Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:32:42 (2387)


[11:32]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. landbrh. að þetta er ákaflega efnisrík og sérkennileg umræða. Það er kannski sérkennilegast að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa kynnt sér þær brtt. sem koma frá nefnd eftir meðferð á hans eigin frv. Ég hélt að menn hefðu nú ekki annað að gera í ráðuneytum en að fylgjast með framgangi þingmála sem hæstv. ráðherrar leggja fram. En við lærum allaf eitthvað nýtt og sjáum hér á hinu háa Alþingi.
    En það er ástæða til að vekja athygli á því að það eru fleiri mál sem hæstv. ráðherra hefur neyðst til að biðja um að flyttust til 3. umr. og hér mun á morgun verða á dagskrá frv. til fjáraukalaga og þar hygg ég að ráðherra komi einnig ef hann hefur ekki frétt af hvernig fjáraukalögin líta út og óski eftir frestun til 3. umr. vegna þess að til þess að fullnægt sé framlögum til jarðræktarlaga og framlögum til þess að framkvæma búvörusamning muni ósköp einfaldlega vanta í fjáraukalögin 600--700 millj. Mér er sagt að í nefndaráliti hv. landbn. sem væntanlegt er, en held ég hefur ekki verið lagt fram enn þá, muni þetta verða staðfest. ( EgJ: Það liggur fyrir.) Því hefur ekki verið dreift. ( EgJ: Jú, í nefndinni.) Já, en ekki á hinu háa Alþingi, á ég við. ( EgJ: Já.) Það er því fleira sem verður að fara til 3. umr. og sýnir náttúrlega svo að ekki verður um villst að landbúnaðarmálin eru í kreppu svo að vægt sé til orða tekið og þess vegna mikill hroki af hæstv. ráðherra að koma hér í ræðustól og heimta að málum sé frestað, jafnvel smámáli eins og hér er um að ræða án skýringa. Og ef það mætti verða hæstv. ráðherra til upplýsingar þá held ég að ég verði sem fyrrv. forseti þessa þings að upplýsa að óski ráðherra eftir breytingu eða frestun á breytingartillögum nefndar þá leiðir það af sjálfu að nefndin er kölluð saman aftur. Það hlýtur að vera einhver skýring á þessari ósk hæstv. ráðherra. Varla þarf hann marga daga til að horfa á tvær litlar línur. Það hlýtur því að krefjast meðhöndlunar í nefndinni og yfirferðar aftur svo að þetta er allt saman með hinum mestu ólíkindum. En ég vildi aðeins vekja athygli á því sem menn eiga von á þegar frv. til fjáraukalaga kemur fram.