Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:32:22 (2274)


[23:32]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það að okkur veitir ekkert af því að fá erlent áhættufé inn í atvinnureksturinn. Annað fannst mér athyglisvert hjá hæstv. ráðherra. Hann tók eiginlega undir einn af meginköflunum í ræðu minni áðan um að það væri eðlilegt að bréf í svona fyrirtækjum sem væri verið að selja næðu að mynda verð á verðbréfamarkaði. En það er einmitt það, virðulegur forseti, sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur aldrei þolinmæði til að bíða eftir. Hún hafði það ekki í SR-mjöl málinu. Hún hefur það ekki í lyfjaverslunarmálinu. Hún hefur aldrei þolinmæði til þess að bíða eftir því því það liggur svo mikið á að selja.
    Þar sem hæstv. ráðherra nefndi ferðir sínar til annarra landa og eina landið sem hann nefndi var Bretland, þá er alveg rétt þar hafa menn verið með miklar æfingar í einkavæðingu í opinberum rekstri og viðurkenna nú orðið sjálfir, og það meira að segja forkólfar Íhaldsflokksins, að þar hafi menn gengið lengra en nokkurn tímann var skynsemi í.