Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 18:22:41 (2242)


[18:22]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Einkavæðingin er á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar og skyldi nú engan undra sem man fáein ár aftur í tímann þegar bókin Uppreisn frjálshyggjunnar kom út og margir af þeim sem eiga aðild að þessari ríkisstjórn og styðja hana skrifuðu greinar sínar í þá bók. Einkavæðingin er út af fyrir sig kannski ekki aðalátakaefni þessa máls sem hér liggur fyrir heldur finnst mér það meira vera hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að þeirri einkavæðingu sem hún hefur staðið fyrir. Ég tel að þar hræði sporin mikið. Mer finnst að þessi hæstv. ríkisstjórn hafi einskis svifist í því að reyna að koma einhvers konar einkavæðingu í framkvæmd og þar hafa meðulin svo sem ekki verið valin kostgæfulega stundum.
    Mér sýnist að þar á bæ sé ekki t.d. haft í heiðri það sem ég tel að eigi að liggja til grundvallar því hvort það sé verið að einkavæða rekstur eða fyrirtæki, þ.e. hvort um sé að ræða starfsemi sem hafi einhvers konar einokun á markaðnum. Það getur verið með ýmsum hætti, bæði vegna fjarlægðar landsins og líka vegna smæðar markaðarins og það er það sem ég held að í mörgum tilfellum þurfi að hafa í huga þegar verið er að velta því fyrir sér hvort það eigi að einkavæða starfsemi. Ég hef ekki á móti því að rekstur af flestu tagi sé í höndum einkaaðila, en það þarf auðvitað að vera hægt að tryggja að sá rekstur sé þá rekinn í einhverju eðlilegu starfsumhverfi þar sem aðrir einstaklingar eða fyrirtæki hafa möguleika til þess að bjóða fram sína þjónustu á sambærilegum grundvelli og sá aðili sem veitir þessa þjónustu hefur.
    Hæstv. forseti. Þegar rætt var um Lyfjaverslun ríkisins 14. apríl á þessu ári, þá sagði ég eftirfarandi orð, með leyfi forseta, og ég sé ástæðu til þess að endurtaka þau hér:
    ,,Ég kem í þennan ræðustól fyrst og fremst í þeim tilgangi að láta það koma fram að ég er andvígur þessu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins. Aðalástæðan fyrir því að ég er andvígur þessu frv. er sú að ég treysti ekki þessari ríkisstjórn fyrir húshorn með hf. upp á vasann í neinu félagi. Reynslan af einkavæðingu hæstv. ríkisstjórnar er með þeim endemum að það er ekki hægt að halda áfram nema það verði einhvers konar stefnubreyting hjá ríkisstjórninni og að það verði algerlega ljóst og klárt með hvaða hætti eigi að standa að einkavæðingu á hennar vegum.``
    Ég endurtek þessi orð hér vegna þess að ég sé ekki að hæstv. ríkisstjórn hafi breytt vana sínum í þessum efnum. Og þó að hér láti hæstv. fjmrh. af þeim verklagsreglum sem einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar hefur komið sér upp og að þær eigi að tryggja að farið sé skynsamlega að við einkavæðingu fyrirtækja, þá minni ég á það að þessar verklagsreglur höfðu verið samþykktar af hæstv. ríkisstjórn þegar einkavæðing Síldarverksmiðja ríkisins fór fram. Og mig undrar það nú ekki þó að það ergi hæstv. fjmrh. að Ríkisendurskoðun skuli vera við sama heygarðshornið með gagnrýni sína á sölu á því fyrirtæki vegna þess að auðvitað braut hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hennar þessar verklagsreglur í mörgum atriðum þegar salan á SR-mjöli fór fram.
