Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:49:50 (2339)


[14:49]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan þá voru það einungis 28 alþm. sem treystu sér til að greiða atkvæði með þessu frv. til laga um Þróunarsjóð og það var samdóma álit stjórnarandstöðunnar að þetta frv. væri arfavitlaust og það álit var stutt hverju einasta áliti sem sjútvn. fékk í hendur frá aðilum vinnumarkaðarins og þeim sem mestra hagsmuna eiga að gæta í sambandi við sjávarútveginn. Við greiddum þess vegna í raun og veru atkvæði gegn frv. í heild og ég tel að það hafi varla átt að fara á milli mála að við vorum alfarið andvíg þessu þróunarsjóðsfrv. eins og það lá fyrir.
    Síðan geta verið einhverjir hlutir í þessu frv. sem eru út af fyrir sig kannski skiljanlegir í ljósi þess að menn eru að semja frv. af þessu tagi. En hæstv. ráðherra gætti sín ekki á því í ræðu sinni hér áðan að þegar hann les upp 8. gr. að þá er ekkert í henni sem fyrirskipar að það megi ekki skrá að nýju skip á Íslandi sem hafa verið úrelt, skrá þau sem skemmtibáta eða annað því um líkt. Þess vegna er hæstv. ráðherra að bera fram þetta frv. til að koma í veg fyrir að það sé hægt að koma í veg fyrir þetta menningarsögulega slys sem ég var að nefna hér áðan að menn megi eiga sér til skemmtunar eða til einhverra annarra nota heldur en fiskveiða skip sem áður hafa verið fiskiskip við Ísland. Það er alveg ótrúlegt hvað hæstv. ráðherra hefur látið plata sig út í með því að fara að flytja þetta frv. Ég get ekki ímyndað mér að málið hafi verið mikið rætt í hæstv. ríkisstjórn.