Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:44:10 (2396)


[11:44]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Fyrir mér vakti eingöngu þetta að fá það alveg upplýst og fá það á hreint hvort tillögurnar ættu að koma hérna til atkvæða eða ekki áður en umræðunni lyki. Nú hefur hv. formaður landbn. upplýst að hann haldi við þá ákvörðun sína að kalla breytingartillögurnar aftur og þá til 3. umr. eða hann hyggst þá væntanlega endurflytja þær eða landbn. við 3. umr. miðað við það sem hann sagði hér síðast. En það mátti ráða af orðum hæstv. landbrh. sem er í vondu skapi á þessum ágæta degi og er alveg ástæðulaust og heldur leiðinlegt að hann væri hættur við þá beiðni, fallinn frá þeirri beiðni að tillögurnar yrðu kallaðar aftur. Eins og kunnugt er var það sem kom máli þessu af stað upphlaup hæstv. landbrh. hér sjálfs sem kom snúðugur í stólinn og krafðist þess að brtt. yrðu kallaðar aftur án þess að gefa þeirri ósk sinni nokkrar skýringar. Það setti umræðu þessa í gang eins og kunnugt er og dugar ekki fyrir hæstv. landbrh. að reyna að komast hjá því.
    ( Forseti (VS) : Forseta finnst nú að hv. þm. sé með málalengingar varðandi þessa atkvæðagreiðslu sem fer fram eftir örstutta stund. Það liggur fyrir að hv. 3. þm. Austurl. dregur ekki til baka þá beiðni sína að breytingartillögurnar komi ekki til afgreiðslu nú.)
    Það lá fyrir í svari hv. þm. áðan, hæstv. forseti, og mér er ekki kunnugt um annað en ég hafi þrjár mínútur til að tjá mig um fundarstjórn og fer vinsamlegast fram á það við hæstv. forseta að ég fái nokkurn veginn að ráða þeim ræðutíma sjálfur.
    ( Forseti (VS) : Það þarf þá að vera um fundarstjórn.)
    Já, hæstv. forseti. Ég er að þakka fyrir að það skuli hafa verið upplýst hér að hv. formaður landbn. hefur ákveðið að halda við þá ákvörðun sína að kalla tillögurnar aftur og ég ætla þá ekki að taka þær upp því að ég tel eðlilegast að landbn. fari áfram með málið. Ég tel að það leiði af sjálfu að landbn. hljóti að koma saman milli 2. og 3. umr. og fara yfir það hvort einhver ástæða er til að breyta þessum tillögum og ef svo er ekki, að taka ákvörðun um að endurflytja þær við 3. umr. og þá koma þær til atkvæða. Ég get prýðilega sætt mig við þá afgreiðslu á málinu, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. landbrh. hefur nú upplýst að það voru eingöngu vangaveltur og vanhugsun sem komu honum til að stökkva hér upp og óska eftir því að tillögurnar yrðu kallaðar aftur. Það er nú upplýst sem og hitt að málið verður þá meðhöndlað svona að tillögurnar koma aftur á dagskrá við 3. umr. og verða þá væntanlega samþykktar.