Virðisaukaskattur

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:59:14 (2285)


[23:59]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Að öllu venjulegu hefði það ef til vill ekkert komið að sök þótt hæstv. ráðherra hefði týnt ræðu sinni, að minnsta kosti ekki ef málið hefði verið lagt fram með þeim fyrirvara að sú nefnd sem á að fjalla um málið hefði haft einhvern tíma til að skoða það. En óneitanlega í þeirri tímaþröng sem er svona rétt fyrir jólin og virðist ætla að verða verri núna en nokkru sinni fyrr, og ég ítreka það sem ég sagði í umræðunni um störf þingsins í dag, er það algjör vanvirðing ríkisstjórnar við Alþingi hvernig staðið er að framlagningu mála sem tengjast tekjuhlið fjárlaga. Þessi mál hafa á umliðnum árum

verið að komast í skárra horf með útgjaldahliðina, fjárlögin sjálf, en það sígur alltaf á verri hlið með tekjuöflunarhliðina og breytingarnar á skattalögunum. Það bara verður að verða á þessu breyting. Það er hvorki hægt að bjóða Alþingi né þeim hagsmunaaðilum úti í þjóðfélaginu sem við þurfum að kalla til og þurfa eðli máls samkvæmt að fjalla um þetta, það er ekki hægt að bjóða þessum aðilum upp á þessi vinnubrögð lengur. Hér verða, virðulegur forseti, að verða grundvallarbreytingar á starfsháttum Alþingis.
    Ég lagði fram í frumvarpsformi í fyrra að það yrði að leggja skattafrumvörp fram á Alþingi minnsta sex mánuðum áður en þau tækju gildi sem þýddi í raun að breytingar sem ætti að gera um áramót yrði að vinna á vorþingi á undan en ekki í síðustu vikunni fyrir jól. Þá hefðu þingmenn haustþingið fyrst og fremst til að fjalla um útgjaldahliðina og laga hana að þeim tekjuramma sem þá væri til staðar. Hvort þetta sé eina leiðin sem hægt er að setja fram vil ég ekkert segja um en ég ítreka það að þarna verður að verða á breyting. Og að við skulum síðan standa frammi fyrir því hér að hæstv. ráðherra hafi ætlað að fara að taka þennan tíma sem enginn er orðinn rétt fyrir jólin til að mæla fyrir tveim frv. um breytingar á innflutningi á áfengi þar sem ljóst lá fyrir að það var ekkert hægt að afgreiða málin öðruvísi en að þriðja frv. frá dómsmrh., sem er erlendis, kæmi fram líka. Við vitum ekkert um það hvort það kemur til með að verða lagt fram fyrir jól. Og að vera að fara svona með tíma Alþingis þessa síðustu daga fyrir jól það er nú, virðulegur forseti, alveg til þess að setja kórónuna á þessa vitleysu. Auðvitað hefðum við átt í dag í síðasta lagi að vera að ræða um fylgifrv., tekjujöfnunarfrv. sem eiga að fylgja fjárlögum. En eins og nú stefnir þá verður það ekki fyrr en einhvern tímann um eða upp úr miðri næstu viku, hugsanlega svona einum eða tveimur dögum áður en Alþingi átti að fara heim samkvæmt starfsáætlun. Þetta vil ég að komi fram af því að hér kemur eitt frv. sem er þó ekki beint eitt af tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar en sem frv. um breytingu á skattalögum þá er væntanlega talið eðlilegt og æskilegt að það afgreiðist fyrir áramót til þess að það komi inn með öðrum þeim breytingum sem þar verða.
    Ég ætla ekki að fara efnislega í þetta frv. grein fyrir grein. Útskýringarnar á greinunum hverri fyrir sig er væntanlega að finna í týndri ræðu hæstv. fjmrh. og vonandi kemst hún til skila einhvern tímann í þingtíðindin eða þá efnisatriðin til okkar í hv. nefnd. En mér sýnist þó við fljótan yfirlestur að hér sé verið að leiðrétta ýmis af þeim atriðum, sumum ekki mjög stórum, sem hafa rekið á fjörur okkar í vinnu nefndarinnar. Í 4. gr. er að vísu rætt um lækkun á viðurlögum eins og hæstv. ráðherra sagði vegna lækkunar á verðbólgu, það er kannski hluti af skýringunni. Hins vegar er ljóst að þetta voru afar há viðurlög sem þarna voru fyrir og vandséð hvaða tilgangi þau þjónuðu eins og þau eru þar sett fram.
    Við höfum heyrt um virðisaukaskattinn á skógarplöntur sem skattstjórar hafa neitað að taka innskatt til greina á og í frv. eru fleiri leiðréttingaratriði í þessa veru. Vonandi fáum við eitthvert tækifæri til að skoða þetta í nefnd. Þó vil ég vekja athygli á því, virðulegur forseti, að samkvæmt starfsáætlun Alþingis núna á þessum drottins degi --- og ég hef ekki séð henni breytt formlega enn þá og öll þessi frv. bíða eftir afgreiðslu og bíða eftir að komast hér inn í þingið og síðan að verða afgreidd út úr nefndinni --- þá er eftir samkvæmt starfsáætlun þingsins tveir reglulegir fundartímar til jóla, samtals góðir fjórir klukkutímar. Ég býst að vísu við að efh.- og viðskn. muni bregðast við eins og við höfum gert og talið skyldu okkar í þessari stöðu í umliðnum jólatörnum að vinna í hverri lausri stund sem finnst. En það stendur eftir að samkvæmt starfsáætluninni núna þegar öll þessi mál eru óafgreidd og ekki einu sinni komin inn í þingið þá eru eftir sem nemur rúmum fjórum klukkutímum af nefndarstarfi á þessu haustþingi.