Virðisaukaskattur

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:50:31 (2283)


[23:50]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan inna eftir því vegna þeirra tveggja mála sem voru tekin út af dagskrá, 3. og 4. mál, hvort ekki megi skilja úrskurð forseta á þann veg að þessi mál verði fyrst á dagskrá fundarins á morgun.
    Í öðru lagi vil ég segja að ég skil ekki þessar áhyggjur manna af að gefa innflutning frjálsan sérstaklega í ljósi þess að innflutningur á áfengi til landsins er í dag frjáls. Það geta allir flutt inn áfengi í dag til Íslands.

    ( Forseti (VS) : Forseti vill benda á að nú er hv. þm. kominn út í efnislega umræðu um frv. Það á að ræða fundarstjórn forseta.)
    Ég vil líka segja það vegna þess sem hv. þm. Jón Helgason sagði áðan og vitnaði til fylgiskjals með frv. að þá leyfði sá hv. þm. sér sjálfur að leggja fram þáltill. í dag með algjörlega villandi og röngum upplýsingum í. Svo kemur hann hér upp stórhneykslaður út af stjórnarfrv. með sama galla, að því er hann metur, og var á hans eigin máli.
    Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti, að ef stjórnarandstaðan er að kvarta undan því og hefur áhyggjur af því daglega að það sé orðið stutt til jóla og lítill tími eftir til umræðu, af hverju notum við þá ekki tímann núna og förum í þessar umræður? Hvað hafa menn að hræðast?