskoðunar á það hvernig staðið hefur verið að málum og ekki bara varðandi SR-mjöl heldur fleiri mál. T.d. er gagnrýnt hér að sala hafi ekki verið auglýst, t.d. á Ferðaskrifstofu Íslands á sínum tíma. Það kemur víða fram og sú krafa er gerð, sem er reyndar komin inn í verklagsreglur ríkisstjórnarinnar, að ávallt beri að auglýsa sölu hlutabréfa. Það kemur líka fram að stundum hefur verið selt undir því sem átti að vera markmiðið að ná fram eins og þegar bréfin í Þróunarfélagi Íslands voru seld. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 11 segir einmitt, með leyfi forseta:
    ,,Að mati Ríkisendurskoðunar vekur þessi sala [þ.e. sala á Þróunarfélagi Íslands] upp þá spurningu hvort stundum sé of hratt farið í sakir á sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Í sumum tilfellum kann að vera skynsamlegra að bíða með sölu í þeirri von að hærra verð kunni að bjóðast síðar.``
    Þetta er einmitt spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna varðandi Lyfjaverslun Íslands hvort ekki sé rétt að bíða og sjá hver þróunin verður.
    Það atriði sem fær langsamlega mesta umfjöllun og mesta gagnrýni í þessari skýrslu eins áður er auðvitað salan á SR-mjöli. Hæstv. fjmrh. eyddi nokkrum tíma í það í sinni ræðu að rifja það mál upp og þá gagnrýni sem reynt var að svara af hálfu ríkisstjórnarinnar en auðvitað er augljóst að með því að endurtaka gagnrýni sína hér er Ríkisendurskoðun að leggja áherslu á það að hún hefur ekkert tekið til baka af gagnrýni sinni á þá málsmeðferð. Ég held einmitt að það mál hafi verið til þess að herða á verklagsreglum og menn hafa eflaust gætt því betur eftir það. En það er ekki síst það mál og bæði það hvernig staðið var að verðmati á fyrirtækin og svo sölunni sem veldur auðvitað mikilli tortryggni gagnvart þessum einkavæðingaráformum.
    Það er kannski ekki ýkja mikið meira um þetta að segja. Ég vil aðeins draga það fram aftur að mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að átta okkur á áhrifum einkavæðingarinnar og þá ekki aðeins á ríkissjóð eða rekstur ríkisins því að í sjálfu sér hefur salan á þessum tíu fyrirtækjum haft afar lítil áhrif á rekstur ríkisins. Það eru kannski helst Ríkisskip sem voru rekin með miklu tapi sem munar eitthvað um en þar á móti kemur auðvitað sú spurning sem ég hef nokkrum sinnum nefnt hér í ræðu minni hvað orðið hefur um þjónustuna, hvort þjónustan sérstaklega við landsbyggðina hefur ekki versnað í kjölfar þessarar sölu. Mér hefur nú heyrst landsbyggðarþingmenn halda því fram hér. Síðan er það sú hlið sem snýr að starfsfólkinu. Ég held að við hljótum að verða að átta okkur á því hvaða áhrif einkavæðingin hefur haft og ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hann hafi séð einhverjar tölur eða hvort hann hafi látið gera úttekt á því hver starfsmannaþróun hefur orðið hjá þeim fyrirtækjum, sem hafa verið seld, því að það hlýtur að vera nauðsynlegt að fá slíkar upplýsingar til þess að hægt sé að leggja mat á einkavæðinguna. Ég er ekki búin

að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar frá orði til orðs en ég hef farið nokkuð í gegnum hana og ég hef hvergi rekist á þessar upplýsingar. Það hefur ekki verið kannað hvað gerst hefur í fyrirtækjunum eftir að þau voru seld sem hlýtur auðvitað að vera stór spurning í þessu öllu saman.
    Varðandi sjálft frv. vil ég aðeins segja að mér finnst vera farið hér allt of hratt í þessa sölu og ég er ekki hissa á því að framsóknarmenn sem ákváðu í vor að styðja frv. eftir að samkomulag hafði náðst um það einmitt að deila sölunni með þessum hætti, þ.e. selja fyrst helminginn og bíða síðan átekta og koma til Alþingis og leita heimildar. Ég held að ekki hafi nokkur maður búist við því að það yrði farið svona hratt. Menn yrðu hreinlega að átta sig betur á stöðunni og vega það og meta hvenær væri hægt að fá sem mest fé fyrir þessar eignir. Hér er auðvitað um eignir almennings að ræða sem ber að fara með af fyllstu gát. Ég legg því til að hæstv. fjmrh. hægi nú á sér. Ég skil það auðvitað vel að hann vilji fá peninga í ríkiskassann. Ekki er staðan góð, en hér er um verðmætar eignir að ræða. Hér er um mikilvægt fyrirtæki að ræða og þessi mál snúa auðvitað bæði að starfsfólki og almenningi og ég ítreka þá spurningu mína hvað gert hefur verið vegna öryggishlutverks þessa fyrirtækis.