Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:07:55 (2265)


[23:07]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Í tilefni andsvarsins vil ég taka fram að það lá ekki í mínum orðum að hæstv. sjútvrh. hefði á þessum tíma farið gegn mínum vilja. Það sem ég sagði einungis var: Ég tel og hefði talið að það hefði verið betra að einkavæðingarnefndin fengist við þetta mál heldur en að sjútvrh. setti upp sérstaka sölunefnd. Það hef ég sagt. Í því felast engar ávirðingar á hæstv. sjútvrh. heldur einungis mitt álit sem er það og það er reyndar álit Ríkisendurskoðunar einnig að það sé heppilegt og eðlilegt að einum aðila séu falin þessi mál. Og ég skil Ríkisendurskoðun þannig að þegar hún segir að það eigi að leita eftir sérfræðingum innan kerfisins til að sjá um söluna þá sé hún fyrst og fremst að hugsa um einkavæðingarnefndina. Mitt álit byggist á því og ég held að ég sé sammála Ríkisendurskoðun ef ég skil hana rétt að það sé heppilegast að láta þennan aðila og hver sem hann verður í framtíðinni sem hefur yfir þessari sérfræði að búa sjá um eignasölur á borð við þá sem þarna fór fram.