Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 01:06:50 (2303)


[01:06]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg sammála þessu. Ég tel að þetta sé skattlagning sem þeim sem selja vöru eða veita þjónustu er gert að innheimta fyrir ríkissjóð. Fyrir mér er þetta réttlætismál. Innflytjandinn eða sá sem selur vöru eða þjónustu á auðvitað að fá sína greiðslu, en það sem hann tekur að sér að innheimta fyrir ríkissjóð á auðvitað að koma frá kaupandanum. Þess vegna finnst mér eðlilegt að skilin á virðisaukaskatti fari fram þegar greiðsla komi fram en að seljandinn sé ekki að leggja út fyrir kaupandann þá fjármuni sem virðisaukaskattinum nemur. Ég veit að vísu ekki hvernig þetta er í öðrum löndum og ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra veit það, en það væri athyglisvert að heyra það ef hann vissi það.
    En þetta er, eins og ég segi, réttlætismál og hefur oft verið rætt innan verslunar sérstaklega, að þessu ætti að breyta með einum eða öðrum hætti og ég tel að það sé reyndar ekki flókið mál. Ég skil auðvitað afstöðu skattyfirvalda í málinu, en ég tel þau ekki rétt. Ég tel að það eigi að vera kaupandinn sem greiðir þennan skatt en ekki seljandinn.