Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 18:16:31 (2239)


[18:16]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Út af ummælum hv. 1. þm. Austurl. hér í vor þegar frv. var afgreitt sem lög, þá er mér það ljóst að skilningur eða skoðun einhvers einstaks hv. þm. hér í ræðustól getur ekki bundið hendur hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar til lengri tíma. En hér var fyrst og fremst skilningur hv. þm. á því og skýring á því af hverju hann léði þessu máli sinn stuðning og Framsfl. reyndar allur eða þingmenn hans í hv. þingi studdu frv. eins og það var endanlega afgreitt hér, en með ákveðna skoðun eða ákveðin sjónarmið að leiðarljósi. Það var það sem lá að baki hjá okkur og við teljum að það sé ekkert nú í stöðunni sem réttlæti það eða geri það að verkum að eðlilegt sé að fara fram með því offorsi sem okkur virðist hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn nú fara varðandi einkavæðingu á þessu fyrirtæki eða sölu á helmingi af hlutafé fyrirtækisins og getum þess vegna ekki veitt málinu nú þann stuðning sem við gerðum þó í vor með ákveðnum skilyrðum sem okkur finnst nú ekki vera staðið við.
    Varðandi síðan skýrslu Ríkisendurskoðunar þá leyfir ekki tími í örstuttu andsvari að fara yfir þau atriði sem ég var hér að nefna áðan eða tæpa á, að ég teldi að dómurinn eins og hann liggur hér fyrir hafi í raun stutt, og ég styðst þar við þetta bréf eða erindi Ríkisendurskoðunar til Alþingis, skýrslu Ríkisendurskoðunar og álitaefni sem hún setti fram í upphafi í veigamiklum atriðum.