Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:33:17 (2296)


[00:33]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu munum við framsóknarmenn ef við komumst til áhrifa í næstu ríkisstjórn leitast við að leiðrétta margs konar ranglæti sem hefur verið samþykkt í löggjöf á þessu kjörtímabili. ( IBA: Það var spurt beint um þrjú atriði.) Þar er af nógu að taka og m.a. hef ég enga trú á öðru en við munum leiðrétta þá afspyrnu vitlausu ráðstöfun sem það var að lækka skattleysismörkin. Við munum líka leitast við að taka á skattsvikurunum í landinu og ná inn tekjum frá þeim ( IBA: Hvað með þjónustugjöldin?) til þess að leiðrétta m.a. þjónustugjöld og hækka skattleysismörkin á ný. Það munum við vissulega gera. Og ég fagna því ef við eigum stuðning hv. 5. þm. Reykv. í því efni því að hann er á lausu og kannski er von í honum, að hann krossi við réttan stað í vor a.m.k. ( Gripið fram í: Er ekki laust sæti í Reykjavík?) Ég vil ekki taka mér það vald. Þó að hér séu gefnar ýmsar yfirlýsingar þá vil ég ekki taka svo djúpt í árinni. En hins vegar er honum velkomið að krossa við annan staf heldur en hann hefur gert.