    Það er ástæða til þess að rifja það upp að þegar salan á SR-mjöli hf. stóð til þá var að tillögu stjórnar SR-mjöls, þá skipaði hæstv. sjútvrh. með bréfi dags. 13. október starfshóp til að annast undirbúning og sölu á hlutabréfum í félaginu. Í skipunarbréfi til starfshópsins sagði m.a. um verkefni hans: ,,Skal hópurinn standa að undirbúningi í samræmi við tillögur stjórnar og með hliðsjón af verklagsreglum við framkvæmd einkavæðingar.``
    Þarna var því skýrt komið á framfæri að það ætti að hafa þessar einkavæðingarreglur eða verklagsreglur um einkavæðingu til hliðsjónar við einkavæðingu SR-mjöls hf. En það var auðvitað ekki gert og Ríkisendurskoðun er að benda á það hér á bls. 7 í sinni skýrslu, þar segir nefnilega: ,,Ríkisendurskoðun er sammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í verklagsreglum um framkvæmd einkavæðingar sem samþykktar voru af ríkisstjórn sl. haust. Að mati stofnunarinnar eru þessar reglur vel til þess fallnar að stuðla að vönduðum framgangsmáta þegar kemur að sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins.``
    Síðan koma áherslur Ríkisendurskoðunar sem flestar fara saman við þær áherslur sem eru í verklagsreglum einkavæðingarnefndarinnar og Ríkisendurskoðun er í raun og veru að snupra hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. með því að leggja málin fyrir með þessum hætti.
    Ég tel að það sé einsýnt og hljóti að vera augljóst hverjum þeim manni sem hefur fylgst með sölunni á SR-mjöli hf. að þarna var ekki farið að þeim reglum sem þarna eru settar fram, enda spyr ég hæstv. fjmrh.: Er hann tilbúinn að halda því fram að það eigi að standa að einkavæðingu ríkisfyrirtækja með sama hætti og gert var þegar salan fór fram á SR-mjöli? Mér þætti vænt um að fá það hér staðfest úr því að hæstv. fjmrh. hristir höfuð sitt yfir því sem ég er hér að segja. Það væri þá a.m.k. skýrt í hugum þeirra sem hlýða á þessa umræðu að hæstv. fjmrh. telji að það hafi allt verið með felldu í sambandi við söluna á SR-mjöli hf.
    Ég vil aðeins fara yfir það mál vegna þess að ég tel að það sé eitt af allra stærstu málum sem hér hafa raunverulega verið til afgreiðslu á hv. Alþingi á undanförnu kjörtímabili. Þetta stóra fyrirtæki sem var búið að vera í eigu ríkisins í 63 ár var selt fyrir fáeinar krónur um síðustu áramót og með þeim eindæmum að það er ekki vafi á því að enginn einkaaðili hefði nokkurn tímann látið sér detta til hugar að selja fyrirtækið með þeim hætti sem gert var. Geti hæstv. fjmrh. komið því heim og saman hvernig staðið var að því að selja þetta fyrirtæki við verklagsreglur sem hér hafa verið til umræðu frá einkavæðingarnefndinni og ríkisstjórnin hefur lagt blessun sína yfir þá segi ég nú bara að óhætt sé að fleygja þeim verklagsreglum á haugana því þær gera þá ekki það gagn a.m.k. að tryggja Íslendingum að það sé farið með eðlilegum hætti með eigur þeirra sem seldar eru frá ríkinu.
    Það er hverjum manni ljóst sem hefur fylgst með stöðu fyrirtækisins SR-mjöls hf. að þar varð viðsnúningur algjör á rekstri fyrirtækisins og það var mikill hagnaður af rekstri fyrirtækisins á árinu 1993. Á fyrri hluta ársins var reksturinn í góðu jafnvægi en á síðari hluta ársins var mikill gróði af rekstri fyrirtækisins, yfir 220 millj. Fyrirtækið hafi verið rekið, eins og ég sagði áðan, í 63 ár í eigu ríkisins og hafði auðvitað gengið á ýmsu eins og gengur í sjávarútveginum en ríkið hafði aldrei lagt peninga til þessa fyrirtækis. Það hafði aldrei verið gert. Hins vegar tók hæstv. ríkisstjórn þá ákvörðun þegar hún ákvað að selja fyrirtækið að það þyrfti að leggja því til peninga svo það væri hægt að selja það. Það tel ég að hafi verið rangt mat á stöðu fyrirtækisins. En aðalatriðið að mínu viti var þó það að það var mjög heimskulegt af eigendum fyrirtækis eins og SR-mjöls hf. að fara í það að selja það einmitt á þeim tíma sem það var að byrja að skila hagnaði eins og raunin var, eftir langt erfiðleikatímabil þar sem ekki hafði mátt veiða loðnu og verð á mörkuðum hafði líka verið lágt.
