Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:27:32 (2337)


[14:27]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég held að hægt sé að segja að það sé útúrsnúningur að tala um að breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins heyri alveg eins undir samgrn. Ég held að varla geti vafist fyrir hæstv. ráðherra að auðvitað heyrir þetta mál undir hæstv. sjútvrh. og sjútvrn. og um það hefur verið fjallað með þeim hætti líka hér í hv. Alþingi.
    Ég tel að út af fyrir sig sé líka athugavert að ekki skuli hafa fengist að fresta umræðunni þangað til hæstv. sjútvrh. er hér til staðar. Hann þarf auðvitað ekki að vera kominn til þings sem slíkur. Hann getur mætt hér til umræðna á Alþingi ef hann er kominn til landsins og ég hef ekki fengið svar við því hvort það sé langt í það. Ég tel að það hefði verið ástæða til þess að hæstv. ráðherra yrði viðstaddur umræðuna en við skulum sjá til. Það kann vel að vera að hæstv. starfandi sjútvrh. geti leyst úr þeim spurningum sem koma fram við umræðuna.
    Í fyrsta lagi held ég að menn þurfi að spyrja sig grannt að því hvort sú breyting sem er hér á dagskránni sé einhvers virði og hvort það sé einhver þörf á því að gera hana. Um hvað snýst breytingin sem verið er að leggja til að verði gerð á lögunum? Hún snýst um það að óheimilt verði að flytja inn skip og skrá aftur á landinu sem hafa verið úrelt vegna fjármuna úr Þróunarsjóði. En nú er það þannig að við höfum leyft innflutning á notuðum skipum og leyft að skrá þau hér þó þau hafi engar veiðiheimildir. Það má sem sagt í framtíðinni flytja inn gamla dalla einungis ef þeir hafa ekki áður átt heima á Íslandi. Þá skiptir engu máli hversu gamlir eða ónýtir þeir eru. Ef þeir hafa ekki einhvern tíma verið í sveit á Íslandi má flytja þá inn.
    Sum af þeim skipum sem Þróunarsjóður hefur verið að úrelda, og ástæða er fyrir hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því, eru góð skip sem hafa verið smíðuð og útbúin fyrir íslenskar aðstæður og það er ekkert meiri ástæða til þess að banna innflutning á þeim skipum heldur en einhverjum öðrum skipum, nema síður væri. Það er þess vegna algjör óþarfi að flytja þetta frv.
    Ástæðan fyrir frumvarpsflutningnum virðist vera sú þráhyggja þeirra sem ráða hér málum að það þurfi að ná aftur fjármununum sem hafa verið lagðir til úreldingar skipanna ef skipin koma aftur inn í landið. En nú er þannig frá málum gengið að komi skip, hvort sem það er nýtt eða notað, til landsins þá skal úrelda annað í staðinn. Þannig að það er fyrir þessu gert. Það er síðan kapítuli út af fyrir sig hvernig staðið hefur verið að þessum málum. Ég held að það ætti að vera mikið umhugsunarefni og það er það m.a. sem ég vildi ræða við hæstv. sjútvrh., hvort það eigi ekki að viðurkenna þau mistök sem verið er að gera í úreldingarmálunum með þessum Þróunarsjóði og taka á fleiri málum heldur en hér er lagt til að verði gert. Það sem er að gerast núna er það að verið er að úrelda fjöldann allan af góðum skipum og það meira að segja nýjustu skipin úr flotanum í sumum tilfellum. Til hvers í ósköpunum? Ég þekki menn sem eru búnir að sækja um úreldingu fyrir skipin sín og fá hana og eru að husla þessa báta, dragandi á flot miklu eldri skip til að róa þeim og ætla að halda áfram með þeim hætti. Þannig virkar þessi stefna sem hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar hafa komið á flot frá hv. Alþingi.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Finnst honum að það sé eðlilegt að við séum í gegnum þennan úreldingarsjóð að borga 90 millj. til að úrelda skip sem er búið að vera nánast veiðiheimildarlaust við þetta land og var flutt inn fyrir örfáum árum? Að við séum að borga 90 millj. fyrir að úrelda það skip?
    Ég held að það sé margt sem mætti skoða í þessu sambandi. Það hefur nú þegar verið sótt um yfir 200 úreldingar úr þessum sjóði og er nú þegar komið í kringum 2 milljarða það sem verið er að sækja um að úrelda eða var fyrir réttum mánuði síðan. Síðan hafa sjálfsagt bæst við fleiri umsóknir.
