Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:45:29 (2356)


[15:45]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er óneitanlega nokkuð sérkennilegt að það frv. sem hæstv. ríkisstjórn telur mesta þörf á að leggja fyrir Alþingi Íslendinga og varðar sjávarútvegsmál á þessum vetri skuli vera þessi sérkennilegi bastarður hér um breytingar á ákvæðunum um svokallaðan Þróunarsjóð sjávarútvegsins.
    Ég hef áður lýst mínum viðhorfum til þessa sjóðs bæði í blaðagreinum og umræðum á þinginu og ég hef gefið honum nafnið ,,samdráttarsjóður sjávarútvegsins``. Í raun gengur þessi sjóður út á það að bera fé á útgerðarmenn til þess að draga saman í sjávarútvegi, minnka tekjur, fækka störfum og draga úr veltu í íslenskri útgerð.
    Staðreyndin er sú að ég held að það sé leitun að jafnóvísindalegu og illa rökstuddu fyrirbæri og þessi svokallaði Þróunarsjóður er. Hér eru á ferðinni blind uppkaup á tonnum út úr íslenska flotanum og er þá á engan hátt spurt að því hvaða veiðar viðkomandi skip stunda, hvort þörf sé á því að minnka sókn á viðkomandi sviði í viðkomandi tegundir eða viðkomandi stærðarflokka skipa. Allt er lagt að jöfnu, frystitogarar, trillur, nótaskip, dagróðrarbátar og svo framvegis.
    Enn sérkennilegra er það þegar í ljós kemur nú að það hefur verið ætlun að því er virðist hæstv. ríkisstjórnar að ekki sé nóg að viðkomandi skip séu svipt veiðileyfi í íslenskri landhelgi og af þeim sé tekinn allur kvóti, nei heldur skulu þau einnig hverfa af yfirborði jarðar. Það megi með öðrum orðum alls ekki nýta þau til nokkurs hlutar, hvorki sem skemmtiskip eða til að veiða á þeim á fjarlægum miðum á íslenskri skráningu undir íslenskum fána. Ég tel þessa niðurstöðu málsins alveg kostulega sem hér er að birtast. Í fyrsta lagi er náttúrlega þessi broslega hræðsla hæstv. ríkisstjórnar við það að þó að nokkur stykki eða nokkrir tugir smábáta án veiðileyfa og án veiðiheimilda yrðu skráðir á Íslandi vegna þess að fólk vildi eiga sér bátskel til þess að leika sér á að það setji sjálft fiskveiðistjórnunarkerfið í uppnám. Þetta er náttúrlega næsta broslegt. Verða menn þá ekki, ef þeir ætla að vera sjálfum sér samkvæmir, að taka skrefið til fulls og banna alla skemmtibátaútgerð á Íslandi af því að hún sé hættuleg, geti stofnað kvótakerfinu í hættu? Ég held að það þýði þá engin hálfvelgja í þessu úr því að þetta er svona stórhættulegt að hugsanlega yrðu nokkrar trillur skráðar sem skemmtibátar.
    Hitt finnst mér miklu alvarlegra að ég hefði talið það rétt að með sama hætti og ákveðið var á Alþingi sl. vetur að leyfa íslenska skráningu skipa sem misstu veiðileyfi í lögsögu Íslands við það að þau hyrfu út fyrir endurnýjun ætti það sama að gilda um þau skip sem væru úrelt í þeim skilningi að þau væru úrelt út úr fiskiskipaflotanum innan íslensku landhelginnar eða efnahagslögsögunnar. En það kemur í ljós að svo er ekki. Hæstv. ríkisstjórn virðist ætlast til þess að þarna sé gerður greinarmunur á. Svo tekið sé dæmi þannig að menn átti sig alveg á því hvað hér er á ferðinni, ef gamall ísfisktogari er endurnýjaður þá má samkvæmt lögunum eins og gengið var frá þeim í fyrra skrá hinn gamla togara á íslenska skipaskrá veiðileyfalausan í íslensku lögsögunni og hann má fara til veiða í Smugunni, á Reykjaneshrygg eða öðrum fjarlægum miðum. En ef eigandi skips ákveður að nýta sér kauptilboð Úreldingarsjóðs án þess að endurnýja, fá annað skip í staðinn, þá má hann ekki gera það og fara með sitt skip út úr landhelginni til verkefna þar. Nei, það er bannað. Mér finnst þetta í raun og veru svo furðuleg niðurstaða í málinu að engu tali tekur að gera þennan greinarmun þarna á.
