Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 21:24:11 (2257)


[21:24]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég lofaði hæstv. fjmrh. því að ég skyldi ekki svíkja hann um almennar umræður um einkavæðingarmál úr því að hann hóf þær fyrr í umræðunni í dag og tók sér m.a. fyrir hendur að lýsa inn í minn hugarheim og tala fyrir mína hönd og mínar skoðanir í þeim efnum. Ég er bæði þakklátur fyrir það og feginn að fá þetta tækifæri til að ræða þessi mál lítillega á almennum nótum við hæstv. fjmrh. um leið og við ræðum áfram þetta mál um einkavæðingu og útsölu á eftirstandandi 50% eignarhlut í Lyfjaverslun Íslands.
    Þannig er nú að það var hæstv. fjmrh. sem kom með þennan kaldastríðstón inn í umræðuna og stillti þessu upp í gamalkunnar andstæður austurs og vesturs, lýðræðissinna og einræðissinna, frjálslyndrar hugsunar og þröngsýnnar o.s.frv. og var að sjálfsögðu sólarmegin í öllu saman sjálfur að eigin mati, en sá sem hér talaði sérstakur fulltrúi afturhaldsins í þessum efnum. Í grófum dráttum var þessi einfalda og notalega heimsmynd hæstv. fjmrh. svona. Nú má hann hafa hana í friði og vera sæll með hana fyrir sér enda hefur hann upplýst þjóðina um það í sjónvarpsviðtali að hann sé í góðu skapi þrátt fyrir alla erfiðleikana, verkföll og óáran af ýmsu tagi og er það vel. Í stuttu máli sagt varðandi mín viðhorf til þessara mála, þó að þau hafi reyndar oft komið fram í umræðum áður, þá hef ég sjálfur átt þátt í því og stutt í einstökum tilvikum frumvörp til breytinga á fyrirtækjum sem áður hafa verið í eigu hins opinbera og ekkert talið athugavert við það þegar eðli þeirrar starfsemi eða breyttar aðstæður hafa kallað á slíkt. Þessu til sannindamerkis gætu menn flett upp í þingtíðindum bæði þegar breytingar á Ferðaskrifstofu ríkisins og fleiri mál voru hér til umræðu.
    Ég hef hins vegar verið ófeiminn við það, jafnvel þegar mesta tískubylgjan í einkavæðingarfárinu gekk yfir, að krefjast þess að menn rökstyddu sín sjónarmið í þessum efnum, menn færðu fram einhver haldbær rök fyrir því að breyta eignarhaldi eða rekstrarformi fyrirtækja en gæfu sér það ekki fyrir fram á grundvelli einhverrar kreddu að það væri ævinlega og alltaf og alls staðar rétt og betra að fyrirtæki hyrfu úr eigu hins opinbera án tillits til mikilvægis eða eðlis þeirrar starfsemi sem þau hefðu með höndum. Ég skrifa með öðrum orðum ekki upp á einkavæðingu af því bara, bara af því að það eigi að einkavæða út í bláinn og út í loftið og held að margt sé enn sem komið er a.m.k. á þann veg farið hjá okkur Íslendingum í okkar tiltölulega og litla einangraða hagkerfi og miðað við okkar sérstöku aðstæður að við þurfum að hafa vitið fyrir okkur í þessum efnum og ekki ana áfram í einhverri blindri trú á erlendar kennisetningar um einkavæðingu. Mér finnst einkavæðingarkreddan bera hæstv. fjmrh. ofurliði iðulega. M.a. teldi ég skynsamlegt að fara mjög gætilega í breytingar á rekstrarformi þessa fyrirtækis sem hér á í hlut, Lyfjaverslunar ríkisins. ( Fjmrh.: Íslands.) Íslands sem nú heitir, hf. meira að segja. Hitt er svo annað og öllu verra ef ofstækið ber menn svo algerlega ofurliði við framkvæmd málsins, menn stytta sér svo hrikalega leið hvað vönduð vinnubrögð snertir að ríkið verður af stórkostlegum fjármunum í þeim efnum og menn sitja eftir með hálfvirði fyrir fyrirtækin og niðurstaðan orðin í raun og veru sú að menn hafa haldið útsölu á eigum almennings í landinu til að þjóna þeirri kreddu sinni um að koma fyrirtækjum úr ríkiseigu og með þeim rökstuðningi eða á þeim grundvelli að tilgangurinn helgi meðalið. Það er auðvitað óskaplega nöturlegt, hæstv. forseti, en það er það sem blasir hér við og Ríkisendurskoðun er að segja í harkalegri gagnrýni sinni á ríkisstjórnina fyrir frammistöðu hennar í mörgum málum sem hér eiga í hlut.