    Það er líka annar þáttur þessa máls sem ég tel ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðherra um. Er ekki ástæða til þess að endurskoða það að það skuli ekki mega skrá skip sem skemmtiskip eða einhvers konar vinnuskip sem verið hafa fiskiskip hér og eru úrelt með þessum hætti? Ef menn ætla að halda áfram þessari úreldingarstefnu þá held ég að það sé full ástæða til að ræða þau mál betur. Það er t.d. verið að kasta á glæ stórkostlegum verðmætum, menningarlegum og atvinnusögulegum verðmætum. Það er stærsti hópurinn af síðustu tréskipunum sem voru byggð í landinu sem er núna verið að úrelda og fleygja á haugana og skipa mönnum að eyðileggja. Menn hafa gengið milli ráðuneyta og reynt að fá leyfi til þess að það verði ekki eyðilögð skip sem hafa virkilega sögulegt gildi. Það hefur ekki verið hægt að verða við því vegna þess að menn eru svo hugfangnir af þessum hugmyndum sínum um það að minnka flotann. Það virðist ekki skipta neinu máli í augum þeirra sem þarna ráða ferðinni hvort skipin eru tekin úr umferð sem fiskiskip, sem ég hefði haldið að væri aðalatriði málsins. Ég tel að þetta sé fráleitt, auk þess sem það er fullkomlega í ósamræmi við það sem Alþingi hefur að öðru leyti gert.
    Þegar lögin um stjórn fiskveiða voru til umfjöllunar á sl. vori þá voru gerðar breytingar á lögunum til þess að það væri hægt að skrá skip á íslenska skipaskrá sem hefðu ekki veiðiheimildir í íslenskri landhelgi. Hvers vegna mega þá ekki skip sem búið er að úrelda vera áfram skráð á Íslandi ef þau hafa ekki veiðiheimildir í íslenskri landhelgi? Hvað er svona hættulegt við það?
    Ég held að þeir sem bera fram þessa litlu breytingu á lögunum um Þróunarsjóð þurfi að svara svona spurningum. Ég spyr líka hvernig stendur á því að menn skilja ekki sínar eigin hugmyndir betur heldur en þetta? Nú er það þannig að skip sem skráð er áfram í landinu, þó það hefði verið úrelt með þessum hætti, getur ekki eignast úreldingarrétt aftur. Það er útilokað. Það getur ekki gerst nema með þeim hætti að úrelt verði annað skip fyrir það og það borgi í þrjú ár í Þróunarsjóð áður en að því kæmi að það væri hægt að úrelda það aftur og þar með þýddi það að Úreldingarsjóður væri búinn að úrelda það sem svarar til stærðar skipsins og hefði ekki verið snúið á hann með neinum hætti þrátt fyrir að svona væri staðið að málum. ( Samgrh.: Það er erfitt að fá dánarbætur nema einu sinni nema fyrir köttinn sem hefur níu líf.) Það er greinilegt að hæstv. ráðherra skilur ekki sín eigin hugarfóstur því það skiptir engu máli hvort skip hefur verið úrelt á Íslandi, flutt til næsta lands, er flutt aftur til landsins eða annað skip gamalt úr því landi hefði verið flutt til Íslands og síðan úrelt eftir þrjú ár. Það getur ekki verið munur á þessu tvennu. Ef hæstv. ráðherra skilur það ekki og þarf að fara að vitna í köttinn sinn þá held ég að það sé ekki mikil von í honum í þessari umræðu.
