Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:05:07 (2416)


[14:05]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við sem höfum starfað með forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins vitum mjög vel að hann sinnir auðvitað embættisskyldum sínum ef fjmrh. biður hann að fara í nefnd til að undirbúa frv. af þessu tagi. Það breytir því ekki að hann getur haft skoðanir sem forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á efnisþáttum frv.
    Það hefur verið staðfest hér að ekkert hefur verið rætt við starfsmannafélag ÁTVR um frv. Engu að síður hefur starfsmannafélagið að eigin frumkvæði sent til nokkurra þingmanna veigamiklar athugasemdir við frv. Í þeim athugasemdum er m.a. bent á að hagsmunaárekstrar kunni að vera milli formanns þeirrar nefndar sem fjmrh. skipaði til þess að skoða rekstur ÁTVR sem jafnframt var formaður stjórnar Tollvörugeymslunnar því ljóst er að framkvæmd þessa frv. mun styrkja rekstrarstöðu Tollvörugeymslunnar. Það má vel vera, hæstv. ráðherra, að það sé misskilningur. Ósk mín um það að umræðunni verði frestað byggðist á því að ég tel nauðsynlegt að við þingmenn fáum tíma til þess að skoða þau álit, m.a. frá starfsmannafélagi ÁTVR, sem okkur hafa borist þannig að umræðan geti verið eðlileg og efnisleg. Við höfum áhuga á að ræða málið. Mikil og breið samstaða hefur verið um það í þjóðfélaginu að breyta ekki þeirri áfengisstefnu sem hér hefur verið í framkvæmd og fyrrv. ríkisstjórn gaf skýra yfirlýsingu um að henni yrði ekki breytt þó Íslendingar yrðu aðilar að EES.
    Auðvitað er alveg ljóst eins og ég les frv., hæstv. fjmrh., að verið er að breyta samkeppnisháttum á vínveitingasölu gagnvart veitingahúsum hvað það snertir að salan verður beint frá umboðsaðilum til veitingahúsanna, ef ég skil frv. rétt. Hæstv. fjmrh. getur þá leiðrétt það ef það er eitthvað rangt en ég ítreka ósk mína til ráðherrans að hann veiti okkur þingmönnum tækifæri til þess að búa okkur þannig undir 1. umr. að hún geti verið eðlileg.