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, geta menn náttúrlega ekki verið að fjalla um dóm reynslunnar með þeim hætti að tína bara út það sem þeim er jákvætt. Auðvitað má segja að það sé lofsverð viðleitni hjá hæstv. fjmrh. að reyna að lesa stuðning við sig út úr þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar. Enn hreystilegra var það þegar hæstv. fyrrv. heilbrrh. eða félmrh. las siðferðisvottorð út úr úttekt Ríkisendurskoðunar á sínum embættisferli þannig að margt má reyna í þessum efnum. En ég tel samt að reynslan sé ólygnust í þessu og menn eigi að skoða það hlutlægt og fordómalaust hvernig þessi einkavæðing hafi gefist þar sem hún hefur farið fram. Staðreyndin er sú að einkavæðingarfárinu er að slota alls staðar í heiminum nema hér. Meira

og minna er þetta þannig. Í Bretlandi er það t.d. almenn viðtekin niðurstaða í breskum stjórnmálum sem menn deila ekki lengur um að Bretar hafi á köflum farið algeru offari í ofstæki Thatchers-tímans í þessum málum. Það hafi bakað breska ríkinu og breskum almenningi stórkostlegt tjón hvernig menn stóðu þar að málum í sumum tilvikum. Ég meira að segja leyfi mér að efast um að nokkur einasti íhaldsmaður í Bretlandi mundi lengur mæla með því að farið yrði út í einkavæðingu og einokunarstarfsemi eins og var gert þegar verst lét, þegar menn fóru út í það að einkavæða t.d. veitufyrirtæki sem eru með þá haganlegu aðstöðu að þau eiga einu lagnirnar í einu tilteknu byggðarlagi og enginn annar getur komið vatni í hús eða rafmagni inn fyrir veggi nema sá sem á dreifikerfið, en samt var sú starfsemi einkavædd og sú aðstaða sett í hendur einkaaðilum sem voru að reka sína starfsemi í hagnaðarskyni, að mjólka peninga út úr því. Sama mætti segja um einkavæðingu sums staðar á sviði fjarskipta þar sem hún hefur illa til tekist að yfirburðaaðstaða, markaðsráðandi eða einokunaraðstaða fyrirtækja á því sviði býður einfaldlega ekki upp á að slík starfsemi sé einkavædd. Í öllu falli er alveg ljóst að taka verður þá upp mjög strangt og stíft eftirlit með þeim sem í þá aðstöðu komast.
    En hæstv. ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hefur ekki verið að hafa áhyggjur af því. Nei, heldur skal bara einkavæða af því bara að það var ákveðið hér áður fyrr að svo skyldi gera og niðurstaðan er auðvitað ömurleg.
    Ég tel að það sé mikill skaði, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin skuli nudda áfram með þessi mál á þessum grunni og ekki fást til málefnalegrar umræðu um það hvað er skynsamlegt að gera í þessum efnum og hvað ekki. Ríkisstjórnin er að hluta til þegar komin á flótta með sum sín áform. Það hefur ekkert orðið úr breytingu á ríkisbönkunum sem betur fer. Þar hafa menn þó haft vit á því að hætta við vitleysuna, fara ekki út í ógöngur eins og þær meðan hæstv. fjmrh. var í vandræðum með að svara því hver ætti að kaupa eitt stykki Búnaðarbanka á 10 milljarða eða hvað það nú væri, þá væri svo sem ekkert að því að selja hann bara á hálfvirði ef ekki vildi betur til, það yrði bara að hafa það. Menn hættu við að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna. Það er frægt mál sem hér var flutt þing eftir þing, með endemum vitlaust frv., og fram á það var sýnt aftur og aftur af mönnum sem þekktu þar til og höfðu komið nálægt stjórn þeirra mála að það væri hreinasta óráð að láta sér detta í hug að afhenda einkaaðilum þá starfsemi, þá aðstöðu að komast í einokunaraðstöðu gagnvart því að þvo þvottinn af spítölum ríkisins. Og menn sem betur fer vitkuðust og hættu við það, en ég spyr: Hvers vegna má þá ekki taka fleiri slík einkavæðingaráform til endurskoðunar og vega það og meta í rólegheitum hvað hafi vel tekist og hvað ekki og leita jafnvel að einhverri pólitískri samstöðu um hvað sé skynsamlegt að sé áfram á hendi ríkisins en hvað geti orðið samstaða um að setja í hendur einkaaðila?
