Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 22:32:24 (2261)


[22:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mig langar í lok umræðunnar að víkja að nokkrum atriðum sem komið hafa fram. Ég skal játa að ég tel að umræðan hafi verið gagnleg í alla staði. Hún hefur reyndar ekki fjallað eingöngu um frv. sem liggur fyrir heldur ekki síður og kannski frekar um skýrslu Ríkisendurskoðunar og út af fyrir sig harma ég það ekki. Ég tel að sú skýrsla eigi það skilið að hún sé rædd hér og ekkert að því. Kannski er ástæða til þess í upphafi máls að ræða örlítið um Ríkisendurskoðun og Alþingi, rétt aðeins til að ég geti komið á framfæri skoðun minni á því hvernig verklagsreglur Alþingis eiga að vera. Menn hafa rætt nokkuð um verklagsreglur einkavæðingarnefndar og ég hygg að flestir séu sammála Ríkisendurskoðun að þær séu mjög til fyrirmyndar. En við veltum kannski of sjaldan fyrir okkur verklagsreglum Alþingis, ekki síst þegar rætt er um endurskoðun og hlutverk Ríkisendurskoðunar í störfum Alþingis. Mín skoðun er sú, og ég held að ríkisendurskoðandi sé henni sammála, að tími sé kominn til að breyta háttum og verklagi Alþingis með þeim hætti að það starfi fastanefnd, kosin nefnd, á Alþingi sem fari yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar og gefi út álit til þingsins um skýrslurnar. Það álit gæti verið í ábendingarformi, tilmælum, til stjórnvalda til framkvæmdarvaldsins. Það gæti verið í formi þingsályktana, í formi laga eða réttara sagt frv., í formi ábendinga eða tilmæla til annarra nefnda þingsins o.s.frv.
    Þessi háttur er reyndar viðhafður í Noregi og var tekinn þar upp þegar þingið þar féll frá því að hafa svokallaða yfirskoðunarmenn ríkisreikninga en það er stjórnarskrárbundið ákvæði að halda í það form sem er reyndar afgamalt og ég held að öllu leyti úrelt. Ég nefni þetta hérna vegna þess að ég held að það hafi talsverða þýðingu að það skapist hér ákveðin hefð og að þeir sem hafi það verkefni með höndum af hálfu Alþingis að fara yfir þessar skýrslur geti með eða móti eða með sín sjónarmið komið með þingskjöl sem byggjast á áliti þeirra á skýrslunum og rætt þess vegna skýrslurnar með þeim hætti hér í sölum Alþingis. Þetta nefni ég hér vegna þess að það ríkir ávallt sú óvissa þegar skýrslan er lögð fram hvernig eigi að taka því sem þar stendur. Ríkisendurskoðandi getur ekki komið hér í þingsali og varið sitt mál, hvorki sótt né varið reyndar, svo að ég hygg að það sé full ástæða til þess fyrir forseta þingsins og reyndar fyrir okkur öll sem störfum hér á hinu háa Alþingi að kanna hvort þetta sé hin rétta aðferð, hin rétta verklagsregla þegar fyrir liggja skýrslur á borð við þessa hér. Auðvitað kann að vera að ekki þurfi að ræða með sama hætti allar skýrslur, sumar skýrslur eru umbeðnar af hálfu viðkomandi ráðherra og það kann að vera að það eigi að fara öðruvísi með slíkar. Ég nefni þetta hér vegna þess að mér finnst stundum við ekki sjá fyrir í okkar kappi þegar við erum að takast á um efni þessarar skýrslu þá tölum við svona um þessar skýrslur eins og guðfræði eins og þegar prestar eru að rífast um hvað standi í hinni helgu bók. Í raun og veru er ekki sá sem skrifaði skýrsluna viðstaddur hann er einhvers staðar svona óræður einhvers staðar fyrir utan og ofan Alþingi og segir ekki neitt, þ.e. ríkisendurskoðandi, einhvers konar guðleg ára sem fylgir þessu embætti. Ég held að það sé kominn tími til þess að hverfa frá þessum háttum. Ég held að það sé kominn tími til að taka upp nútímahætti eins og tíðkast annars staðar, þessar skýrslur séu teknar fyrir af hálfu þingmanna, ríkisendurskoðendur, þeir sem þar starfa, komi á fund nefndanna og standi fyrir sínum málum þannig að það sé hægt að gefa út álit með eða á móti þeim skýrslum sem liggja fyrir og spyrja þá út úr.
