Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:28:57 (2294)


[00:28]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg stórmerkilegt með hv. 5. þm. Reykv. að hann skuli tryllast ef það er í fyrirsögn frv. eitthvað um áfengismál. Þá tryllist hann hér og fer hamförum í ræðustól út í Framsfl. og virðisaukaskatt. Ég vil benda hv. þm. á af því að hann hefur haldið lærðar ræður um Framsfl. og stefnu hans hér í kvöld og loforð sín og viðureignina við samvisku sína fyrir kosningar að hann hefur stutt ýmsar aðgerðir í þessari ríkisstjórn sem hafa komið fremur illa við láglaunafólk svo ekki sé meira sagt, t.d. að lækka skattleysismörkin. Það má náttúrlega hrópa hér í ræðustól um aldraða og sjúka en ég veit ekki betur en hv. þm. hafi samþykkt hér alls konar þjónustugjöld á þetta fólk, gjöld sem við framsóknarmenn höfum reyndar verið á móti en hann hefur ekki verið neitt samviskumórauður af því að samþykkja þessar álögur á þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það hefur ekki skort slíkar tillögur hjá þessari hæstv. ríkisstjórn sem hv. þm. hefur stutt í flestum tilfellum þó að hann sé nú búinn að taka þá ákvörðun að fara ekki í framboð aftur undir hennar merkjum. Þá ákvörðun skil ég vel í sjálfu sér.