    Ef það er í lagi að kannski verði innan tíðar 10, 20, 30 skip í íslenska flotanum skráð á Íslandi sem hverfa út úr íslensku lögsögunni vegna endurnýjunar en eru þá að veiðum hér umhverfis, hvers vegna mættu þá ekki vera 5 eða 10 í viðbót sem notuð væru til slíkra veiða og væru að hverfa út úr íslenska flotanum vegna úreldingar en ekki endurnýjunar? Ég sé bara ekki rökin fyrir að gera þarna þennan greinarmun á og verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það næsta broslegt að þetta skuli vera það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur fram að færa um sjávarútvegsmál á þinginu. Það er ekki verið að taka á vanda bátaútgerðarinnar sem er öll ein rjúkandi rúst. Sá hluti bátaflotans sem háðastur er þorskveiðum, smábátar á aflamarki og bátar á aflamarki upp í 20, 30, 50 tonn sem litla sem enga möguleika hafa til annarra veiða en bolfiskveiða þeir eru að hrynja, sú útgerð er að hrynja, enda eru þeir stærstu viðskiptavinir Úreldingarsjóðsins. Það er ekki verið að sinna því hér. Nei, það er þetta atriði sem þarf endilega að rjúka til og breyta að hugsanlega gæti einn og einn smábátur, nýlegur bátur sem menn sæju eftir að henda á haugana farið til útlanda á skráningu og komið svo aftur heim. Það sé slík vá fyrir dyrum að það verði að stoppa.
    Einnig er það þannig, hæstv. forseti, að alla heildstæða stefnumótun vantar á bak við þessa úreldingarvitleysu alla saman. Reksturinn á þessum samdráttarsjóði sjávarútvegsins byggir á sandi vegna þess að það liggur ekki fyrir nein mótuð stefna um það, t.d. hvað mikið eigi að draga úr afkastagetu í íslenska flotanum. Hvað þá heldur hvaða tegundir skipa eigi að reyna að kaupa út. Staðan er sú í dag að íslenski nótaskipaflotinn er að flestra manna mati orðinn hættulega lítill og það hefur skilað því að við höfum ekki náð að nýta að fullu veiðiheimildir í loðnu og síld undanfarin ár. En úreldingarapparatið er rekið þannig að það kaupir jafnt upp nótaskip sem togara og trillur. Þess vegna getur það alveg eins gerst á morgun að tveir eða þrír eigendur, kannski nýjustu og skuldugustu nótaskipanna, ákveða að úrelda þau og það dregur þar með sem því nemur úr afkastagetu loðnuflotans. Er einhver heil brú í því? Ég segi nei. Það væri auðvitað þvílík endileysa í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við að engu tali tekur. Ef menn eru til að mynda sammála um að ísfisktogaraflotinn sé of stór eða togskipaflotinn þá ættu menn a.m.k. að skilgreina það og segja að við ætlum okkur að kaupa 10--15% afkastagetunnar í þeim skipaflokki. En að reka þetta svona blint eins og það er að tonnin eru keypt upp án tillits til þess hvaða skip eiga í hlut, það er náttúrlega algjör della.
    Hér hefur einnig verið á það bent að þeir bátar sem mest eru að hverfa út úr flotanum núna eru smábátarnir og gjarnan yngstu árgangarnir. Jafnskynsamlegt og það er. Ég held að það sjái og skilji hver heilvita maður að það er eitthvað að kerfi sem sóar verðmætum með þeim hætti að nýlega smíðuð fiskiskip eru keypt út og þeim hent. Ef menn vilja draga úr afkastagetu í flotanum af hverju er þá ekki reynt að hafa hvata til þess í því kerfi að elstu og óhagkvæmustu skipin hverfi? Það er ekki. Nei, nei, nei. Það er lagt að jöfnu að kaupa út nýtt skip, vel útbúið, þar sem fer vel um mannskapinn, sem hefur mikla afkastagetu og góðan búnað til veiða og eldgömul hró sem hvort sem er yrði hætt að gera út innan fárra ára. Það er lagt að jöfnu. Er það skynsamlegt? Ég segi nei. Það er ekki heil brú í því heldur. Það er ekki heil brú í þessu kerfi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil það ekki að forsvarsmenn sjávarútvegs á Íslandi skuli láta þetta yfir sig ganga ár eftir ár jafnvitlaust og það er.
