Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 10:48:24 (2367)


[10:48]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka landbn. fyrir afgreiðslu þessa máls en fyrst og fremst kom ég hér upp vegna ábendingar frá hv. 1. þm. Vestf. um þátttöku kvenna í hinum nýju samtökum og ég vil sannarlega taka undir það að ég tel mjög mikilvægt að þær láti þar til sín taka. En eins og fram kom hjá frsm. nefndarinnar, hv. 3. þm. Austurl., þá byggist það auðvitað á þessum félagasamtökum og þá fyrst og fremst á grunninum, þ.e. þeim aðildarfélögum sem mynda heildarsamtökin. Ég tel að það sé eitt af brýnustu verkefnum hinna nýju samtaka að auka almenna félagsþátttöku bænda í þessum samtökum og þá ekki síður kvenna en karla því það er svo að bændur geta ekki frekar en aðrir vænst þess að aðrir hjálpi þeim nema þeir reyni að hjálpa sér sjálfir. Það byggist að sjálfsögðu á því að standa vel að sínum samtökum og nota þau vel.
    Ég vildi að gefnu þessu tilefni nota tækifærið og undirstrika þetta atriði.