Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:18:43 (2349)


[15:18]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var auðheyrt af hv. þm. að hann heldur sig við að það eigi að greiða sérstaklega fyrir það að kvóti fiskiskipa sé allur seldur og þá gegn því að annar verði ekki keyptur í staðinn og skuldbinding um það. En á hinn bóginn sé ekkert við það að athuga að hið sama skip verði notað til fiskveiða utan lögsögunnar þá í samkeppni við önnur íslensk fiskiskip. Skipið verður með öðrum orðum áfram fiskiskip. Eða þá að það verði notað í ferðaþjónustu og þá sem sportveiðiskip fyrir sjóstangaveiði og annað því um líkt. ( AÓB: Það voru ekki mín orð.) Það voru ekki mín orð, segir hv. þm. Hvernig á skipið að nýtast til ferðaþjónustunnar ef ekki á að vera heimilt að nota það til sportveiði og sjóstangaveiði og annarra slíkra hluta? Auðvitað verður að vera heimild til þess ef skipið á að nýtast til ferðaþjónustunnar. Þá er einungis verið að tala um sérstakar uppbætur á þann kvóta sem seldur er ef hann er allur seldur. Þá erum við, eins og ég sagði, ekki að tala um að minnka flotann, þá erum við ekki að tala um úreldingu, þá erum við að tala um annars konar aðgerðir. Hv. þingmenn geta verið þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt að

gera það. Það eru sjónarmið út af fyrir sig en þá erum við ekki að tala um úreldingu og þá erum við heldur ekki að tala um ráðstafanir til að minnka flotann. Auðvitað kemur það í bakið á þeim trillumönnum sem menn þykjast bera svo mikla umhyggju fyrir nú ef sú leið yrði farin sem hv. þm. eru að tala um.