Stjórnarfrumvörp um innflutning og sölu á áfengi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:37:10 (2277)


[23:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. vitnaði til kostnaðarmats fjmrn., það er auðvitað mat sem er lagt á kostnaðinn á frv. Það er ekki hægt að taka það mat og segja að það sem þar er sagt sé efnisatriði frv. Það er hárrétt hjá hv. þm., það þarf meira til en þessi frumvörp. Það liggur í hlutarins eðli og það hefur margoft verið sagt og komið fram og liggur fyrir hér að það þarf að leggja þriðja frv. fram. Það er bara þannig að fjmrh. fer ekki með það mál, það er dómsmrn. sem fer með það mál. Það sem þar á sér stað er einfaldlega það að lögum sem hv. þm. vitnaði til er breytt til samræmis við þá stefnu sem kemur fram í þessum frv.
    Það skal tekið fram að sú þriggja manna nefnd sem vann að þessum málum --- ég heyri að allir bindindismenn ætla að ræða þetta mál í kvöld og ég fagna því að sjálfsögðu, en vil þó taka fram að í frv. er um enga breytingu að ræða á áfengisstefnunni, ekki nokkra breytingu.
    Ég vil einungis segja að þeir sem komu að samningu þessara þriggja frv. voru fulltrúar úr dómsmrn. og fjmrn. og forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Að sjálfsögðu er gengið út frá því að þriðja frv. komi en það frv. get ég ekki flutt einfaldlega vegna þess að það er í lögsögu dómsmrh. og það veit ég að hv. þm. skilur því hann var sjálfur eitt sinn dómsmrh. Það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi.
    Ég vil eingöngu segja það, virðulegi forseti, að menn geta haft skoðun á því hvenær sólarhringsins menn vilja fást við áfengismál. Mér finnst ekkert fara illa á því að takast á við slík mál að kvöldi til. Ekki síst vegna þess að í dag kvartaði stjórnarandstaðan yfir því að það vantaði mál frá stjórninni til að ræða. Klukkan er að verða tólf að kvöldi, við höfum rætt eitt lítið frv. sem er upp á tvær greinar, önnur greinin var gildistökugrein. Við erum búin að vera allan daginn að því og nú loksins þegar á að fara að ræða annað frv. dagsins þá standa allir upp og neita að ræða frv. Hvar eru þessir hv. þm. sem í dag heimtuðu fleiri frv. til að ræða og koma svo að kvöldi til og segja: Við erum ekki tilbúnir til að ræða stjórnarfrv. Hvers konar framkoma er þetta eiginlega?