Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 20:35:15 (2247)

[20:35]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar verið var að ræða fyrir þinglok sl. vor og samþykkja frv. til laga um að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag voru það ákveðin atriði sem voru rædd í þeim umræðum sem urðu til þess að samkomulag náðist og það voru fleiri en stjórnarliðar sem ákváðu að samþykkja það frv. Þau atriði hafa verið rifjuð nokkuð upp í umræðunni og er alveg greinilegt að ekki á að fara eftir því sem þar var talað um. Mér finnst rétt að rifja aðeins upp að það koma m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins nokkur atriði sem Ríkisendurskoðun bendir á að þurfi að vera til staðar þegar verið er að einkavæða og selja ríkisfyrirtæki.
    Ég ætla aðeins að taka nokkur atriði úr þeim ábendingum sem mér finnst skipta mestu máli og ég vil biðja hæstv. fjmrh. að hlusta eftir því og vita hvort hann telur að við þeim atriðum sé orðið með þessu frv. Með leyfi forseta, segir hér:
    ,,Áður en sala á sér stað þarf að liggja skýrt fyrir hver séu markmiðin með sölunni þannig að hægt sé að ganga úr skugga um með óyggjandi hætti hvort þau hafi náðst.``
    Í öðru lagi að lögfesta þurfi reglur sem kveða í meginatriðum á um hvernig standa beri að sölu á eignum ríkisins.
    Þriðja sjónarmiðið sem ég tel rétt að nefna er að gefa þarf hæfilega rúma tímafresti þegar fyrirtæki eru boðin til sölu og nauðsynlegt er að eftir hverja eignasölu sé útbúið uppgjör sem sýnir söluverð og ráðstöfun eigna, uppgjör skulda og kostnað samfara sölunni.
    Því er ég að nefna þessi atriði hér sérstaklega að ég tel að þegar ákveðið var að stofna hlutafélag um Lyfjaverslun ríkisins þá hafi markmiðið eða tilgangur frv. fyrst og fremst verið að einkavæða, sem sagt fyrst og fremst verið að breyta Lyfjaversluninni í hlutafélag og afla heimilda fyrir sölu. En markmiðið í sjálfu sér, hvert var markmiðið fyrir ríkið, hvert var markmiðið til hagsbóta fyrir íbúa landsins? Ég tel ekki að það hafi komið nægilega skýrt fram.
    Í öðru lagi að lögfesta reglur sem kveða í meginatriðum á hvernig standa beri að sölu á eignum ríkisins.
    Það var að vísu búið að setja verklagsreglur sem ríkisstjórnin setti sér en það kemur fram í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar um það hvernig staðið hefur verið að sölu á fyrirtækjum að eftir þeim verklagsreglum hefur ekkert alltaf verið farið eftir að þær voru settar og nægir þar að nefna SR-mjöl.
    Það er því spurning og ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé ekki í bígerð að fara eftir því sem hér er kveðið á um að mjög eðlilegt sé að lögfesta reglur um hvernig eigi að standa að sölu á eignum ríkisins.
    Nú er það svo að fasteignir ríkisins, jarðir og fasteignir, eru aldrei seldar nema samkvæmt lögum en það er ekki mikið sem kveður á um það hvernig skuli standa að sölu á hlutabréfum þannig að þarna þarf greinilega að gera betur.
    Það er einnig þessi ábending að gefa hæfilega rúma tímafresti. Ég tel að það hafi ekki alltaf verið gert og mér þætti ágætt ef hæstv. ráðherra svaraði því hvort hann telur að það hafi alltaf verið gert og nægir þar einnig að nefna SR-mjöl.
    Síðan í fjórða lagi að það sé nauðsynlegt eftir hverja eignasölu að útbúa uppgjör sem sýnir söluverð og ráðstöfun eigna, uppgjör skulda og kostnað samfara sölunni. Það hefur að vísu verið metið nokkuð í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar en ég hefði talið mjög eðlilegt í þessu máli sem við erum að ræða

núna um Lyfjaverslun Íslands að það væri metið eftir einhvern tíma, t.d. 2--3 ár, hvernig til hefur tekist með þá sölu sem þegar er búin að fara fram áður en ákveðið væri að fara að selja það sem eftir er.