    Hæstv. ráðherra talaði áðan um það í sambandi við umfjöllun um SR-mjöl að það væri ástæða til þess að gleðast yfir því að menn fengju skatta af fyrirtækjum sem ríkið væri búið að selja, m.a. ætti að reikna sér gróðann af því. Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi nokkuð reynt að átta sig á því hvað hann fái mikinn skatt af rekstri SR-mjöls á næstunni. Honum hlýtur að vera kunnugt um að til þess að hann fái einhverja aura frá SR-mjöli þá þarf að vera a.m.k. 100 millj. kr. hagnaður af því fyrirtæki á hverju ári. Fyrr kemur ekki peningur í ríkissjóð frá því fyrirtæki á næstu árum.
    Það svo sem ærir kannski óstöðugan að fara aftur yfir þá hluti hér, þ.e. stöðu SR-mjöls þegar það var selt en ég læt mér nægja að benda á örfá atriði sem skipta máli í þeirri umræðu en það er það að fyrirtækinu voru lagðar til 520 millj. frá ríkinu. Þetta fyrirtæki var í miklum hagnaði eins og ég sagði áðan á þessum tíma og þá var hagnaður á fyrirtækinu upp undir 230 millj. á ársgrundvelli. Þegar fyrirtæki er selt um áramót þá eru raunskuldir fyrirtækisins ekki nema u.þ.b. 542 millj. Eigið fé fyrirtækisins er þá talið vera um 1.311 millj. og hafði vaxið um yfir 300 millj. á fimm mánuðum en það hafði vaxið úr 23 millj. um næstu áramót á undan í þessar 1.311 millj. sem fyrirtækið var komið í þarna um áramótin 1993. Þannig að það hljóta allir menn að sjá að þarna var á ferðinni mjög athyglisverð þróun hjá þessu fyrirtæki og það að þetta fyrirtæki skyldi eiga varasjóð um áramótin upp á 660 millj. kr. og að raunskuldir fyrirtækisins væru

ekki nema rúmlega hálfur milljarður hlýtur að vera sönnun um það að þarna hafi menn farið illa með fé sem ríkið átti. Það er fleira sem bendir til þess sem ég er hér að segja.
    Það var nú þannig að það voru nokkrir aðilar sem höfðu áhuga á að kaupa SR-mjöl þegar það var til sölu og það voru líklega 14 aðilar sem sendu inn tilboð um það að taka þátt í að kaupa fyrirtækið. Niðurstaðan af því var að með miklum hraða var þetta afgreitt um áramótin og þeim aðilum sem höfðu áhuga á að kaupa fyrirtækið var ekki gefið tækifæri nema einum til samningagerðar. En það var slíkur hraði á afgreiðslu málsins að það þurfti greinilega að afgreiða það fyrir áramótin eins og ég sagði áðan og ríkisstjórnin hefur lagt einhvers konar ofuráherslu á að það yrði hægt að skrifa einkavæðingarreikninginn fyrir árið 1993 en ekki 1994. Það tókst hins vegar ekki vegna þess að það var af tæknilegum ástæðum ekki hægt að ganga frá málinu með fullnægjandi hætti.