    Þetta nefni ég hér í upphafi vegna þess að umræðan í dag er dæmigerð umræða fyrir skýrslur Ríkisendurskoðunar og ég segi: Ég tel að þessi skýrsla sé vitnisburður um að vel hafi verið staðið að einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að þessi skýrsla sé til merkis um að það hafi orðið miklar framfarir í því að selja eignir ríkisins miðað við það sem áður tíðkaðist. Það eru auðvitað undantekningar frá því. Það er eðli endurskoðunar, jafnt Ríkisendurskoðunar sem annarrar endurskoðunar, að fyrst og fremst fletta upp þeim atriðum sem má gera athugasemdir við. Það er auðvitað eðli slíkrar skoðunar. En ég bendi á að flestallt sem stendur í þessari skýrslu rennir stoðum undir það að einkavæðingarnefndin hafi staðið sig vel, hún hafi markað góða stefnu og í raun og veru væri þessi skýrsla ekki jafngóð og hún er nema vegna þess að einkavæðingarnefndin heldur bókhald, færir bækur með þeim hætti að það er auðvelt verk að tína upp þau efnisatriði sem hér eru hvert og eitt. Á þetta vil ég benda hér í upphafi til umhugsunar fyrir okkur öll. ( GJH: Er ekki eðlilegt að hún haldi bókhald yfir gerðir sínar?) Jú það er mjög eðlilegt í ljósi þess sem hefur verið að gerast. Fyrir örfáum árum síðan var staðið að sölu fyrirtækja með þeim hætti að jafnvel ráðherrar sjálfir eða aðstoðarmenn þeirra seldu það yfir borðið án auglýsinga án þess að nokkuð væri fært um það í bækur neins staðar. ( GJH: Enda er það vítavert.) Það er ég sammála hv. þm. um en ég er að benda á að nú er öldin önnur. ( Gripið fram í: Hvaða mál eru þetta?) Ég nefni til að mynda Þormóð ramma og skýrslu sem Ríkisendurskoðun skrifaði um það fyrirtæki á sínum tíma. Ég nefni það bara hér til sögunnar umbúðalaust.
    Það hefur nokkuð verið rætt hér um Rýni hf. Ég skal viðurkenna það fúslega að þetta fyrirtæki þekki ég nánast ekki neitt. Þetta fyrirtæki var stofnað til að tryggja samkeppni skoðunarstofa og að vinnsluleyfishafar í sjávarútvegi ættu aðgang að óháðum skoðunarstofum, fleiri óháðar skoðunarstofur voru hins vegar stofnaðar og töpuðu þær allar nokkrum fjármunum. Þessi sala leiddi til sameiningar á fyrirtækjum

í þessari grein. Ég bendi á að þáttur þessa fyrirtækis er ekki hluti af vinnu einkavæðingarnefndarinnar. Það eru til bréfaskipti á milli fyrirtækisins eða sjávarútvegsins og einkavæðingarnefndar en einkavæðingarnefndin kom ekki að sölu þessa fyrirtækis eða stofnun fyrirtækisins. Á þetta vil ég benda.
