Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 21:21:27 (2255)

[21:21]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er svona spurning hvort það tekur því að koma hér í stólinn og reyna að koma sannleikanum til skila þegar hv. frændi minn þingmaðurinn á í hlut. En ég ætla að endurtaka það og segja það skýrum orðum að það er að mínu viti ekkert athugavert við það hvernig farið var með innheimtumálið sem snerti Geir goða og eigendur þess skips, akkúrat ekkert. Þvert á móti ef hefði verið farið öðruvísi að þá hefði það verið aðfinnsluvert. Þetta vil ég segja í fyrsta lagi. Þetta er venjulegt innheimtumál. Ríkið fékk sitt, fyrri eigendur sátu uppi með skipið eðlilega og skip og kvóti eru á sínum stað.
    Í öðru lagi um hlutafélag. Ég ætla að reyna einu sinni enn. Það er alveg ljóst að það hefur þýðingu fyrir sum opinber fyrirtæki að vera í hlutafélagsformi vegna samkeppninnar. Svo segir hv. þm. að hann haldi að tilgangurinn sé að ríkisstjórnin eða ákveðnir ráðherrar vilji koma gæðingum sínum inn í stjórnir þessa hlutafélags. Það er einu sinni þannig að það eru til hlutafélög á Íslandi sem ríkið á aðild að og sem þingið kýs stjórn í. Það er því ekkert útilokað að þingið kjósi í stjórn hlutafélags sem er rekið alfarið í nafni ríkisins og í eigu ríkisins eða að hluta til í eigu ríkisins, hvort tveggja þekkist. Það er meira að segja þannig að þegar um sameignarfélög er að ræða eins og t.d. Landsvirkjun þá kýs þingið í stjórn Landsvirkjunar. Meira að segja hv. þm. hefur verið kosinn í stjórn Landsvirkjunar þó hann hafi ekki stutt þá ríkisstjórn sem þá var við völd.
    Þetta ætti kannski hv. þm. aðeins að hugsa um þegar hann lætur aðra eins vitleysu koma út úr sér og hann gerði í svari við andsvari.