Framlag til vegamála

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:03:12 (2326)

[14:03]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. fjmrh., gera tilraun til þess að fá fram skilning á orðalagi í fjárlögunum, þ.e. í greinargerð með fjárlögunum á bls. 342 en þar er talað um framlag til vegamála og þar er talað um 275 millj. kr. lægri fjárhæð en markaðir tekjustofnar eru taldir gefa. Í fjárlögunum 1994 nam samsvarandi skerðing 370 millj. kr. og lækkar því um 100 millj. kr. milli ára. Og nú kemur það sem ég vil gjarnan fá skýringu á. Skerðingunni er m.a. ætlað að standa undir útgjaldaaukningunni á þessu og síðasta ári vegna hins sérstaka framkvæmdaátaks í atvinnumálum. Þegar farið var af stað með átakið var gert ráð fyrir að því yrði mætt með skerðingu vegafjár á næstu árum. Hér er skýrt tekið til orða að það eigi að nota þetta vegna þessarar útgjaldaaukningar af framkvæmdaátakinu. Ég hef aftur á móti orðið var við það að menn greinir á um hvað þetta þýðir og ég tel mikilvægt að hæstv. fjmrh. skýri það nákvæmlega hvað er átt við með þessu orðalagi, hvort það eigi ekki að skilja það eins og orðin standa til, þ.e. að þessa skerðingu sem fer í ríkissjóð eigi að draga frá þeim upphæðum sem teknar voru að láni vegna framkvæmdaátaks í vegamálum.