    Ég get út af fyrir sig, þegar rætt er um þetta fyrirtæki, tekið undir að það er full ástæða til að taka á eftirlitsiðnaðinum eins og hann leggur sig og sjálfsagt berum við öll nokkra sök í þeim efnum að hafa sífellt aukið eftirlit, bæði opinbert eftirlit og annað. Oft er það þannig þegar um eftirlitsstofnun er að ræða þá skapast hjá okkur falskt öryggi því að besta eftirlitið er auðvitað eftirlitið sem felst í því að hver og einn hafi eftirlit með því sjálfur sem hann er að gera eða hafi þann aga við sín störf sem t.d. markaðurinn gefur. Það er alltaf besta eftirlitið þegar menn starfa þannig að þeir geta mælt sinn árangur sjálfir og fá umbun verka sinna eða að þeir fá refsingu þegar þeir hafa svikist um, það er alltaf besta eftirlitið hvar sem er. En stundum viljum við hafa þetta með þeim hætti að einhver stofnun sé sett á laggirnar til að sjá um að það sé í lagi, venjulega er það gert með stikkprufum, en það er engin allsherjartrygging fyrir því að hlutirnir séu gerðir vel.
    Það var sett á fót nefnd til að taka eftirlitsiðnaðinn fyrir og gera tillögur þar að lútandi. Ég hef séð bráðabirgðaskýrslu frá þessum hópi en ég held að ég fari rétt með að það liggi ekki frv. fyrir, ég skal þó athuga það mál því ég get ekki svarað því sérstaklega hér. Ég ætla ekki heldur að ræða það sem ég mundi nú vilja kalla þráhyggju varðandi Andra hf. og SR-mjöl hf. og að það séu einhver afskipti ráðuneyta af því máli. Ég hef sagt það hér áður að þetta er í besta falli misskilningur, í besta falli misskilningur. Það geta náttúrlega verið einhver viðskiptaleg sjónarmið sem ráða því að niðurstaðan varð sú að hverfa frá áfrýjun en það er ekki gert að undirlagi ráðuneytanna. Hins vegar veit ég til þess af því að ég fékk að fylgjast með þessu máli að það voru send til mín bréf og það var gert vegna þess að viðkomandi aðilar vildu segja opinberum aðilum frá því hvað þeir voru að gera. Það var ekkert frumkvæði af hálfu fjmrn. og ég hef kannað að svo var ekki heldur af hálfu sjútvrn. Ég þori nú ekki að nefna orðið dylgjur en mér dettur það stundum í hug þegar svonalagað er sagt þegar verið er að reyna að gefa eitthvað annað í skyn en raunveruleikinn er.
    Hv. 3. þm. Vesturl. spurði um það hvers vegna mismunandi tölur séu uppi um tekjur af einkavæðingunni. Ég skal aðeins fjalla um það. Ríkisendurskoðun segir að sala ríkisfyrirtækja hafi skilað ríkissjóði 826 millj. kr. Einkavæðingarnefndin heldur því fram að í heild hafi sala ríkisfyrirtækja skilað 1.904 millj. og þá er talið með söluandvirði eigna Ríkisskipa, Menningarsjóðs og þau hlutabréf í Lyfjaverslun ríkisins sem þegar hafa verið seld, þegar hafa verið seld upp á 200 millj. kr. Þar fyrir utan er ekkert reynt að meta það í þessum tilvikum t.d. hvað hefur sparast í raun í rekstri ríkisins vegna þess að fyrirtæki hafa verið leyst upp eða seld og enn einu sinni nefni ég nafn Skipaútgerðar ríkisins. Þetta veldur þessum mun og ég kemst vonandi síðar að því að ræða þetta örlítið nánar.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, 6. þm. Norðurl. e., ræddi nokkuð um nýlega skýrslu um fjárreiður ríkisins sem hefur inni að halda nýskipan í ríkisrekstri þar sem verið er að taka á ríkisreikningi og skyldum efnum. Ákaflega merkileg skýrsla að mínu viti sem kemur til með að hafa áhrif hér á næstu árum og er til skoðunar og verður til skoðunar í nefndum þingsins einkum fjárln. og efh.- og viðskn. Það sem hann sagði var að það gæti breytt einhverju þar um ef þau vinnubrögð væru nú viðhöfð sem þar koma fram einkum vegna þess að þar á að líkja eftir fyrirtækjum, setja upp efnahagsreikning. Ég held að ég verði að hryggja hv. þm. með því að ég tel að það mundi ekki verða mikil breyting vegna færslu á tekjum af eignum. ( JGS: Það sagði ég líka í ræðu minni.) Gott, þá hef ég misskilið hv. þm. En staðreyndin er nefnilega sú að samkvæmt niðurstöðum ríkisreikninganefndar verður erfitt að setja eignir ríkisins upp í efnahagsreikning eins og hjá fyrirtæki og bókfærðar tekjur af þeim hlutafélögum sem ríkissjóður hefur selt, það er munur á söluverði og bókfærðu verði. Þannig hefur þessi nýja framsetning ríkisreiknings engin áhrif á bókfærðar tekjur af sölu hlutafélaga. Það gerist ekki. En vissulega væri æskilegt að slíkt hefði getað gerst ég skal taka undir það.
