Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:30:32 (2273)


[23:30]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má vera að ríkisstjórninni hafi mistekist ýmislegt sem hún hefur ætlað sér en ég held að í flestum tilvikum hafi þó gengið vel í einkavæðingunni en ég býst ekki við að ég sannfæri hv. þm. um það. En það er einn mjög mikilvægur munur á einkavæðingu hérlendis og víða í nágrannalöndunum og hann er sá að víðast hvar hefur einkavæðing verið notuð til þess að ná erlendu fjármagni til viðkomandi landa. Þetta kynnti ég mér mjög rækilega. Ég hef heimsótt mjög mörg verðbréfa- og

fjármagnsfyrirtæki í nágrannalöndunum, Bretlandi sérstaklega, og þeir voru alltaf jafnundrandi þegar ég sagði að þetta væri ekki markmiðið. Markmiðið væri hins vegar að koma upp markaði hér á landi m.a. og vissulega væri verðbréfamarkaður mikilvægt tæki til þess að fá síðan erlenda fjárfesta inn í atvinnulífið og við þurfum vissulega á því að halda. En það var ekki meginmarkmið beint að fá erlenda eignaraðild inn í þau fyrirtæki sem hið opinbera var að selja í fyrsta umgangi. Hins vegar gæti slík sala örvað hlutabréfamarkaðinn, verðbréfamarkaðinn, gert hann þannig úr garði að það væri kominn mælikvarði á verðmæti fyrirtækjanna sem gerði þau kannski spennandi kost, ekki eingöngu þau sem eru opinber heldur þau sem kannski lengi hafa verið á einkamarkaði fyrir erlenda fjárfesta því okkur veitir ekki af því að fá erlent áhættufjármagn inn í landið.