    En hvað gerist síðan í framhaldi af þessu? Það gerist að einn af þeim sem bauð í fyrirtækið, þ.e. Andri hf., kærði meðferð málsins. Í þeirri kæru er sem sagt verið að kæra ýmislegt í meðferð þessa máls en kærunni var síðan hafnað og sá sem rekur fyrirtækið, Haraldur Haraldsson, sem höfðaði þetta mál til riftunar á kaupsamningnum vísaði þessu máli áfram í dómskerfinu en síðan var fallið frá áfrýjun málsins. --- Nú tel ég að sé ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að hlusta á mál mitt vegna þess að mig langar til að spyrja hann álits á því hvers vegna Andri hf. féll frá málsókn á hendur ríkinu í þessu máli. Skyldi það geta verið að það hafi eitthvað tengst öðru máli sem SR-mjöl sótti á hendur Andra hf. og var fallið frá á sama tíma og dregin til baka kæra í því máli líka? Ég tel að það geti verið. Forsaga málsins er sú að Síldarverksmiðjur ríkisins tóku þátt í rekstri fyrirtækis sem hét Ísmjöl hf. Þetta fyrirtæki var samstarfsfyrirtæki um það að flytja út mjöl frá Íslandi. Andri hf. tók að sér að reka þetta fyrirtæki, Ísmjöl hf., fyrir eigendurna. Andri hf. stóð ekki við þá samninga sem höfðu verið gerir um rekstur fyrirtækisins og þess vegna hófust málaferli við Andra hf. út af þessu máli. Þegar síðan Andri hf. ákveður að taka þátt í því að byggja loðnuverksmiðju á Austfjörðum þá var hann allt í einu kominn í öðruvísi aðstöðu heldur en áður. Þá þurfti hann á friði að halda. Hann þurfti að fá að byggja verksmiðju fyrir austan til þess að fara í samkeppni við SR-mjöl hf. Og af einhverjum ástæðum varð það að samkomulagi milli þessara tveggja aðila að fella niður málshöfðanir hvor á hendur öðrum. Skyldi það geta verið að sjútvrn. ætti einhvern hlut að þessu máli? Ég spyr hæstv. fjmrh. einfaldlega vegna þess að Andri hf. hefur auðvitað þurft á að halda velvild í sjútvrn. vegna aðstöðu sinnar. ( GunnS: Hver á hlut að framförum á Fáskrúðsfirði, ekki stjórnarandstaðan?) Ég vil biðja hv. frammíkallanda að gera mér það ekki upp að ég sé að velta því fyrir mér hvort menn séu í stjórn eða stjórnarandstöðu þegar er verið að ræða þetta mál. Þetta mál er miklu stærra heldur en svo að ég geti verið að hugsa á þeim nótum. Ég tel að þetta sé eitthvert stærsta mál sem hefur verið á ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn og hefur verið rætt í Alþingi á þeim tíma sem ég hef setið á þingi. Ég tel að í þessu máli hafi mönnum skotist svo illa með meðferð fjármuna ríkisins að það sé vítavert að það skuli vera þegar upp er staðið niðurstaðan að ríkið fái sem svarar á milli 100 og 200 millj. fyrir eigur sínar í þessu stóra ríka fyrirtæki sem SR-mjöl er, það er niðurstaða sem hlýtur að vekja mikla athygli og verða til umhugsunar fyrir kjósendur þessa lands þegar þeir ganga næst að kjörborðinu.
    Mér finnst, hæstv. forseti, að það sé ástæða til þess að taka það fram að umræðan sem hefur farið fram á nýliðnu hausti um það hvort bera eigi fram vantraust á einstaka ráðherra hafi gert gott að því leytinu til að hún hefur a.m.k. sannfært mig um að það voru mistök bæði mín og annarra sem gagnrýndu þessa sölu á sl. vetri að leggja ekki fram vantraust á þá ráðherra og ríkisstjórnina fyrir hvernig hún stóð að þessu máli því þar tel ég að hafi verið farið verst með fjármuni ríkisins, a.m.k. af þeim málum sem ég þekki til.