    Hv. þm. minntist á ræðu forsrh. hinn 6. des. 1991 þegar rætt var um þá upphæð og um Búnaðarbankann. Það er alveg rétt það fór heilmikil vinna fram um Búnaðarbankann og hvernig breyta mætti Búnaðarbankanum í hlutafélag. Því sleppir Ríkisendurskoðun alveg í sinni skýrslu og mér finnst það vera miður vegna þess að ég held að það væri gagnlegt fyrir hv. þm. að hafa þá umræðu í skýrslunni þó ekkert hafi orðið úr sölunni og verði væntanlega ekki á þessu kjörtímabili jafnvel þótt frv. komi fram um það að breyta bankanum í hlutafélag.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurðist fyrir um það hvert væri markmiðið með sölu Lyfjaverslunar Íslands. Ég skal reyna að svara þeirri fyrirspurn eins og ég sé þessi markmið. Í fyrsta lagi eru markmiðin að ná breiðri eignaraðild með sölunni, koma þessu fyrirtæki í hendur á sem flestum, reyna að koma í veg fyrir að samruni verði milli fyrirtækja í þessari grein þannig að eðlileg samkeppni sé tryggð, að reyna að ná nýju fjármagni inn í fyrirtækjarekstur á Íslandi frá almenningi og stækka hlutabréfamarkaðinn. Allt eru þetta markmið með þessari sölu. Það er ekkert eitt markmið öðru æðra en auðvitað höfum við það að leiðarljósi að fá sem mest í hlut ríkisins þó það sé eitt og sér ekki eina markmiðið. Það er ekkert leyndarmál að við ætluðum að bjóða síðari hluta bréfanna út á útboðsgrunni með því hreinlega að bjóða út og biðja um hæsta tilboð jafnvel í öll bréfin eða í einhver bréf, nokkra pakka. En vegna þess hve vel tókst til með fyrri hlutann töldum við rétt að halda þessu áfram til að tryggja að eignaraðildin yrði dreifð. Þetta

vil ég taka fram.
