Verkfall sjúkraliða

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 13:54:37 (2321)


[13:54]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Um leið og hæstv. forsrh. er boðinn velkominn til landsins þá er óhjákvæmilegt að bera fram til hans nokkrar spurningar varðandi verkfall sjúkraliða. Mín fyrsta spurning er hvort hæstv. forsrh. sé sammála þeirri yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. sem hann gaf út fyrir nokkru síðan að það beri að hækka laun sjúkraliða sérstaklega. Þau laun séu það lág að það sé óhjákvæmilegt að hækka þau sérstaklega. Þessa yfirlýsingu gaf hæstv. heilbrrh. út fyrir nokkru síðan skýrt og afdráttarlaust.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh. að því hver er afstaða hans til þess að meðan hann var í burtu frá þingi og þjóð var það upplýst á Alþingi í svari hæstv. fjmrh. að þær launahækkanir sem samninganefnd ríkisins gerði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við hjúkrunarfræðinga fyrr á þessu ári fela í sér um það bil 15% hækkanir umfram það sem sjúkraliðar hafa fengið. Hver er afstaða hæstv. forsrh. til þess að einni stétt í heilbrigðisþjónustunni sé veitt launahækkun af þessari stærðargráðu sem annarri stétt sem sannanlega er mun lægra launuð er neitað um þessar mundir?
    Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh. að því hvort það sé ekki alveg skýrt og ótvírætt að samninganefnd ríkisins starfar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur verið að gefa það í skyn síðustu daga að samninganefndin sé eitthvert sjálfstætt apparat sem hafi sjálfstæðan vilja sem sé eitthvað annað en afstaða hæstv. fjmrh.
    Að lokum vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvað hann hyggst gera nú þegar til þess að greiða fyrir lausn þessarar deilu því fram hefur komið síðustu daga að hún sé farin að hafa áhrif á líðan og öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.