    Það er alveg greinilegt að þessi hæstv. ríkisstjórn með framgöngu sinni, m.a. í þessu máli, er að hafna öllu samstarfi við þá sem hafa verið svo auðtrúa, liggur mér við að segja, að halda að það væri hægt að gera við hana eitthvert samkomulag um þá hluti eins og Framsfl. sem lét á síðasta þingi hafa sig í að trúa því að ríkisstjórninni væri alvara með þeirri málamiðlun að selja bara helminginn af Lyfjaversluninni og sjá svo til. En hvað var svo gert? Það var haldin brunaútsala á þessum 50% sem lagaheimildir voru til að koma út, haldin brunaútsala á þeim með því í fyrsta lagi að fyrirtækið var metið lágt. Í öðru lagi standa mönnum vaxtalaus lán til boða, fá skattafrádrátt og allt þetta og svo er óðara rokið til með frv. um að fá að halda útsölu á hinum helmingnum. Og svo segja þessir snillingar, hæstv. ráðherrar og aðrir talsmenn stjórnarliðsins, að það sé verið að gera þetta að almenningshlutafélagi. Ég held það sé rangnefni. Ég held að það sem samkvæmt minni málvitund kallast almenningur á Íslandi í dag sé ekki sá sem hagnast á þessum kostaboðum ríkisstjórnarinnar. Það eru þeir sem eiga peninga sem eru að fá enn meiri peninga út úr þessum kostagjöfum sem ríkisstjórnin er að afhenda mönnum. Það eru ekki verkamenn og láglaunafólk á Íslandi sem eru að njóta þessara gylliboða, sem labba sig hér inn og kaupa hlutabréf fyrir 500 þús. kr. sisona þó að 250 þúsund kall sé lánaður á góðum kjörum. Það fólk sem mest þyrfti á því að halda að fá góð kjör af hálfu ríkisstjórnarinnar er ekki að fá þannig kveðju frá henni. Nei, en það gæti verið að einn og einn maður, sem er að fá þá sendingu frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að það verði felldur niður á honum hátekjuskatturinn á næsta ári, gæti nýtt sér þetta tilboð. Skyldi það nú ekki vera að kratarnir væru að stuðla að slíkum hlutum í þágu þessara sérkennilegu jafnaðarstefnu sem rekin er í þeirra nafni og er ábyggilega orðin heimsmet og mannkynssagan á vonandi ekki eftir að ala sér annað eins eintak af krataflokki og þetta sem við sitjum með uppi á Íslandi, þ.e. það brotið sem er undir forustu hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar um þessar mundir.
    Það er með miklum endemum, virðulegur forseti, hvernig að þessum hlutum hefur verið staðið. Staðreyndin er líka sú að ætla að fara í umræðu um þessi mál á þeim grunni sem hæstv. fjmrh. gerir, að fara að draga upp einhverja svart/hvíta pólitíska mynd af viðhorfum manna til þessara hluta, ja, það væri hægt að ræða talsvert um það, hæstv. fjmrh. Hvernig er það ef farið er yfir söguna í þessum efnum? Hefur Sjálfstfl. verið eitthvað meiri einkavæðingarflokkur en aðrir flokkar á Íslandi? Hvað meinar hann í raun og veru þegar hann er í aðstöðu til þess þar sem honum eru hagsmunirnir kærir? Hann hugsar náttúrlega um sig og sína, sínar valdastofnanir í þjóðfélaginu, sín fyrirtæki, sínar fjölskyldur. Það er fínt að einkavæða hluti ef það er hægt að koma þeim yfir til réttra aðila. En ef þeir eru að mati íhaldsins á góðum stað, t.d. hjá Reykjavíkurborg, þá er ekki verið að rjúka upp til handa og fóta. Staðreyndin er t.d. sú að Reykjavíkurborg hefur rekið meiri opinbera starfsemi og opinber umsvif í fjölmörgum greinum í samkeppni við

einkaaðila en flest ef ekki öll önnur sveitarfélög í landinu undir stjórn íhaldsins hörmulega lengi eins og allir vita þangað til núna að loksins var brotið í blað í annað skiptið og borgin tekin af íhaldinu. Það var frægt að hér rak íhaldið pípugerðir og tryggingafélög og guð má vita hvað sem mörg önnur sveitarfélög höfðu lagt niður og látið einkaaðila sjá um undir traustri forustu þáv. borgarstjóra, núv. hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og datt ekki í hug að einkavæða það á meðan hann réði þar ríkjum. Þannig að við gætum út af fyrir sig rætt hvað er í nösunum á mönnum og hvað ekki í þessum efnum, hæstv. forseti, ef út í það væri farið.