    Það var líka spurt um það hvernig stæði á því að ég hefði nefnt á sínum tíma 2 milljarða á ári. Það er vegna þess að erlendir og innlendir aðilar sem komu að málinu töldu það og gáfu álit sitt um að það væri hægt með því að skoða opinber fyrirtæki og það fjármagn sem er í umferð og væri til ráðstöfunar til kaupa á hlutabréfum, þar á meðal fjármagn frá lífeyrissjóðunum. Þá var gert ráð fyrir að þeir mundu fylgja þeirri reglu að 5% gæti gengið til hlutabréfakaupa en einmitt formaður Framsfl. gerði það að stórmáli, stórmáli á landsþingi flokksins fyrir skömmu að nota ætti þetta fjármagn til að byggja upp atvinnulífið. Þá segi ég að það gildir einu hvort um er að ræða kaup á ríkisfyrirtækjum eða hvort það er verið að byggja upp ný fyrirtæki, frá mínum sjónarhóli er það svo.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvað hefði orðið um þjónustuna og starfsfólkið. Ég get því miður ekki gefið hér neinar upplýsingar um hvort jafnmargir starfa hjá þessum fyrirtækjum, ég býst við að sums staðar sé fleira fólk, annars staðar færra, og hvar er þjónustan? Ég nefni dæmi í því sambandi. Ég hygg og það hefði einhver orðið hissa fyrir nokkrum árum að heyra mig segja það að þjónusta Máls og menningar sé betri en þjónusta Menningarsjóðs. Ég held að svo sé. Og það var spurt um Húsnæðisstofnun. Ég get ekki heldur svarað þeirri fyrirspurn öðruvísi en svo að sannarlega hefur verið sparað hjá Húsnæðisstofnun vegna þeirra aðgerða sem þar fóru fram. ( KÁ: Það var ekki spurningin.) Nei, ég veit að það var ekki spurningin en ég get því miður ekki svarað spurningunni eins og ég var búinn að taka fram.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir fletti í síðari ræðu sinni upp á bls. 14 í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem haft er eftir fyrrv. starfsmönnum ríkisins, nú starfsmönnum, aðallega stjórnendum fyrirtækja sem áður voru í eigu ríkisins, og þeir komust að þeirri niðurstöðu m.a. að hjá opinberum fyrirtækjum væri ákvarðanataka seinvirk o.s.frv. Síðan var spurt út frá því.
    Ég held að þetta sé umhugsunarvert og þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri, þetta kemur fram í skoðunum alls staðar þar sem slíkar breytingar hafa átt sér stað. Í raun og veru höfum við í fjmrn. einmitt verið að taka á þessum málum. Við höfum kallað það nýskipan í ríkisrekstri. Einn þátturinn er þessi einkavæðing. Annar þáttur er að fjölga og auka útboðsstarfsemina. Í þriðja lagi höfum við skoðað rækilega einingarkostnað hjá ýmsum opinberum fyrirtækjum og í fjórða lagi höfum við gert svokallaða þjónustusamninga sem byggjast á því að það er ekki einungis skammtað fé til fyrirtækja og stofnana heldur er jafnframt ákveðið hvað við viljum fá út úr þessum fyrirtækjum, hvert er markmiðið með þeim. Til hvers erum við að reka þessi fyrirtæki og til hvers ætlumst við af starfsfólki og stjórnendum. Síðan er gerður samningur um það að þessu sé skilað og fyrirtækin, starfsfólk og stjórnendur, fá tiltekið frelsi til þess að ná þessum markmiðum. Þetta er gert vegna þess að svona hagar markaðurinn sér venjulega, fyrirtæki á almennum markaði, og við teljum að opinber fyrirtæki geti lært heilmikið af því. Með því er ekki verið að segja að stjórnun í öllum opinberum fyrirtækjum sé ómöguleg en það má líka bæta hana og fyrirtæki á almennum markaði geta ýmislegt lært af opinberum fyrirtækjum.
    Ég er sammála því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að afskipti hér á landi af atvinnulífinu hafa í reynd verið lítil miðað við það sem annars staðar hefur gerst. Íslensk fyrirtæki hafa verið smá og dreifð og aðallega í frumgreinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi. Iðnbyltingin heimsótti okkur mjög seint, hér er ekki um stóran iðnrekstur að ræða eins og var t.d. í Bretlandi o.s.frv. þannig að afskiptin voru önnur, öðruvísi og minni. En afskiptin voru þó komin upp t.d. í verslun og það er skrýtið að segja að fyrir örfáum árum stóðum við í því á Alþingi að afnema einkaleyfi ríkisins á sölu á eldspýtum. Á meðan hvaða verslun eða innflytjandi gat flutt inn kveikjara var bannað að flytja inn eldspýtur nema ef ríkið gerði það. Við hlæjum að þessu núna. Það eru örfá ár síðan menn stóðu í mikilli baráttu að reyna að koma þessu í gegn. Karl Steinar hældi sér af því og ég held að hann hafi komist á þing a.m.k. tvö kjörtímabil út á þetta.
