Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 20:57:01 (2250)


[20:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar rætt er um sölu á þessu fyrirtæki, þ.e. síðari hluta hlutabréfanna, þ.e. þeirra sem eftir eru í eigu ríkisins, þá verður að hafa það í huga að ákvörðun ríkisstjórnarinnar að freista þess að fá þetta frv. fram byggist á því að nú séu góð og hagstæð markaðsskilyrði af því að fá bréf séu í boði og

þess vegna sé almenningur tilbúinn til að kaupa þessi bréf og því mun fleiri sem vilja gera það, þeim mun betra því að þá verður dreifðari eignaraðild. Þetta er hugmyndin að baki þessu frv. Það stóð alltaf til að reyna að selja afganginn á næsta ári eins og fram kemur í fjárlögum.
    Vegna fyrirspurnar í aðalræðu hv. þm. um samantekt á tillögum um ábendingu Ríkisendurskoðunar, sem kemur fram á bls. 43 í skýrslunni, þá vil ég láta það koma fram sem mitt álit af því að spurt var að að langmestu leyti eru þetta atriði sem ég tel sjálfsagt að hafa að leiðarljósi og eru reyndar höfð að leiðarljósi í flestum tilvikum. Um það hvort eigi að lögfesta reglur finnst mér það vel koma til greina og ég tel að flestallt sem kemur fram í upptalningunni á bls. 43 séu atriði sem hiklaust eigi að taka og nota til hliðsjónar við frekari störf í einkavæðingu enda hefur starfsemi einkavæðingarnefndarinnar og sala ríkiseigna sem fer fram á vegum hennar og fjmrn. stöðugt farið fram. Það er sífellt verið að taka upp nýjar og betri reglur, ný og betri vinnubrögð.