Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:26:52 (2385)


[11:26]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur lítið mál valdið nokkurri umræðu og þar á auðvitað hæstv. landbrh. sök á og ég hlýt að ítreka þá spurningu sem borin hefur verið fram við hann að hann skýri fyrir okkur í þessari umræðu hvers vegna hann er að vísa málinu aftur til nefndar því að það er auðvitað það sem hann er að gera með þessari beiðni. Við þurfum að halda aftur fund í landbn. til þess að fara yfir þessar brtt. og þá væntanlega fá skýringu á því þar hvers vegna hann er að tefja málið. En ég held að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram í umræðunni að þessar breytingartillögur eru komnar fram að beiðni bændasamtakanna. Það var fulltrúi bændasamtakanna, Haukur Halldórsson, sem lagði það til við nefndina að þessar tvær breytingar yrðu gerðar. Þær eru mjög auðskiljanlegar. Annars vegar verða heildarsamtök bænda ekki ný nema í örstuttan tíma og þess vegna er þetta orð óþarft inni í lagatextanum og hins vegar er það atriði að það sé ákveðinn sveigjanleiki varðandi það hvenær kosið skuli í Framleiðsluráð, það sé ekki bundið fastri dagsetningu eins og hér er gert. Það er ljóst að það mun gerast einhvern tímann á þessu tímabili í kringum mánaðamótin mars/apríl en það var tillaga bændasamtakanna að þetta yrði ekki bundið með þessum hætti og það kann að vera að það þurfi einhvern sveigjanleika varðandi það að kalla saman fundi til þess að þessi kosning fari fram.
    Ég ítreka það að ég vona að hæstv. landbrh. skýri þessa beiðni sína fyrir okkur. Ég held að þarna sé um einhvern misskilning að ræða af hans hálfu og það væri eðlilegt að við gætum afgreitt þetta mál hér, enda er það lítið og sjálfsagt mál að afgreiða.