    Það var spurt um húsameistara ríkisins. Ég get tekið undir það að ekki sé ástæða til þess að á vegum ríkisins sé verið að teikna hús enda tel ég að húsameistari ríkisins eigi ekki að teikna hús. En það getur verið ástæða til þess að hafa aðila hjá ríkinu til að sjá um þessi mál og láta síðan aðra teikna húsin.
    Það var spurt um Sementsverksmiðjuna og reyndar gerðu það fleiri aðilar. Í fyrsta lagi vil ég segja að Sementsverksmiðjan er í samkeppni. Hún hefur bara þá yfirburðastöðu að vera með betra verð en þeir sem geta flutt inn. Það er enginn sem bannar innflutning á sementi. Enginn. Það getur hver sem er flutt inn sement og það er gert. En Sementsverksmiðjan er það vel rekin að það getur enginn keppt við hana af neinni alvöru. Þannig að hún starfar í raun á venjulegum markaðslögmálum ef frá er skilinn jöfnuður á flutningi um landið sem auðvitað gildir jafnt fyrir innflutt sement eins og sement framleitt á Akranesi. ( JGS: En Jarðboranir ríkisins?) Ég þekki ekki þá sögu sem hv. þm. kom hér með um það og er því öllu ókunnugur sem hann minntist á í sinni ræðu.
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að það væri verið að snupra fjmrh. í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég mótmæli því. Það sem snýr að fjmrn. í þessari skýrslu er fyrst og fremst Gutenberg, Þormóður rammi, Framleiðsludeild ÁTVR og Lyfjaverslun Íslands. Ég hef ekki séð neinar athugasemdir gerðar við þessar sölur í skýrslunni sem hér hefur verið til umræðu.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði að við værum með útsölu, við værum að selja ríkiseignir á slikk. Má ég benda hv. þm. á það að verðmatið sem liggur til grundvallar t.d. sölu á því fyrirtæki sem hérna á að vera að ræða er tvöfalt. Það er í fyrsta lagi verðmat Kaupþings. Í öðru lagi er farið yfir það af Handsali hf. Þetta eru fyrirtæki sem eru vön því að verðleggja þessa hluti.
    Það hefur auðvitað takmarkaða þýðingu að vera að tala um hlutafé og eigið fé. Það virðist vera hinn ríkjandi misskilningur í umræðunni að þetta hafi alla þýðingu um verðmæti fyrirtækisins. Við skulum taka dæmi. Ef við lítum á hlutaféð í Lyfjaverslun Íslands þá eru það 300 millj. Eigið fé eru 450 millj. Gengi hlutabréfanna er 1,34. Það þýðir að ef við seljum öll hlutabréfin á því gengi þá eru það 402 millj. sem fást fyrir það, fyrirtæki sem er með eigið fé upp á 450 millj., þ.e. 0,93 er hlutfallið.