    Ég tel að það hefði verið full ástæða til þess að ræða við hæstv. sjútvrh. um lögin um stjórn fiskveiða og um Þróunarsjóð sjávarútvegsins vegna þess að þessi mál fylgdust að í gegnum þingið í fyrra og þegar hæstv. ríkisstjórn sér ástæðu til þess að fara að taka upp annað málið þá held ég að það sé full ástæða til að minna á að það eru stórkostleg vandamál í gangi vegna laganna um stjórn fiskveiða og það þarf að taka þau mál upp líka og það hlýtur að verða gert á hv. Alþingi í vetur. Þó svo að tíminn sé naumur, þá verða menn að taka á ýmsum þeim vanda sem lögin um stjórn fiskveiða hafa skapað. Ég bendi bara á það að vandi smábáta með aflareynslu er mjög mikill. Þeir eru m.a. stærsti hlutinn af þeim aðilum sem hafa verið að sækja um úreldingu sinna skipa til Þróunarsjóðsins og ef það verður ekkert gert í þeirra málefnum núna í vetur þá þýðir það það að menn eru að leggja þetta niður, leggja niður útgerð smábáta með aflamarki. Forsvarsmenn þeirra mættu á fund með sjútvn. í morgun og voru að benda á það óréttlæti sem þeir urðu fyrir við breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða í fyrravetur, að þeir skyldu ekki hafa fengið að sitja við sama borð og félagar þeirra á jafnstórum skipum undir 6 tonnum. En þingið felldi hér tillögur um að það skyldi gilda það sama um alla þessa báta og þó voru þær tillögur þannig fram settar að það hefði ekki kostað einum ugga meira heldur en að búið var að ákveða að bátar í þessum flokki fengju að veiða. Það er satt að segja óskiljanlegt ef menn eru ekki tilbúnir til að endurskoða þessa hluti núna því annars er verið að leggja þessa útgerð niður og þvinga þessa aðila til þess að henda sínum bátum líka á áramótabrennuna.
    Síðan hefur það gerst á þessu síðasta ári, frá því að lögin um stjórn fiskveiða voru sett, að aldrei meira en nú hafa sögur gengið um það að menn séu að henda fiski í sjóinn. Er það virkilega meiningin að láta sögur sem þær sem vind um eyrun þjóta og gera ekkert í málinu? Ég held að það þurfi að gera eitthvað í því máli og að hv. Alþingi geti ekki látið það hjá líða að taka með einhverjum hætti á því núna í vetur. Þær sögur eru með þvílíkum ólíkindum og ég veit að það getur varla verið nokkur þingmaður sem hefur ekki fengið sögur frá mönnum sem hafa sjálfir tekið þátt í því að fleygja fiski í sjóinn eða orðið vitni að því. Ég get a.m.k. rakið hér margar sögur sem ég hef beint frá mönnum sem hafa fylgst með og tekið þátt í því að henda fiski í sjóinn vegna kerfisins. Hvað er það sem rekur menn til þess að gera þetta? Svarið er einfaldlega: Ef við eigum að lifa af þetta tímabil sem nú er þá verðum við að haga okkur svona. Það er ekki nema um tvo kosti að velja og þeir eru báðir vondir. Annars vegar að ganga svona um auðlindina, hins vegar að gefast upp og láta útgerðina sína fara á hausinn.
    Síðan eru auðvitað fjölmörg önnur atriði sem halda áfram að vera vandamál. Á t.d. ekki að taka á því að enn þá er hægt að kaupa fullvinnsluskip til landsins? Það er enn þá hægt að halda áfram að flytja atvinnuna út á sjó þrátt fyrir að við séum löngu búnir að fá allt of mörg af þessum skipum. Tillögur um þetta voru felldar í fyrra. Nú er hæstv. sjútvrh. farinn að láta heyra í sér og m.a. vildi ég fá hann til þess að staðfesta það hér að það þurfi kannski að fara að taka á þessu vandamáli þó hann hafi tekið þátt í því að fella tillögur um það í fyrra. Hann hefur líka viðurkennt opinberlega núna að það sé orðið vandamál að fiski sé hent í sjóinn. Það er alveg nýtt. Fiskistofa viðurkennir þetta núorðið líka sem vandamál. Ætla menn að fara af þessu þingi nú án þess að gera neitt í þessum vandamálum? Þetta eru ekki lítil vandamál. Þetta eru nefnilega mjög stór vandamál.
    Við höfum líka séð hálfkákið og vitleysuna í kringum kvótakerfið að öðru leyti í vetur. Hæstv. sjútvrh. er búinn að vera að auka rækjukvótann. Hvers vegna var hann að því? Vegna þess að kaupskapurinn og braskið er að eyðileggja útgerðina. Mönnum er gert að greiða upp í 30 kr. fyrir það að fá að veiða kíló af rækju. Þeir sem fá úthlutað kvótanum eru ekkert að veiða sjálfir, þeir eru bara að braska, bíða eftir að verðið hækki og hæstv. sjútvrh. bregst síðan við með því að bæta við rækjukvótann og gefa mönnum meira tækifæri á að braska og selja. Sama er með síldina. Það eru alveg sömu aðferðir notaðar. Auðvitað þarf að endurskoða þetta. Auðvitað þurfa að koma hér fram tillögur í hv. Alþingi til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða líka, ekki bara þessi litla tillaga um Þróunarsjóðinn jafnvitlaus og hún er. Það þarf að endurskoða þessi mál öll sömul. Þau hafa öll mistekist og það hefur sannast.

