Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:20:33 (2290)


[00:20]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræða hv. 5. þm. Reykv., Inga Björns Albertssonar, var um margt svo þokukennd, a.m.k. sá þáttur ræðunnar sem sneri að stefnu Framsfl. í virðisaukaskattsmálinu að ég hefði vel getað haldið að menn hefðu verið komnir langt af stað í þessari brennivínsumræðu sem átti að fara fram í kvöld. Auðvitað er það hart fyrir hv. þm. Inga Björn sem lofaði kjósendum því fyrir síðustu alþingiskosningar að Sjálfstfl. ætlaði að lækka skatta alveg stórkostlega. Fara með tekjuskattinn niður úr 39,79% í 35% eða um 9.150 millj. kr. en nú er hann kominn upp í 42%. Það hefur ekki staðið til af hálfu Framsfl. og um það var mótuð og mörkuð skýr stefna á flokksþingi flokksins í lok nóvember að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Framsfl. er hins vegar tilbúinn til að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skattkerfinu, m.a. með það að markmiði að lækka jaðarskattana. Þessi ríkisstjórn, sem hv. þm. hefur stutt, hefur komið hlutunum þannig fyrir að núna er jaðarskattur meðal launafólks í landinu, unga fólksins sem tiltölulega nýlega hefur lokið námi, nýlega hefur komið þaki yfir höfuðið, er orðið 75%. Það er von að hv. þm. vilji ekki ræða um þessa hluti en rugli um þetta virðisaukaskattsmál sem kemur þessu máli ekkert við og Framsfl. hefur markað skýra stefnu um á sínu flokksþingi og það þarf hv. þm. að kynna sér áður en lengra er haldið í umræðunum.