Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:15:27 (2378)


[11:15]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vert af því tilefni sem hefur gefist vegna ræðu síðasta hv. þm. um að ekki felist neinar pólitískar vendingar í þessari lagasetningu, þ.e. breytingunum á hlutverki Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þá vil ég einungis taka það fram að þessi frv. eru flutt til að samræma lögin þeim breytingum sem verða við það að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands sameinast.
    Þannig vill nú til að við þá sameiningu eru ekki gerðar neinar breytingar nema sem leiða af því formi sem verður tekið upp. Það verða ný samtök sem ákveða skipan þeirra mála og það gildir alveg sama um lagabreytingarnar að ekki eru lagðar til neinar aðrar breytingar en þær sem leiða af þessari breyttu skipan bændasamtakanna. Þess vegna segir þessi tillöguflutningur ekkert fyrir um það hverjar skoðanir menn kunna að öðru leyti að hafa á skipan þessara mála.