Verkfall sjúkraliða

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:01:45 (2325)

[14:01]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það orðalag sem hæstv. fjmrh. notaði fyrr á þessum fundi var í samræmi við það sem hann reyndi að nota fyrir nokkrum vikum síðan. Þegar hins vegar upplýsingarnar voru lagðar á borðið í þinginu eftir að fjmrh. og samninganefndin hafði neitað í nokkrar vikur að leggja það fram þá var ekki hægt að halda áfram að skjóta sér á bak við það orðalag sem fjmrh. er að gera enn. Þessar upplýsingar komu fram sl. föstudag og hvorki fjmrn. né samninganefnd ríkisins hefur treyst sér til þess að vefengja þá túlkun þessarar niðurstöðu á þeim dögum sem liðnir eru síðan að þær sýna ótvírætt 15% launahækkun til einnar stéttar í heilbrigðisþjónustunni umfram þá stétt sem einna lægst er launuð á þessu starfssviði. Það er ekki, hæstv. forsrh., hægt að réttlæta það með einhverjum sérstökum aðgerðum. Það er einfaldlega ekki hægt þannig að ég vil eindregið hvetja hæstv. forsrh. til að kynna sér þetta mál rækilega næstu sólarhringa og kynna sér jafnframt þá merku yfirlýsingu sem hæstv. heilbrrh. gaf út um málið.