Virðisaukaskattur

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:52:18 (2284)


[23:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þetta er 257. mál þingsins á þskj. 300.
    Ég vísa til athugasemda með frv. og mun gera örstutta grein fyrir hverri grein fyrir sig og mun fara mjög fljótt yfir sögu.
    1. gr. frv. er ætlað að ná til þeirra tilvika þegar langur tími líður frá því að aðföng eru keypt og þar til að uppskorið er í atvinnurekstri. Ástæðan fyrir því að þessi tillögugrein er í frv. eru óskir sem hafa komið fram um það frá bændum að lögum verði breytt vegna úrskurðar sem féll hjá skattstjóranum á Egilsstöðum þess efnis að ekki mætti draga frá virðisaukaskatt af plöntum til skógræktar sem innskatt á móti útskatti. Með þessu orðalagi sem er sett í lögin telur fjmrn. að komið sé til móts við sjónarmið bænda og annarra þeirra sem kaupa með virðisaukaskatti aðföng til starfsemi þótt mjög langur tími líði þar til útskattur fæst á þeim tilteknu vörum sem framleiddar eru með þeim aðföngum sem nefnd eru.
    Í 2. gr. er verið að útvíkka reglu sem sett var í þessi lög á síðasta þingi og ná þau nú til tryggingafélaga þar sem heimilt er að ákvarða skattverð með þeim hætti sem áður var ákveðið um bíla sem seldir eru af bílaleigu.
    3. gr. er um sama efni.
    Í 4. gr. er lækkað álag sem fellur á skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts en í dag er álagið 2% á hverjum degi sem líður fram yfir eindaga og síðan allt að 20%. Í frv. er lagt til að sett verði reglan 1% fyrir hvern dag og hæst 10%. Ástæðan er sú að verðbólga er nú mun minn en hún var þegar lögin voru sett og ekki ástæða til þess að hafa álagið jafnmikið og raun ber vitni, nægilegt sé að miða við 10% til að hvetja gjaldendur til að standa skil á lögbundnum greiðslum á gjalddaga.
    Í 5. gr. er vísað til atvinnuvegaflokkunar Hagstofunnar en engin efnisbreyting á sér stað þótt þessari tilvísun sé breytt. Eins og sumir vita hefur farið fram breyting á flokkun Hagstofunnar þegar verið er að breyta virðisaukaskattslögum. Nú nýverið flutti ég framsöguræðu þegar vísað var til nefndar frv. til laga um breytingar á lögum um tryggingagjald þar sem fjallað var um sama efni og veit ég að hv. þm. í hv. efh.- og viðskn. kannast við að þar var eingöngu verið að breyta lögum vegna þess að flokkun Hagstofunnar hafði breyst. Þetta ákvæði er um sama atriði.
    Í 7. gr. er verið að leggja til að tekið verði tillit til þeirra sem fóru í fjárfestingu á árinu 1993 vegna gistirýmis en samkvæmt lagareglu sem samþykkt var rétt fyrir jól á síðasta þingi var heimilað að leggja 75 millj. kr. til að greiða virðisaukaskatt af fjárfestingu gistirýma sem voru utan við kerfið á nokkrum umliðnum árum. Hér er verið að leggja til að 10 millj. bætist við vegna ársins 1993 þar sem nokkur vandkvæði hafa komið upp varðandi þessi atriði. Þetta eru helstu atriði þessa frv.
    Ég skal viðurkenna, virðulegur forseti, að ég fer ekki nákvæmlega ofan í saumana á hverju atriði fyrir sig en það er vegna þess að ég hef týnt framsöguræðu minni og hafði hana ekki handbæra þegar ég tók hér óvænt til máls í þessu máli. En eitt er ljóst að meginatriðin í þessu frv. eru til ívilnunar fyrir þá sem greiða skatt og auk þess er um að ræða tæknilega breytingu á tilvísun vegna breytinga á flokkun Hagstofunnar á atvinnuvegum landsmanna. Þetta vona ég, virðulegur forseti, að skýri þetta mál sem ég hélt að væri beðið eftir og ég lýsi ánægju minni með það að virðulegur forseti skuli taka það hér á dagskrá og vænti þess að hv. þm. geti lokið umræðunni hér á stuttum tíma.
    Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.