    Ég held að það hafi þess vegna verið full ástæða til þess að ég fór fram á það að hæstv. sjútvrh. yrði viðstaddur þessa umræðu. Ég hef aftur á móti ekkert á móti því að hæstv. landbrh. og ráðherra samgöngumála sérstaklega taki þátt í þessari umræðu og segi frá sinni skoðun á þessum málum. Ég man ekki eftir því á þessu kjörtímabili sem ég er búinn að vera á þinginu að hann hafi tekið þátt í umræðum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins eða sjávarútvegsmálin yfirleitt. Ég held þess vegna að það sé nýnæmi að því og gott að fólk fái að heyra hans afstöðu til málanna. Ég held t.d. að það sé mjög þarft að hann geri grein fyrir því hvort honum finnist það bara sjálfsagt að menn brjóti í spón og eyðileggi þau verðmæti sem liggja í fiskibátunum sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins er að borga út núna milljarða fyrir. Og hann er ekkert að borga meira fyrir þessi skip heldur en þau eru að virði, það skulu menn gera sér grein fyrir. Það er þess vegna verið að eyðileggja, kasta á glæ stórkostlegum verðmætum og það á auðvitað aldrei að haga sér með þeim hætti. Þó það sé ekki annað heldur en af þeim ástæðum þá eiga menn ekki að sýna frv. eins og þetta hér þar sem er bókstaflega verið að reyna að tryggja það með öllum tiltækum ráðum að það sé örugglega gengið í það verk að brjóta og eyðileggja það sem sjóðurinn er að borga út.
    Ég skyldi svo sem viðurkenna að það væri einhver ástæða til að koma með frv. ef markmið sjóðsins næðist ekki með öðrum hætti. En það er nú öðru nær. Þessi skip fá ekki að veiða í íslenskri landhelgi eftir að búið er að úrelda þau nema önnur skip verði þá úrelt í staðinn. Þannig að markmiðið sem sjóðurinn hefur hlýtur þá að nást. Hvers vegna eru menn þá að standa í þessum ósköpum?
    Ég held að hæstv. ráðherra ætti að skoða þessi mál svolítið betur og af því að hann er líka í hlutverki hæstv. samgrh. þá held ég að það væri rétt að spyrja hann að því hvort honum finnist ekki eðlilegt að menn hafi leyfi til þess að eiga skemmtibáta af öllum stærðum og gerðum við þetta land og skrá þá undir íslenskt flagg? Og á þá að skipta máli hvort þessi skip hafi einhvern tíma verið á Íslandi eða verða menn endilega að kaupa skip sem hafa aldrei áður átt sveitfesti á Íslandi ef það mega vera skemmtibátar? Finnst hæstv. ráðherra ekkert athugavert við það að það skuli standa til að eyðileggja menningarsöguleg verðmæti með þeim hætti sem hér er verið að gera? Þetta er hlutur sem aldrei hefur fyrr gerst á Íslandi að menn hafi kastað verðmætum með þessum hætti í jafnmiklum mæli. Og ég spyr: Mundi nokkrum manni detta það í hug að bera fram þá tillögu hér þó að í Reykjavík hafi verið byggt of mikið af iðnaðarhúsnæði og það standi autt að brjóta þessi hús niður bara af því að það er ekki hægt að koma af stað iðnaði í þessum húsum? Og hvernig skyldi standa á því að Þróunarsjóðurinn sem átti líka að úrelda fiskvinnslustöðvar hefur ekki tekið ákvörðun um að úrelda eina einustu fiskvinnslustöð. Hefur hæstv. ráðherra einhverja skýringu á þessu? Getur hann gefið hv. Alþingi skýringu á því hvers vegna hin miklu áform um að úrelda fiskvinnslustöðvar eru ekki komin til framkvæmda sem voru þó eitt af aðaláhugamálum hæstv. ríkisstjórnar? Ég held að það væri gott að fá svör við því. --- Ég spyr hæstv. forseta, er tími minn búinn með þessu?
    ( Forseti (VS): Já.)
    Þá læt ég máli mínu lokið en ég vona að þau orð sem ég hef látið hér falla hafi a.m.k. útskýrt það hvers vegna ég hef óskað eindregið eftir því að hæstv. sjútvrh. sé líka viðstaddur þessa umræðu.