Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 14:15:48 (2421)


[14:15]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er náttúrlega hreinn útúrsnúningur þegar það er sagt í tilefni orða minna um það að ég sé tilbúinn til þess að nefndin geti grandskoðað þetta frv. og hafi til þess tíma fram í janúarlok, þá jafngildi það því að það þurfi ekki að taka málið hér til 1. umr. af því að þingmenn þurfi að skoða málið. Auðvitað er það svo eins og hæstv. forseti sagði réttilega hér áðan að nefndir grandskoða mál. 1. umr. er almenn, um almenn atriði, frumvörpin hafa legið fyrir í tiltekinn tíma, þau hafa verið áður á dagskrá það hefur verið fallist á að fresta umræðunni og nú átti hún að fara fram í dag.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunarinnar var í hópi þeirra sem

sömdu þessi frumvörp og það er sjálfsagt að hann komi til nefndarinnar og gefi skýrslu. Mér finnst, virðulegi forseti, alveg bráðnauðsynlegt að það verði ekki komið í veg fyrir það sem er verið að reyna að gera hér að þetta mál fái efnislega umfjöllun í dag og ég krefst þess að þeir menn sem hafa komið hér á mælendaskrá fái tækifæri til þess a.m.k. í klukkutíma eða svo að flytja efnislega ræðu í málinu því að nú hefur verið haldin framsöguræða og mér finnst eðlilegt að önnur sjónarmið fái að koma fram.
    Ég skal í trausti þess að það verði þá gott samkomulag um það að þetta mál verði rætt þótt síðar verði nú fyrir jól og komi til nefndar fallast á það, ef það getur verið til samkomulags að umræður fari hér fram í einn klukkutíma eða svo þannig að önnur sjónarmið komist fram og síðan geta þeir sem hafa ekki enn séð sér fært að lesa þessi frumvörp, lesið frumvörpin og fengið til þess nokkra daga. Ég geri þetta að tillögu minni, virðulegi forseti, í trausti þess að það sé hægt að ná samkomulagi um það að ræða efnislega stjórnarfrumvörp sem fram eru komin og ég vísa því algerlega á bug að minni hluti á þingi geti staðið hér upp og komið í veg fyrir efnisumræður sem þurfa að fara fram um þetta frv. eins og önnur frumvörp hvort sem þau eru frá ríkisstjórn eða hv. stjórnarandstöðuþingmönnum.