Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:37:41 (2352)


[15:37]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er eins um þennan hv. þm. og hina fyrri að hann var hér í þingsalnum þegar sú grein sem hann telur nú mjög fáránlega var samþykkt hér samhljóða og var ekki að sjá að hann léti neitt sérstaklega til sín taka þegar lögin voru hér til afgreiðslu.
    Ég vil annars segja að eins og hv. þm. flutti mál sitt er tvennt ljóst af hans ummælum. Annað er að hann er þeirrar skoðunar að það sé --- ja hann kallar það öskuhaugahagfræði að gera ráðstafanir til að minnka fiskiskipaflotann. Hann kallar það öskuhaugahagfræði og vill halda sig við að úr Úreldingarsjóði verði greitt fé þeim sem taka ákvörðun um að selja kvóta sinn. En ekki gat ég heyrt ananð en að þeir mættu eftir sem áður athafna sig innan íslenskrar efnahagslögsögu og ekki gat ég heyrt annað en hv. þm. fyndist eðlilegt að þeir mættu einnig fiska utan fiskveiðilögsögunnar, þeir mættu með öðrum orðum bleyta veiðarfæri í sjó ef það væri áhugamennska o.s.frv. Þá má auðvitað velta fyrir sér hvort menn telji rétt að verja fjármunum með þessum hætti ef þetta er hin almenna afstaða.
    Hv. þm. segir að það sé öskuhaugahagfræði að koma til móts við þá trillumenn sem nú eru í erfiðleikum vegna sinna skuldbindinga fyrir vestan. Það sé öskuhaugahagfræði að horfast í augu við þá staðreynd að ýmsir trillumenn, sem hafa misst sinn fiskveiðikvóta, m.a. vegna löggjafar sem var lögfest í tíð síðustu ríkisstjórnar, að þessir menn sem nú eiga í erfiðleikum skuli geta úrelt gömlu trillurnar sínar, fengið eitthvað til baka af því sem þeir hafa áður aflað í þágu þjóðfélagsins, það sé öskuhaugahagfræði. Það er virðing hv. þm. fyrir ævistarfi sjómanna sem hafa róið einir á sínum bátum, m.a. frá Bolungavík.