Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:09:39 (2418)


[14:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þegar fer að líða að jólum þá eru yfirleitt tekin til meðferðar þau mál sem þurfa að fá afgreiðslu fyrir jólahlé. Fjmrh. hefur sjálfur lýst því yfir að ekkert liggi á að afgreiða þetta mál. Hann var að enda við að segja það að menn gætu fengið góðan tíma til þess að fjalla um málið. (Gripið fram í.) Í nefnd segir hagsmunaaðili að málinu á fremsta bekk. Þannig að það er auðvitað ekki það sem hér er verið að tala um. Málið er tiltölulega nýtilkomið fram í þinginu. Og það er dálítið sérkennilegt að ráðherrann leggur svona mikið kapp á það að reyna að húrra því í gegnum 1. umr., kannski til þess að koma

í veg fyrir að það fái skoðun. Engu að síður er það þannig að frá því að óskað var fyrir tveimur dögum síðan að málið kæmi ekki til umræðu hefur borist hér minnisblað frá starfsmannafélagi ÁTVR, minnisblað sem ég fékk í mitt hólf í dag og ég reikna með að einhverjir aðrir þingmenn eftir því sem mér var sagt hafi líka fengið og mér var tjáð núna fyrir rúmri klukkustund síðan að starfsmannafélag ÁTVR hefði áhuga á því að senda öllum þingmönnum þetta minnisblað sitt þannig að þingheimur gæti fengið tækifæri til þess að kynna sér skoðanir starfsmannafélagsins. Og ef málið er ekki brýnna en svo að það er allt í lagi af hálfu ráðherrans að það fái að liggja hér fram yfir jól, þá skil ég ekki í því hvers vegna ráðherrann vill ekki leyfa þingmönnum, öllum þingmönnum að kynna sér álit starfsmannafélags ÁTVR áður en 1. umr. fer fram. Er ráðherrann eitthvað hræddur um það að frv. þoli ekki álitsgerð starfsmannafélags ÁTVR áður en 1. umr. fer fram? Og hann vilji frekar að sú umfjöllun fari fram á lokuðum nefndarfundum þar sem hvorki fjölmiðlar né aðrir hafa aðgang að því? Það eru ekki nokkur vinnubrögð að haga sér þannig.
    Ég vil þess vegna fara fram á það við forseta, fyrst hæstv. ráðherra vildi ekki verða við þeirri sjálfsögðu ósk að bíða með áframhald umræðunnar, hann er búinn að fá að mæla fyrir frv., að því leyti hefur þingið komið til móts við ráðherrann, það er ekkert sem liggur á að afgreiða málið, það er ósk um það að þingmenn fái að kynna sér lykilgögn frá starfsmannafélagi fyrirtækisins og það á að koma í veg fyrir það að þingmenn geti fengið að kynna sér þau gögn þegar 1. umr. fer fram. ( IBA: Ósköp lestu hægt.) Ósköp lestu hægt, segir hagsmunaaðilinn hérna á fremsta bekk. Ég get vel skilið að hann vilji hraða afgreiðslu málsins.
    ( Forseti (VS): Hv. 5. þm. Reykv.)
    Ég skil það ósköp vel að hv. þm. Ingi Björn Albertsson vilji hraða afgreiðslu málsins. Hins vegar var ég ekki að rugla saman neinum nefndum, hæstv. fjmrh. Ég var eingöngu að vísa í það að það hefði verið nefnd til að fjalla um rekstrarform ÁTVR sem forstjóri Tollvörugeymslunnar hefði verið formaður í og ég hugsa nú að ræturnar að þessu frv. sem verið er að ræða hér liggi í því áliti.