    Sama á við um fyrirtæki sem oft er dregið inn í þessa umræðu af einhverri furðulegri áráttu, Skipaútgerð ríkisins. Gæti það ekki hugsast að einn og einn hæstv. ráðherra sem það fyrirtæki heyrði undir á fyrri tíð hafi komið úr Sjálfstfl.? Jú, ætli það sé ekki hugsanlegt, m.a. að þeir hafi ráðið ríkjum í samgrn. um alllangt árabil á fyrri áratug og ekki hróflað við Skipaútgerð ríkisins. Samt er málum stillt upp eins og það sé eitt af hinum miklu tímamótaafrekum Sjálfstfl. að hafa lagt niður það fyrirtæki með margvíslegum afleiðingum sem ekki eru allar góðar eins og hér var minnt á af síðasta ræðumanni, m.a. þeim að fjölmörg byggðarlög búa við stórskerta þjónustu, eru komin 50 eða 75 ár aftur í tímann hvað snertir samgöngur á sjó. Þó svo það spari eitthvert fé, hæstv. fjmrh., og þar hafi þurft að taka til varðandi rekstur og var reyndar búið að gera heilmikið í þeim efnum, eins og m.a. sást á þeim tölum sem hæstv. ráðherra las upp. Borið saman við hallann á skipaútgerðinni sl. 10 ár, sem að stórum hluta var á ábyrgð ráðherra Sjálfstfl., var búið að ná heilmiklum árangri á síðustu árum. En það er ekki aðalatriðið heldur hitt að menn verða að skoða alla myndina, hæstv. fjmrh., ekki bara velja sér það úr textum eða úr safni sögunnar sem er þeim hagstætt og sleppa öllu hinu. Á það var bent að það væri hreystilega gert af hæstv. fjmrh. að lesa þessa skýrslu þannig að út úr henni kæmi sérstakur stuðningur við hann. Ég tók þrjú dæmi um hið gagnstæða í dag og vitna til þess.
    Hæstv. fjmrh. var líka að tala um áhrif og árangur af einkavæðingu í því formi að það kæmi til svo miklu betri stjórnun í fyrirtækjunum. Gott ef það átti ekki að skilja hann svo í andsvari áðan að svo mundi lýðræðið hreinlega stóraukast eða hvað? Staðreyndin er náttúrlega sú að hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að þessu í andstöðu við stjórnarandstöðuna sem í hvert skipti hefur lagt til að ef stórt fyrirtæki væri gert að fyrirtæki sem áður hefði verið ríkisfyrirtæki og lotið þingkjörinni stjórn þá yrði því áfram kjörin stjórn. En hvað hefur meiri hlutinn gert? Hann hefur fellt allar slíkar hugmyndir og valið þá leið að láta ráðherra viðkomandi flokks, gjarnan Sjálfstfl., handvelja hina nýju stjórn þannig að þangað væri hægt að raða flokksbræðrum og einkavinum. Það er nú móverkið sem Sjálfstfl. er að reisa í kringum þessa einkavæðingu, það er öll dreifingin. Það eru valdir fimm sjálfstæðismenn, stundum eru það fjórir sjálfstæðismenn og einn krati sem eru settir í það að stjórna fyrirtækjunum, handvaldir af viðkomandi ráðherra, gjarnan hafður þar a.m.k. einn ættingi svona til að fjölskyldan fái nú sitt og þar með er réttlætinu fullnægt að mati þessara manna. (Gripið fram í.) Jú, að vísu er það rétt að einn og einn framsóknarmaður hefur slæðst inn í þessar stjórnir. Sennilega er það til að halda aðeins í pínulitlar leifar af helmingaskiptakerfinu og hugsanlega gæti það komið sér vel ef þannig blési í ból íhaldsins eftir kosningar að þeir vildu lappa upp framsóknarmaddömuna til stjórnarþátttöku eina ferðina enn. Þá væri kannski sniðugt að vera með einn og einn framsóknarmann á víð og dreif í hinum nýju handvöldu stjórnum. En annars hafa þetta fyrst og fremst verið flokksgæðingarnir, frændurnir og vinirnir. ( Gripið fram í: Hvað með Geir Gunnarsson?) Við verðum að gera greinarmun á því sem kosið er til á þinginu, hv. frammíkallandi, og hinu sem ráðherrarnir handvelja.
