Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:47:38 (2338)


[14:47]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson, 3. þm. Vesturl., var frsm. minni hluta sjútvn. þegar þetta mál var í þinginu sl. vor, frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Í þeim lögum segir í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði sameinaðar aflaheimildum annarra skipa.
    Óheimilt er að greiða úreldingarstyrki fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá og yfirlýsing frá Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess.``
    Ég hef verið að lesa ræðu hv. þm. við 2. umr. málsins. Mér hefur ekki unnist tími til þess síðan hann tók til máls að ljúka þeirri lesningu sem er athyglisverð fyrir margra hluta sakir en ég skal þess vegna ekki segja hvort hann hefur vikið að þessari grein sérstaklega í framsöguræðu sinni þá. En hitt liggur fyrir að hv. þm. greiddi ekki atkvæði gegn þessari grein sem ég las upp hér áðan, 8. gr. laganna, við 2. umr. Sú grein var samþykkt samhljóða hér á Alþingi með 28 atkv. og hv. þm. neytti ekki atkvæðisréttar. Þau sjónarmið sem hv. þm. lýsir svo fáránleg nú hafa því ekki verið honum ofarleg í huga þegar hann greiddi atkvæði um lögin hinn 11. maí sl. ef ég fer rétt með.