Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:00:02 (2414)


[14:00]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er merkileg ábending um forgangsröðunina hjá hæstv. ríkisstjórn á sama tíma og öll helstu mál sem tengjast afgreiðslu fjárlaga, fjáraukalaga og skattalaga koma ekki til umræðu í þinginu skuli hæstv. fjmrh. knýja á um að þessi frv. séu tekin til umræðu.
    Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að hér sé ekki um að ræða breytingu á þeirri áfengisstefnu sem fylgt hefur verið í landinu. Það er alveg skýrt að það er verið að breyta henni með þessum frv. vegna þess að verið er að heimila verulega samkeppni innflytjenda gagnvart veitingarekstri og annarri slíkri sölu áfengis fram hjá því kerfi sem verið hefur til þessa. Það er því verið að opna frjálsa samkeppni á þeim hluta áfengismarkaðarins sem tengist veitingarekstri af einhverju tagi. Það er auðvitað afdráttarlaus stefnubreyting hér á landi.
    Það er líka rangt hjá hæstv. fjmrh. að þessi frv. séu í samræmi við þau fyrirheit sem voru gefin af íslenskum stjórnvöldum þegar Ísland gerðist aðili að EES-samningnum. Þau fyrirheit fólu í sér að það yrði óbreytt skipan á þessum málum.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann er ekki reiðubúinn til þess að geyma þessa umræðu þar til eftir áramót og mönnum hafi gefist tími til að undirbúa sig undir það. Ég vil í því sambandi nefna sérstaklega að mér og nokkrum öðrum þingmönnum hefur borist greinargerð frá starfsmannafélagi ÁTVR þar sem vakin er athygli á mörgum þáttum í þessu frv. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta frv. hafi verið kynnt starfsmannafélagi ÁTVR og hvort leitað hafi verið álits þeirra eða forstjóra ÁTVR á málinu. Ef hvorugt hefur verið gert finnst mér óeðlilegt að 1. umr. sé að fara hér fram án þess að þingmenn hafi tækifæri til þess að kynna sér þau gögn sem ég og ýmsir aðrir þingmenn og kannski fleiri þingmenn hafi verið að fá frá starfsmannafélagi ÁTVR. Þar sem málið er ekki brýnt, eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, vil ég spyrja hann að því hvort hann er ekki reiðubúinn til þess að láta fresta umræðunni að lokinni ræðu sinni og við höfum tækifæri til að undirbúa umræðuna betur.