    Tökum Flugleiðir sem er ágætt fyrirtæki líka. Þar var hlutfallið í upphafi ársins 0,5 og er núna 0,8 eða eitthvað þar um bil. Þetta eru upplýsingar sem ég aflaði mér í dag. Þetta segir okkur þetta hlutfall en þetta segir okkur ekkert um verðmæti fyrirtækjanna einfaldlega vegna þess að þegar litið er á verðmæti fyrirtækjanna þá er það framtíðartekjuvirðið fyrst og fremst sem menn eru að leita að sem eru fjárfestar í fyrirtækjum. Þessu er vandlega lýst af hálfu einkavæðingarnefndarinnar og í raun er orðabók með þessari skýrslu sem ég hygg að við hv. þm. ættum kannski að lesa til þess að átta okkur betur á þessu.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson las síðan um markmiðin, hver væru markmiðin, þau væru ekki skýr. Ég ræddi það í fyrstu ræðu minni hver markmiðin væru og svaraði þessari spurningu þá. Síðan fletti hann upp á bls. 9 og las, og reyndar efst á bls. 10, og var að fjalla um Ferðaskrifstofu Íslands og sagði:
    ,,Það er mat Ríkisendurskoðunar að réttara hefði verið að auglýsa bréfin opinberlega til sölu eins og verðbréfafyrirtækið sem hafði með þetta mál að gera viðist hafa gengið út frá. Forkaupsréttur sem starfsmönnum var lögum samkvæmt tryggður hefði átt að nægja til að gæta hagsmuna þeirra við sölu fyrirtækisins.`` --- Og áfelldist síðan einkavæðingarnefndina fyrir að hafa ekki gert þetta.
    Sannleikurinn er einmitt sá að þetta var lögbundið, að starfsmennirnir gætu keypt fyrirtæki, búið að vera í lögum langa lengi. En flettið núna upp á bls. 63 því þar kemur skýring hjá sjálfri Ríkisendurskoðun um þetta tiltekna atriði, og ég ætla að lesa það, með leyfi forseta:
    ,,Reyndar má ætla, þó svo á það hafi ekki reynt, að sú staðreynd að fyrir hendi væri í fyrirtækinu tiltölulega fámennur og samstæður meiri hluti, hafi að vissu leyti takmarkað sölumöguleika á hlutabréfum til utanaðkomandi aðila.``
    Þetta er staðreynd málsins og ég veit að þetta skilur fyrrv. samgrh. sem hafði á sínum tíma nokkur afskipti og kynntist þessu máli, að auðvitað getur það verið erfitt að selja einhverjum minni hluta í fyrirtæki þar sem starfsmennirnir hafa meiri hluta. Og vegna þeirrar staðreyndar var gengið í málið að þessu leyti. Ég er ekkert að segja að það hefði kannski átt að auglýsa fyrirtækið, ég er ekkert á móti því, en ég er að benda á að það er ekki hægt að lesa bara á bls. 9 en fletta ekki síðan upp í heildartextanum. Það er ekki góður málflutningur.
    Virðulegi forseti. Ég hef rætt hér vítt og breitt um ýmislegt af því sem hefur komið fram. Ég veit að mér tekst ekkert að sannfæra alla um gildi einkavæðingar né um hitt að einkavæðingarnefndin og ríkisstjórnin hafi staðið sig vel enda væri til of mikils ætlast af mér ef það væri. Ég vil þó segja það í lokin sem er mitt álit að það getur ekki farið fram hjá nema blindum manni hverjar breytingar hafa orðið í tíð núv. ríkisstjórnar við sölu á fyrirtækjum. Gífurleg bylting í verklagsreglum hefur orðið og hvernig hefur verið gengið að þessum málum með skipulögðum hætti. Það er ekki hægt að líta á Ríkisendurskoðunarskýrsluna öðruvísi en sem vott um einmitt þetta.
    Auðvitað eru gerðar athugasemdir og auðvitað hefði verið hægt að gera margt betur. En það sem skiptir máli er að það er sífellt verið að reyna að gera þetta betur og betur og það er það sem ég held að þessi skýrsla sýni fyrst og fremst.
    Ég leyfi mér svo að lokum, af því að það er búið að fjalla nokkuð ítarlega um heimildina til að selja þennan hluta í Lyfjaverslun Íslands hf. að vonast til þess að nefndin skoði þetta mál og ég hef ekkert á móti því að nefndin skoði í leiðinni rækilega aðra þætti. Ég mun senda hv. nefnd samninginn sem gerður var við ráðuneytin og Almannavarnir og vonast til þess að það liðki til við afgreiðslu málsins.