Verkfall sjúkraliða

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 13:41:10 (2311)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Við munum að sjálfsögðu gera það sem í okkar valdi stendur til að leysa þessa deilu. Það er ekki markmið okkar að halda verkfallinu gangandi nema síður sé.
    Ég ætla ekki heldur að dæma um það hvort sjúkraliðalaunin eru há eða lág miðað við önnur laun í landinu en ég vil þó láta það koma hér skýrt fram að launaþróun hjá sjúkraliðum hefur ekki verið lakari heldur en hjá öðrum stéttum. Hins vegar hefur það tafið þetta mál að það hefur verið gerður samanburður við samninga við Hjúkrunarfélag Íslands en sá samningur var fyrir marga hluti ákaflega sérstæður og ég held að því fyrr sem við áttum okkur á því og reynum að leysa þetta mál á grundvelli almennrar þróunar í launamálum þeim mun betra. Við verðum að hafa það í huga að þessi samningur sem við erum að vinna að að gerður verði hlýtur að hafa fordæmisgildi fyrir aðra samninga. Þess vegna er ekki hægt að líta eingöngu til þessa eina kjarasamnings þegar rætt er um þetta mál.