    Eins og ég sagði áðan þá lýsti ég því yfir í fyrra við umræðuna um sölu á Lyfjaverslun ríkisins að ég treysti hæstv. ríkisstjórn ekki fyrir húshorn með hf. upp á vasann vegna þeirrar reynslu sem var af þessu máli. Ég endurtek það hér að ég tel að það sé engin ástæða til þess að gefa hæstv. ríkisstjórn leyfi til að selja afganginn af hlutabréfunum í þessu fyrirtæki. Ekki bara vegna þess að það sé ekki hægt að treysta hæstv. ríkisstjórn til að standa að þessari sölu, við vitum nokkurn veginn hvernig meiningin er að standa að henni, heldur líka vegna þess að þetta fyrirtæki hefur verið lengi í eigu ríkisins og ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess að flýta sér um of við að selja fyrirtækið að öllu leyti. Við getum alveg beðið um svolítinn tíma og séð hvernig það reynist að reka þetta fyrirtæki sem hlutafélag og við skulum láta ríkið halda áfram að eiga það mikinn hlut í þessu fyrirtæki að það sé hægt að skipta sér af rekstri þess og taka þátt í breytingum á honum ef til þarf að koma.
    Nú hefur komið frá ríkisstjórninni tillaga um það að selja það sem eftir er af eigum ríkisins í Bifreiðaskoðun Íslands. Það er eitt af þessum hörmungarmálum sem staðið hefur verið að á hv. Alþingi og það er þó ekki þessi hæstv. ríkisstjórn sem byrjaði þann leik heldur var það sú ríkisstjórn sem sat þar á undan og henni skaust nú heldur betur, því miður, við undirbúning þess máls. En sú hv. ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki bætt um betur. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að selja síðari hlutann af þeim hlutabréfum sem ríkið átti í þessu fyrirtæki. En hvernig er staða þess fyrirtækis? Staðan er sú að þetta fyrirtæki hefur einokunaraðstöðu á markaðinum og það eru litlar líkur, því miður, mjög litlar líkur á því að það sé að breytast. Hvað hefur það þá í för með sér? Það hefur það í för með sér að þessu fyrirtæki er sleppt lausu á neytendur, þ.e. bifreiðaeigendur í landinu með þessa einokunaraðstöðu. Spor þess fyrirtækis hræða nú þegar þrátt fyrir að ríkisstjórnin eigi að geta haft áhrif á rekstur fyrirtækisins og ákvarðanir enn þá en

það hefur ekki dugað til.
    Nú eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar að selja það sem eftir er af hlutabréfunum, og hvað mun það þýða? Mun það ekki þýða það að þetta fyrirtæki mun halda áfram að ganga þá götu sem það hefur gert, að leggja niður þjónustuna út um allt land því að það eina sem þetta fyrirtæki virðist vera að hugsa um er hvað verður mikið eftir af gróða í kössum þess. Það hefur engu máli skipt þó að mönnum hafi verið boðið upp á að aka jafnvel hundruð kílómetra til þess að geta farið með bílana sína í skoðun. Ég tel að það sé ekki rétt að selja hlut ríkisins í því fyrirtæki nú eins og ástatt er öðruvísi en það sé þá séð til þess að með einhverjum hætti verði hafin samkeppni við þetta fyrirtæki eða þá að þessu fyrirtæki verði gert með einhverjum hætti að veita eðlilega þjónustu. Hugmyndir á þessum bæ eru með ólíkindum. Það var t.d. ætlast til þess að Vestmanneyingar færu með bílana sína upp á Hellu til þess að láta skoða þá. Það hefur verið ætlast til þess að allir Snæfellingar og íbúar langleiðina vestur á firði keyrðu til þess að láta skoða bílana sína í Borgarfirði og allt annað hefur verið eftir þessu. Ég tel að það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því ef menn ætla að halda áfram einkavæðingu þar sem menn taka ekki tillit til möguleika viðkomandi reksturs til þess að fá á sig einhvers konar samkeppni og ég tel að það sé full ástæða til þess að fresta því að selja hlut ríkisins í þessu fyrirtæki beinlínis af þeim ástæðum að menn hafa ekki séð hver árangurinn verður af þessari breytingu á rekstrinum og ég held að það sé full ástæða til þess vegna þeirra mála sem hafa verið uppi á undanförnum árum að fylgjast með grannt hvernig rekstur þessa fyrirtækis breytist og leyfa samkeppnisaðilunum að fá tækifæri til þess að sýna sína möguleika til að keppa við þetta fyrirtæki áður en það verður endanlega selt og ríkið hættir að eiga möguleika til þess að hafa áhrif á rekstur þess.