    Einnig kom fram í 4. gr. frv. um hlutafélag um Lyfjaverslun Íslands sem var rætt í fyrra að við sölu hlutabréfanna skuli þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja. Það átti að vera eitt af þeim markmiðum sem sett voru í lögunum.
    Það er kannski rétt að rifja það aðeins upp sem ég spurði um áðan í andsvari mínu við ræðu hæstv. ráðherra í upphafi þessa máls hvort hann teldi að það yrði hægt að gæta þess að samkeppni væri tryggð, þ.e. hvort hann héldi að það yrði áfram dreifð eignaraðild eða hvort þeir sem núna eru að fjárfesta í þessum hlutabréfum mundu selja þau mjög fljótlega aftur. Eftir því sem af svari hans mátti ráða þá fannst honum það ekki trúlegt að það mundi verða selt mikið aftur og ekki mikil hætta á því þó að hann gæti auðvitað ekki spáð fyrir um það með neinni vissu.
    Það er því kannski rétt að rifja líka upp eina ábendingu í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem segir svo um hvernig hafi farið með sölu á fyrirtækjum og þátttöku almennings í þeim kaupum í Bretlandi, en oft er vitnað til þess lands þegar verið er að einkavæða fyrirtæki. Það segir svo í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:
    ,,Í Bretlandi, þar sem mikil áhersla var lögð á þátttöku almennings í hlutafjárkaupum þegar ríkisfyrirtæki voru einkavædd, hafa vaknað efasemdir um árangurinn. Ýmsar aðgerðir sem var ætlað að hvetja smærri fjárfesta til að kaupa hlutabréf eru mjög dýrar og það hefur komið í ljós að þessir aðilar hafa selt bréfin fljótlega aftur. Að meðaltali var þriðjungur bréfanna seldur fyrsta mánuðinn eftir kaupin og tæpur þriðjungur næstu mánuði á eftir. Árið 1989 áttu einstaklingar 20% breskra hlutabréfa samanborið við yfir 50% í upphafi sjöunda áratugarins. Meiri hluti hlutabréfa þar í landi er nú í eigu ýmissa fjármálastofnana.``
    Þannig er full ástæða til þess að efast um það að því markmiði verði náð sem segir hér í 4. gr. að við sölu hlutabréfanna skuli þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu. Það er sem sagt mikil hætta á því að þó að hugsanlega verði dreifð eignaraðild núna þegar verið er að selja þessi hlutabréf þá geti þau fyrirtæki sem eru ráðandi á lyfjamarkaðinum fest kaup á þessu eða einhver sterk fjármálafyrirtæki. Og þá er nú það sjónarmið farið fyrir bí sýnist mér.
    Það er því ekki nema eðlilegt að það gæti nokkurrar tortryggni þegar verið er að ræða hér um að selja það sem eftir er af þessum hlutabréfum svo fljótlega eftir að búið er að selja helminginn af þeim og ekki mjög langt síðan þetta fyrirtæki var stofnað eða breytt í hlutafélag þannig að enn hefur ekkert sést um það hvernig þessari eignaraðild verður háttað og hvernig áhrifin verða af þessu í framtíðinni. Það hefði því, eins og ég sagði áðan, verið mjög eðlilegt að bíða með eins og reiknað var með raunar í umræðunni í fyrra að það yrði ekki seldur nema helmingurinn af þessum bréfum.
    Það er líka hægt að rifja það upp sem skrifað var í apríl sl. um einkavæðingu fyrirtækja en það sagði í leiðara DV 6. apríl sl. þar sem verið er að ræða einkavæðingu og fyrst nefnt að ríkissjóður hafi selt sinn hlut í SR-mjöli. Síðan er því haldið fram að það sé gagnrýni á þetta vegna þess að það séu fullyrðingar um að forréttindamönnum hafi verið hyglað í þeirri sölu sem ég held að margir efist nú reyndar ekkert um.
    ,,En hvað sem þeirri fullyrðingu líður`` --- segir hér, með leyfi forseta, ,,þá blasir það við að SR-mjöl hefur verið rekið með hagnaði og raunar var arður greiddur út skömmu eftir að sala átti sér stað. Í hópi kaupenda voru fjársterkir aðilar sem nú þegar eru eigendur að mörgum af sterkustu fyrirtækjum landsins.``
    Það var óneitanlega merkilegt þegar staðið var að þessari sölu því nokkrum dögum síðar var það upplýst að hægt var að greiða allmikinn arð af þessu fyrirtæki. Sama gerðist einnig með söluna á Þormóði ramma sem fór fram sl. vor að arður af hlutabréfunum var greiddur nokkrum dögum eftir sölu.