    Svo er það sérkennilegt, hæstv. forseti, að sá flokkur sem ber þetta mál hér fram skuli vera Sjálfstfl. Ef eitthvað er forræðishyggja í íslensku atvinnulífi í dag þá er það þetta. Eru íslenskir útgerðarmenn ekki dómbærir á það sjálfir hvaða skip er skynsamlegt að gera út miðað við þá veiðimöguleika og þá löggjöf sem gildir um fiskveiðistjórnun á Íslandi? Er kvótinn ekki nóg? Eru fiskveiðistjórnunarlögin ekki nóg? Eru veiðileyfin í íslensku lögsögunni ekki nóg? Nei. Til viðbótar skal borið fé á menn til þess að fá þá til að hætta í útgerð. Eru þeir sem sagt ekki dómbærir á það sjálfir, mennirnir, hvort skynsamlegt sé að halda tiltekinni útgerð áfram eða ekki?
    Það er furðulegt að Sjálfstfl. sem hefur kennt sig við frjálst framtak og einstaklingsfrelsi skuli ganga fram fyrir skjöldu með þessum hætti, lýsa yfir opinberu vantrausti á útgerðina í landinu, hún hafi ekki vit á því hvað megi gera út stóran flota á Íslandi og hvað ekki. Það eru ekki rekstrarforsendurnar, það eru ekki veiðimöguleikarnir, það eru ekki aðstæðurnar í greininni sem eiga að ráða þeim. Nei, það er forræðishyggja Sjálfstfl. sem á að ákveða það fyrir útgerðina á Íslandi. Ætli þeim köppunum sem þóttust hafa vit á sjávarútvegsmálum í Sjálfstfl. fyrr á öldinni, Ólafi Thors og öðrum slíkum, liði ekki illa ef þeir væru á dögum núna gagnvart svona vitleysu. Og að Sjálfstfl. skuli standa fyrir þessu er með miklum ólíkindum.
    Vinnubrögðin í sambandi við þetta mál eru einnig ámælisverð. Til að mynda sú hótun sem nú er látin liggja í loftinu að úreldingarprósentan verði lækkuð um áramót. Með því er verið að reyna að hóta og þvinga menn til þess að stökkva til og úrelda núna því þeir geti átt það á hættu að prósentan lækki um áramótin. Það er verið að þvinga fram þróun í þessum efnum, öfugþróun sem ég kalla svo, sem að mínu mati er mjög ámælisverð. Auðvitað væri þá lágmark að úreldingarprósentan væri ákveðin og fastsett á einhverju árabili þannig að menn gætu gengið út frá tilteknum aðstæðum við sína ákvarðanatöku og þyrftu ekki að rjúka til á einhverjum örfáum mánuðum og taka um það kannski ákvörðun lífs síns um það hvort þeir eigi að hætta í útgerð eða ekki.
    Staðreyndin er líka sú, og það er að mínu mati það sem er einna lakast við þetta kerfi, að það er búið að mynda þröskuld sem hver einasti útgerðarmaður í landinu sem ætlar sér að endurnýja sitt fiskiskip verður að borga, yfirstíga og borga, vegna þess að maður sem er að endurnýja sinn bát hann keppir alltaf við kauptilboð Þróunarsjóðs, samdráttarsjóðsins. Hann verður að vega það og meta ef hann er með 100 tonna stálskip sem hann ætlar annaðhvort að endurnýja eða úrelda: Get ég náð það miklu út úr þeim rekstri ef ég kaupi nýjan bát að það til viðbótar 50 millj. sem ég fengi úr Úreldingarsjóði ef ég hætti komi

jafn vel út? Er það ekki nokkuð auðskilið? Með þessu fyrirkomulagi er búið að búa til keppinaut sem menn verða að yfirstíga í hvert einasta skipti sem þeir taka ákvörðun um að endurnýja fiskiskip á Íslandi. Sá tollur sem útgerð sem ætlar að endurnýja stóran togara þarf að kaupa út í dag í hvert skipti vegna tilboðanna á móti frá Úreldingarsjóði eru 70--100 millj. kr., 70--80 millj. þegar stór skip eiga í hlut, 30--50 millj. þegar bátar eru á ferðinni.
