Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:17:24 (2379)


[11:17]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er það að sjálfsögðu ljóst að tilefni þessa frumvarpsflutnings er það að þessi

sameiningarmál eru að ganga í gegn. En það liggur náttúrlega í hlutarins eðli að þegar stjfrv. birtist um breytingar á tilteknum lögum, þá mundi sami aðili, sama hæstv. ríkisstjórn væntanlega gera aðrar þær breytingar sem hún sæi ástæðu til að gera, nota tækifærið. Það liggur nokkuð í hlutarins eðli. Mörkin eru gjarnan dregin við það hvort viðkomandi lög eru opnuð upp til breytinga eða ekki. Ég leyfi mér að vekja athygli á því að samkvæmt þessu virtust núv. stjórnarflokkar ekki sjá ástæðu til þess að gera neinar breytingar á því fyrirkomulagi sem ríkt hefur um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Með öðrum orðum, Alþfl. til að mynda er þar með að skrifa upp á það fyrirkomulag.
    Ég verð þó að biðja forláts, hæstv. forseti, á því að hafa kannski verið fulldómharður hér um mætingu Alþfl. Mér er tjáð að hér séu nú á svæðinu a.m.k. fjórir kratar, fimm hv. þm. Alþfl. Það er tveimur fleira heldur en flokkurinn mundi fá í kosningum nú samkvæmt skoðanakönnunum þannig að miðað við það held ég að verði að segja að hér sé bara nokkuð vel mætt hjá Alþfl.