Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:28:56 (2386)


[11:28]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þetta hafa nú verið mjög fróðlegar og efnisríkar umræður. Ég vil í fyrsta lagi segja við hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, 15. þm. Reykv., að ég kannast ekki við það þótt þess sé óskað að menn fái að athuga einhverjar breytingartillögur við frv. á milli 2. og 3. umr., að það sjálfkrafa kalli á það að nefnd sé kölluð saman. Þetta er ekki þingvenja svo að ég viti til og er auðvitað alveg fullkomlega út í hött að kalla nefndir saman ef ekkert hefur gerst sem gefur tilefni til þess. Þetta er því mikill misskilningur á störfum þingsins og hefur ekki verið um það beðið.

    Ég vil líka segja við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, 4. þm. Norðurl. e., að það frv. sem hér liggur fyrir er mjög einfalt í sniðum og gefur ekki tilefni til einhverra dýpri ályktana eða útúrsnúninga. Það sem málið snýst um er að því er slegið föstu í 1. gr. eins og frv. liggur fyrir að Framleiðsluráð skuli skipað frá og með 1. apríl ár hvert. Þar sem ég hafði ekki séð brtt. áður þá rétt hvarflaði að mér hvort það væri rétt að setja einhver ákveðin tímamörk því að það er ekki talað um það að stjórn Framleiðsluráðs skuli kjörin á aðalfundi nýrra bændasamtaka eins og mér skildist á hv. þm. að þeim hefði fundist, heldur er gert ráð fyrir því að stjórn nýrra heildarsamtaka skipi 14 menn í ráðið. Þetta er ekki hitamál fyrir mér. Ég hafði einungis ætlað mér að ræða við formann landbn. á milli 2. og 3. umr. hvort það væri rétt að hafa einhver tímamörk í sambandi við skipan nýs Framleiðsluráðs. Mér er ekki fast í hendi þó frv. fari svo fram með þeim breytingum sem nefndin lagði til og get alveg fallist á það en ég ítreka það sem ég sagði að þetta undarlega upphlaup hér, þó efnisríkt væri, kom mér algerlega í opna skjöldu og ástæðan fyrir því að ég hafði ekki rætt við formann landbn. var einungis að ég hafði ekki séð þessa brtt. Málið er í mínum huga ekki stórmál en lýsir með nokkrum hætti hvikulu geði sumra þingmanna til þess að finna hið minnsta tækifæri til þess að standa uppi í þessum stól og láta ljós sitt skína. (Gripið fram í.) Nú grípa þrír hv. þingmenn fram í og fallegust er nú röddin í hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni enda má kannski segja að svona ef maður lítur út frá fegurðarsjónarmiðum einum og tísku megi vel vera að hann taki sig betur út á mynd í þessum stól heldur en ég.