    Það er því greinilegt að það hefur verið búið að reikna það vel út áður en þeir aðilar keyptu þetta að þeir gætu fengið þetta greitt aftur sem út var lagt í bili a.m.k. með þeim arði sem greiddur yrði nokkru síðar.
    Nú var það auðvitað fyrirhugað að selja þessi fyrirtæki til þess að minnka yfirbyggingu ríkisins, eða ég geri fastlega ráð fyrir því, ég ætla ekki hæstv. fjmrh. annað en að hann hafi þarna verið að huga að eða a.m.k. ekki ætlað sér annað en að huga að rekstri ríkisins og gera hann hagstæðari en það er hægt að velta því fyrir sér í sambandi við söluna á SR-mjöli hvort svo verður í raun og veru. Því er einnig hægt að velta fyrir sér í framhaldi af þessu frv. sem hér liggur frammi.
    Hingað til hafa SR-verksmiðjurnar sjálfar verið með þau hafnarmannvirki sem þær hafa þurft á að halda. Það hefur hins vegar komið í ljós að þeir aðilar sem nú standa að rekstri SR-verksmiðjanna úti um landið líta svo á að þeir þurfa ekki lengur að reka sín hafnarmannvirki sjálfir heldur leita þeir nú á náðir Alþingis með það að komast inn á hafnaáætlun til þess að fá framlag til nýrra bryggja í sambandi við sín fyrirtæki.
    Samkvæmt því sem við höfum fengið upplýsingar um í fjárln. þá er fyrirhugað að leggja fram framlag til löndunarbryggju á Siglufirði og einnig framlag til löndunarbryggju á Seyðisfirði í tengslum við verksmiðjur SR. Þannig að það er alveg greinilegt að ríkið var nú ekki að koma því af sér að sjá um allt sem til þurfti í kringum þessar verksmiðjur því þær sáu sjálfar um þessar framkvæmdir og gátu staðið undir því. Ríkið þurfti ekki að leggja þessu til en nú er aftur á móti ætlast til þess að það sé inni í hafnaáætlun að byggja bryggjur sem þarf við þessar verksmiðjur.
    Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á því í þessari umræðu hvort þau markmið sem hafa verið sett eða áttu að vera með þessum einkavæðingarmálum hafi náðst. Hefur það virkilega náðst að það sé einhver sparnaður fyrir ríkið að losna við þessi fyrirtæki? Það er nú ekki hægt að segja að þau hafi verið seld með neinum gróða því þau hafa nánast flest verið gefin, það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að heildarsala á þessum fyrirtækjum á þessu kjörtímabili er eitthvað í kringum 800 millj. kr. allt í allt sem búið er að hafa upp úr þessu þennan tíma þannig að ekki eru það stórar upphæðir. Í sumum tilfellum hefur ríkið ætlað sér að einkavæða til að þurfa þá ekki að standa í atvinnurekstri en mér er spurn hvort það hefði nokkuð skaðað þó að ríkið hefði staðið áfram í þessum atvinnurekstri, a.m.k. ekki farið mjög skarpt í einkavæðingu heldur skoðað það mál hvað væri hagstæðast til lengri tíma litið og hvað væri betra, ekki bara út frá því að einkavæða einkavæðingarinnar vegna heldur vegna þess að þetta væri hagstætt bæði fyrir ríkið og íbúa landsins. Ég tel að þeirra sjónarmiða hafi ekki verið gætt.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi þá tel ég að hér hafi ekki verið hugsað nægilega vel um hag ríkisins og landsmanna allra. Þessi fyrirtæki mörg hver sem hafa verið seld hafa ekki verið neinn baggi á ríkinu, síður en svo. Þau hafa skilað ágætum hagnaði á undanförnum árum og nægir að minna á það fyrirtæki sem við erum að ræða sem hefur skilað um 60 millj. kr. árlega.
    Virðulegi forseti. Ég hef komið því á framfæri sem ég taldi rétt að bæta inn í umræðuna og ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti svarað því að einhverju leyti.