Þróunarsjóður sjávarútvegsins

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:52:00 (2399)

[11:52]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það fóru fram nokkrar umræður um þetta mál í gær og ég ætla ekki að lengja þær umræður mikið en ég trúi því að eftir þá umræðu hafi allir þeir sem með henni fylgdust séð að þetta er mjög heimskuleg tillaga sem hér hefur verið lögð fram. Það er kannski gott að hún kemur fram til þess að útskýra það fyrir almenningi í landinu hvers konar stefna það er sem er rekin í þeim málum sem hér eru til umræðu.
    Það var nefnilega þannig að þegar fara átti að framkvæma úreldingarstefnu hæstv. ríkisstjórnar kom í ljós að Siglingamálastofnun ríkisins hafði hugsað sér að leyfa skráningu á skipum aftur á skipaskrá eins og eðlilegt er þó svo að þau hefðu verið úrelt sem fiskiskip. Viðkomandi skip hefðu þá verið skráð svipað og þau sem menn kalla núna vinnubáta eða skemmtibáta og eru skráð hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Stjórn Þróunarsjóðs taldi þetta vera hina verstu ósvinnu af hvaða ástæðum svo sem það er því ekki áttu þessi skip að fá að vera við veiðar í íslenskri landhelgi heldur einungis að vera til annarra nota eða skemmtunar. Þess vegna er þetta mál er hér fram komið.
    Ég held að það verði að láta reyna á það hvort ekki er vilji fyrir því á hv. Alþingi að breyta lögunum um Þróunarsjóð þannig að það fari ekki á milli mála hvað hv. Alþingi vill að framkvæmdarvaldið geri í þessum efnum. Ég held að það hafi ekki verið vilji á hv. Alþingi fyrir því að það þyrfti að eyðileggja öll þau verðmæti sem liggja í fiskiskipaflotanum sem nú er verið að úrelda heldur hafi vilji Alþingis fyrst og fremst staðið til þess að fækka þeim skipum sem væru að veiðum í landhelginni. Það er líka mjög til umhugsunar að þær reglur sem er verið að framkvæma skuli vera í slíku ósamræmi sem nú er. Þar á ég við það að annars vegar ef skip er úrelt þannig að annað skip er smíðað í staðinn, þá er leyfilegt samkvæmt þeim reglum sem nú eru í gildi að skrá fyrra skipið undir íslenskt flagg án veiðiheimilda og nú þegar eru nokkur skip skráð án veiðiheimilda við Ísland. Séu skip aftur á móti úrelt eða greidd út af þessum sjóði sem við eru hér að ræða um, þá ætlast framkvæmdarvaldið til þess að þau skip verði eyðilögð eða flutt úr landi og að aldrei megi flytja þau til Íslands aftur, hvorki sem skemmtiskip, vinnubáta né til veiða í landhelginni þrátt fyrir að önnur skip séu úrelt fyrir þau. Hvaða skynsemi er í þessu? Að mínu viti er engin skynsemi í þessu.
    Ég ætla ekki að endurtaka þá hluti sem ég sagði um þetta hér í gær, en ég bendi á að það er nauðsynlegt að gera breytingu á lögunum til þess að stöðva framkvæmdarvaldið á þeirri óheillabraut sem það er á. Ég tel að það eigi að gera þá breytingu að fella úr 8. gr. laganna þann boðskap að það sé óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess. Ég tel að þau skip sem búið er að taka úr umferð sem fiskiskip eigi einfaldlega að færast yfir í þann flokk skipa sem hafi ekki veiðiheimildir á Íslandsmiðum. Og ef einhver útgerðarmaður síðan vil úrelda sitt fiskiskip og telur hagkvæmara að skipta því út fyrir eitthvert skip sem ekki hefur leyfi til veiða í landhelginni þá á það að vera í hans valdi að velja það skip sem hann telur henta best til þess. Það getur einmitt verið skip sem hefur á sínum tíma verið útbúið sérstaklega til veiða í íslenskri landhelgi en öll þau skip sem nú er verið að úrelda út úr flotanum eru sérstaklega framleidd eða keypt og breytt til veiða í íslenskri landhelgi.
    Þetta er breyting sem ég tel að eigi að gera og ég tel nauðsynlegt að hv. Alþingi geri framkvæmdarvaldinu það skilmerkilega ljóst að það sé ekki hugmyndin með lögunum um Þróunarsjóð að það eigi að kasta á haugana eða brenna öll þeim skip sem stendur til að taka út úr þeim flota sem hefur leyfi til veiða.
    Þetta er ástæðan fyrir því, hæstv. forseti, að ég taldi ástæðu til þess að taka aftur til máls. Ég trúi því satt að segja eftir þá umræðu sem fór hér fram og eftir að hafa kynnt mér málið dálítið betur að það sé mögulegt að ná samstöðu í Alþingi sem verði til þess að þessari óheillastefnu sem hæstv. ríkisstjórn og framkvæmdarvaldið hefur staðið fyrir frá því að lögin um Þróunarsjóð voru sett verði breytt og að það verði tekið á þessum málum með eðlilegum hætti.
    Ég vil minna á það að lokum að þó ekki væri annað en bjarga þeim verðmætum sem þarna eru til staðar og þeim menningarverðmætum sem liggja í síðustu tréskipunum sem voru smíðuð á Íslandi, þá er full ástæða til að taka þetta mál til endurskoðunar.