    Hæstv. forseti. Hitt er svo að vísu enn alvarlegra til lengri tíma litið og það er að með úreldingunni í flotanum er verið að kaupa í burtu hvatann til þess að leita nýrra verkefna, sækja í vannýttar tegundir, sækja á ný mið. Eða halda menn að íslenski flotinn hafi t.d. á árunum eftir 1983 þegar kvótinn kom á og svörtu skýrslurnar birtust og þorskveiðiheimildir voru skornar niður, fært sig í jafnmiklum mæli yfir í rækjuna og gert hana á fáum árum að næststærstu útflutningsgrein í íslenskum sjávarútvegi ef sú umframafkastageta sem þar myndaðist hefði allan tímann verið úrelt? Auðvitað ekki. Og ástæðan var sú að það voru ekki úreldingartilboð sem kepptu við þá möguleika sem rækjuveiðarnar gáfu sem gerðu það að verkum að sú verðmætasköpun fór vaxandi ár frá ári. --- Það þýðir ekkert að hrista hausinn, hæstv. landbrh., þetta er svona. ( Samgrh.: Mikil vanþekking.) Skip sem hverfa út úr flotanum fara ekki til annarra verkefna. (Gripið fram í.) Er það já. Heldur hæstv. ráðherra að þeir togarar og þau skip, sem nú á að úrelda tugum saman, muni fara til veiða á Reykjaneshrygg á næsta ári? Heldur hæstv. landbrh. að þau sæki í Smuguna skipin sem verða brennd eða skorin í sundur í kjölfar úreldingar Þróunarsjóðs eins og hún er að ganga yfir núna? Ætli það nú. Ætli þeir sigli langt á næsta ári bátarnir sem verða brenndir eða brotnir í þessu úreldingaræði núna.
    Við getum auðvitað deilt um það hversu skynsamlegt það sé að hafa í gangi einhverja umframafkastagetu í flotanum þó mér leiðist sú tugga. Og hver ætlar að finna hina réttu stærð og hina réttu formúlu í þeim efnum? Ekki treysti ég mér til þess. En reynslan sýnir okkur það að ef skip eru fyrir hendi sem vantar verkefni þá leita útgerðarmennirnir að möguleikum í vannýttum tegundum og á fjarlægum miðum. Það hefur gerst aftur og aftur innan íslenskrar útgerðar núna á undanförnum árum. Hvar værum við í dag ef ekki væru komin til 15--20 milljarða verðmæti út úr rækjuiðnaðinum og 6--9 milljarða verðmæti vegna veiða utan landhelginnar? Við munum ekki ná slíkum verðmætum nema hafa til þess skip að veiða þau og skip sem búið er að úrelda, sökkva, brenna, saga í sundur, þau fara ekki til veiða, hæstv. landbrh.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill ónáða ræðumann. Nú er klukkan 4 og kominn tími þingflokksfunda en hv. þm. á eftir 5 mínútur af sínum ræðutíma. Það er augljóst að umræðunni lýkur ekki þar sem það er einn hv. þm. á mælendaskrá. Vill hv. þm. ljúka ræðu sinni?)
    Ef ég mætti gera það, já. Það eru fáar mínútur. Það er kannski hreinlegra að gera það þannig að maður þurfi ekki að byrja á nýjan leik, ekki nema ég fái fullan ræðutíma að nýju?
    ( Forseti (VS) : Nei.)
    Nei, það er ekki tilboð af hálfu forseta þannig að ég kýs að ljúka þessum mínútum af núna sem ég á.
