Verkfall sjúkraliða

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 13:57:06 (2322)


[13:57]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar þá er erfitt fyrir mig að svara nokkru þeirra atriða sem þarna komu fram. Það er verið að vitna í yfirlýsingar sem ég hef ekki heyrt og reyndar kæmi mér á óvart ef sumar hverjar fengju staðist, en meginatriðið er það að ég er sammála því með hvaða hætti fjmrh. heldur á máli þessu og styð hann fyllilega í þeim efnum. Það kemur fram, vegna spurningar um það hvort ég sé sammála því að hækka beri laun sjúkraliða, að samninganefnd ríkisins hefur lagt fram tilboð sem felur í sér hækkun á launum sjúkraliða. Varðandi það atriði hins vegar hvort samninganefnd ríkisins starfi sjálfstætt og ekki í umboði fjmrn. eða ríkisstjórnarinnar þá er það alveg ljóst eins og fyrirspyrjandi þekkir manna best sem fyrrv. yfirmaður slíkrar nefndar að nefndinni er auðvitað falið tiltekið verkefni og á að gæta þess sérstaklega að þeir kjarasamningar sem hún gerir eða undirbýr fyrir hönd fjmrh. séu í samræmi við almenna launastefnu í landinu og séu ekki til þess fallnir að raska þeim hlutum eða grafa undan efnahagsstefnu þeirri sem ríkisstjórnin fylgir. Það er auðvitað meginviðmiðunin sem samninganefnd jafnan hefur. En frá degi til dags er það alveg ljóst að menn eru ekki að skipta sér af verkum samninganefndar ríkisins. Ég býst ekki við að hv. fyrirspyrjandi hafi gert það í sinni fjármálaráðherratíð. Meginlínurnar hljóta að vera ljósar og síðan er nefndinni falið að vinna samkvæmt því og meta stöðuna samkvæmt því.