Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:19:49 (2381)


[11:19]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta voru nú steinar úr glerhúsi. Það sem fyrst og fremst veldur því að hér hefur upphafist nokkur umræða eru náttúrlega samskipti þingmanna Sjálfstfl., þ.e. sú sérkennilega og óvænta beiðni hæstv. landbrh. að óska eftir því að hér verði kallaðar til baka breytingartillögur sem fluttar eru af landbn. án ágreinings og síðan þau viðbrögð hv. formanns að gefast upp fyrir hæstv. ráðherra og kalla tillögurnar til baka án þess að gefa á því nokkrar skýringar hvers vegna það er gert og hvorugur þeirra hefur gefið neinar skýringar á þessari óvæntu uppákomu. Það er í framhaldi af því sem nokkrir þingmenn hafa kvatt sér hljóðs. Það lá náttúrlega beint við að spyrja þá aðeins frekar um stöðu landbúnaðarmálanna í þessari ríkisstjórn. Eins og kunnugt er hafa það verið hin mestu harmkvæli allt saman hvernig þeim málaflokki hefur reitt af í tíð þessarar ríkisstjórnar og staðreynd mála og almannarómur að þessi ríkisstjórn hefur verið óstarfhæf í þessum málaflokkum eins og mörgum fleirum, allan tímann, allt kjörtímabilið ( Gripið fram í: Formaður landbn. veit af því.) vegna linnulausra illdeilna. Ja, ég læt það nú allt vera. Ég tel að formaður landbn. hafi á köflum látið Alþfl., þennan litla flokk, ráða allt of miklu í þessum málum. En það kemur ekki til greina að það verði fleiri kjörtímabil, samanber það sem ég sagði áðan í andsvari og vitnaði þá til skoðanakannana um væntanlegt brautargengi þess flokks í næstu kosningum. En ég vísa því til föðurhúsanna að það sé óeðlilegt að við nokkrir þingmenn höfum blandað okkur inn í þessar umræður í kjölfar þessarar óvæntu uppákomu og ég þarf ekki að sitja undir einhverjum áburði frá hv. þm. Agli Jónssyni varðandi það að ég hafi verið eða sé að reyna að tefja framgang sameiningarmála heildarsamtaka landbúnaðarins. Ég á þvert á móti minn þátt í þeim aðdraganda sem þar er á ferðinni og þeim undirbúningi eins og hv. þm. ætti að vita þannig að ég get held ég með fullum rökum vísað slíku til föðurhúsanna. Ég sem landbrh. á mínum tíma hvatti til og beitti mér fyrir ýmsu sem liggur í aðdraganda þess máls eins og hv. þm. ætti að vita.