    Hæstv. forseti. Ég er að reyna að rökstyðja að það vanti allan grundvöll undir rekstur sjóðsins. Þetta er í mínum huga að mestu leyti smámál sem hér er á ferðinni og ekki stórt atriði. Ég held að það sé miklu þarfara að ræða og spyrja um hvort einhver glóra er í því kerfinu. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra, hæstv. sjútvrh. sem er fjarstaddur, mun vera að kenna þeim kvótakerfið í Chile ef ég veit rétt. Blessaðir veri þeir í Chile að fá kvótakerfið og kannski gengur það þá eitthvað svipað með lýsinginn þar og hefur gengið með þorskinn hér þegar fram líða stundir. Ég hefði viljað spyrja t.d. hæstv. ráðherra: Er búið að taka um það einhverja ákvörðun hvað langt eigi að ganga? Ef helmingurinn af íslensku bátaútgerðinni gefur sig upp við Þróunarsjóð á næstu mánuðum og segir: Það er ekki til lengur rekstrargrundvöllur fyrir okkur, við ætlum að hætta þessu, ætla menn þá að kaupa? Ætla menn kannski að setja þarna einhverja 20 milljarða í að úrelda hálfan íslenskan bátaflotann svo að dæmi sé tekið? Hvar ætla menn að draga mörkin? Hafa menn eitthvað velt því fyrir sér hversu mikla afkastagetu, hve mörg tonn þeir ætla að kaupa út? ( Gripið fram í: Nei.) Svarið er ekki. Engin stefnumörkun liggur á bak við, engin hugsun önnur en sú að einhverjir spekingir hafa tuggið það í 10 ár að íslenski flotinn sé of stór. Það eru orðin trúarbrögð, kennisetning, og á þeim grundvelli er þetta móverk reist að verið er að minnka íslenska flotann. Þá verða allir hamingjusamir og öllum líður vel og peningar standa út úr eyrunum á öllum bara ef við minnkum flotann, ef við minnkum veltuna, drögum saman, fækkum störfunum, þá gengur í garð gullöld og gleðitíð.
    Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Með því er ég ekki að segja að upp að einhverju marki hafi ekki verið óhjákvæmilegt og skynsamlegt að draga úr afkastagetu í sókn þegar lægðir hafa komið í mikilvæga fiskstofna eins og þorskinn. En ég leyfi mér að minna á það aftur --- og er þá alveg sama hversu oft hæstv. landbrh. hristir sitt gráa höfuð --- að skip sem búið er að eyðileggja og úrelda fara ekki á sjó. Þau fara ekki til þess að sækja í vannýtta stofna. Þau leita ekki verkefna á fjarlægum miðum. Ýmsir telja að við eigum vaxandi möguleika í gegnum samstarfsverkefni til veiða, jafnvel í efnahagslögsögum annarra ríkja. Íslendingar hafa sem betur fer verið að ná fótfestu við strendur Afríku og Suður-Ameríku og víðar. Gæti ekki hugsast að eitthvað af þessum skipum gætu fengið þar verkefni? Er þetta ekki dálítil þráhyggja að endilega þurfi að eyðileggja þau, sóa þeim verðmætum sem í þeim eru? Það sé ekki bara nóg að svipta þau veiðileyfi og kvótum.

    Ég spyr að lokum: Er þetta ekki lýsandi vantrú á að það fiskveiðistjórnunarskömmtunarkerfi sem hér er við lýði muni halda á komandi árum? Ef kvótakerfið væri nóg og ef leyfisbinding veiða í íslensku efnahagslögsögunni væri nóg, hvers vegna þurfa menn þá að hafa áhyggjur af stærð flotans sem hér er skráður? Ég spyr. Hvers vegna er það? Ekki getur annað legið á bak við en óttinn við að kerfið muni hrynja einhvern tíma í komandi framtíð og þá óttist menn að hér yrði skráður of stór floti. Ég sé engin lagaleg eða tæknileg vandkvæði á því að gera að lögum svo skýran greinarmun annars vegar á þeim skipum sem hafa veiðileyfi í íslensku efnahagslögsögunni og hins vegar öllum hinum sem eru skráð hér án veiðileyfa hvort sem þau eru fiskiskip, skemmtiskip eða hvað það nú er. Það mega bara vera hvaða skip sem vera skal mín vegna, að menn þurfi að óttast að ekki verði áfram hægt að gera þarna greinarmun á. Þetta er að mínu mati alveg furðulegt þegar betur er að gáð.
    Svo er það að lokum, hæstv. forseti, sérkennilegast að heyra hæstv. landbrh. koma með þá málsvörn hér í vandræðum sínum að í raun og veru sé úreldingarsjóðskerfið fyrst og fremst bjargræði við trillusjómenn. Þá er varla hægt að skilja orð hæstv. landbrh. áðan öðruvísi en þannig að þessi snilld hafi sérstaklega verið fundin upp til þess að hjálpa bágstöddum trillusjómönnum og við værum vondir menn sem leyfðum okkur að gagnrýna það bjargræði.