    Ég vil aðeins láta það sjónarmið mitt koma hér fram, hæstv. forseti, að ég tel ekki lýðræðislega framför í því fólgna að breyta fyrirtæki sem rekið hefur verið sem ríkisfyrirtæki, er þar með á stjórnsýslulega ábyrgð viðkomandi ráðherra, yfir í hlutafélag og handvelja því svo stjórn. Að kasta burt þingkjörnum stjórnum þar sem allir flokkar áttu möguleika á að eiga aðild að fyrirtækinu, fá upplýsingar um rekstur þess en taka um leið þátt í og bera ábyrgð á stjórn þess fyrirtækis, að kasta því út og handvelja einhverja menn þar í staðinn. Fyrirtæki eins og Sementsverksmiðja ríkisins, Áburðarverksmiðja ríkisins, eru þær betur staddar í dag með einlitum flokksstjórnum stjórnarflokkanna þó einn og einn framsóknarmaður kunni að hafa slæðst þar með? Ég spyr. Væri kannski ekki þeim fyrirtækjum betur borgið, til að mynda Áburðarverksmiðjunni sem horfir núna inn í mjög óvissa framtíð og væntanlega verður slegin af á næstu missirum, það er einn fórnarkostnaðurinn af EES-samningunum, ætli væri ekki frekar unnt að slá einhverri skjaldborg um hana og byggja upp samstöðu í þjóðfélaginu og á þingi um að verja þau störf sem þar eru í hættu ef á bak við stæði þverpólitísk samstaða um fyrirtækið. En slíka samstöðu vill ekki hæstv. núv. ríkisstjórn, hún vill eyðileggja allt slíkt, henda því út, offorsið er slíkt að koma sínum gæðingum á jötuna.
    Hæstv. forseti. Ég held í ljósi þess að nú er eftir virkur starfstími á þessu þingi fáeinar vikur að við höfum margt og raunar flest þarfara að gera en það að eyða kvöldum og nóttum í þessi vitlausu einkavæðingarfrv. ríkisstjórnarinnar. Og ég hvet, hæstv. ríkisstjórn, hæstv. fjmrh. sem er ekki alls varnað eins og kunnugt er, að hugsa nú vel sinn gang og velta því nú fyrir sér: Er ekki tíma þingsins betur varið í það að taka til við að ræða og afgreiða þau mál sem þarf að afgreiða væntanlega eins og fjárlögin, eins og tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar? Ætli það verði ekki nógur starfi þó við séum ekki að eyða tíma okkar í vitleysu af þessu tagi?
    Ég held að frammistaða ríkisstjórnarinnar varðandi útsöluna á Lyfjaverslun Íslands hafi ekki verið slík að það sé uppörvandi að veita henni heimild til að gefa afganginn af fyrirtækinu. Ég segi nú alveg eins og er að mér finnst það jaðra við ósvífni, hæstv. forseti, að láta sér ekki nægja að halda útsölu á helmingnum af hlut ríkisins í þessu fyrirtæki þó hitt þurfi ekki að fylgja í kjölfarið nokkrum mánuðum síðar. Ég vona svo sannarlega, hæstv. forseti, að menn geti náð samkomulagi um að þingið hafi annað og mikilvægara við tíma sinn að gera en að eyða vinnu í þessi frv. umfram það þó, sem er rétt og skylt, að ræða þau sem þau eru hér fram komin en þá sé rétt að vísa þeim til nefndar í fullkomnu samkomulagi um að þau megi þar sofa svefni hinna réttlátu og vakna seint og vonandi aldrei til lífsins, að minnsta kosti ekki í því formi sem þau eru nú og alla vega að ekki verði um frekari einkavæðingaraðgerðir að ræða á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar sem vonandi og næsta örugglega, hæstv. forseti, teygir senn upp tærnar.