Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 16:29:51 (2436)



[16:29]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða og vissulega þörf. Það er athyglisvert að þegar við ræðum málefni fjölskyldunnar eru oftast örfáir þingmenn viðstaddir. Mér finnst miður að hv. 14. þm. Reykv. skuli vera horfinn af vettvangi vegna þess að ég er algerlega ósammála henni að þáltill. séu bara

orð á blaði og börnin mundu ekkert skilja það sem við værum að tala um hér. Það er ekki spurningin um hvort börnin skilji það. Það er spurningin um hvort fullorðna fólkið skilur það og það er aldrei gagnslaust að hefja umræður því að eins og orð verða til alls fyrst er það þannig hér á Alþingi að stundum þarf að ýta við málum aftur og aftur áður en þau komast til framkvæmda. Ég minni á frv. um umboðsmann barna. Það frv. var flutt mörg þing en nú er það mál í höfn og við höfum fengið umboðsmann barna svo að ég harma það að hún skuli hafa farið úr sal áður en við lukum þessari umræðu. ( Gripið fram í: Það má ná í hv. þm.) Þess vegna er ég að nefna að þingmál verður aldrei einungis orð á blaði, ekki einu sinni þó að þau nái ekki fram að ganga eitt þing, tvö þing.
    Mér finnst það mjög athyglisvert sem hefur verið rætt hér að við séum komin í þá stöðu að við hólfum fjölskylduna í börn og aldraða og mætti nefna fleira til. Það hefur verið talað um það sem horfið er með samskipti stórfjölskyldunnar og ágætar ábendingar um skort á tillitssemi og hvar börnin læri það sem áður kom sjálfkrafa inn í stóra systkinahópnum, í stóru fjölskyldunum sem við þekktum, þ.e. tillitssemi hvert við annað og læra hvert af öðru og læra um skyldur og hvað maður gerir bara alls ekki. Þetta er eitt af því sem börn skortir mjög í dag. Ég ætla líka að nefna það að foreldra skortir mjög aga og foreldrar eru orðnir allt of eftirlátssamir við börn sín af einhverjum misskilningi að mínu mati vegna þess að börn og unglingar vilja aðhald og börn og unglingar kalla eftir aðhaldi af hálfu foreldra, aðhaldi sem þau fá oft ekki af því að foreldrarnir halda að þau verði að leyfa börnunum það sem börnunum í næsta húsi er leyft. Ég hef oft lent í hörðum umræðum um þessi mál á sl. 20 árum og það er ekkert sem er gerast bara í dag þó að það hafi aukist.
    Mér finnst líka mjög gott að heyra þau orð að við þyrftum að læra nýja þjóðlífsstefnu og ég tek undir orðin um bruðl og röng gildi. Ég tek undir það. Það er mjög athyglisvert hjá okkur hvert við erum komin í þeim efnum og þegar talað er um hvernig hlutirnir voru þegar við, fólk á mínum aldri, var að alast upp. Það var vissulega minna fé en það voru líka aðrar kröfur og það er ekki alltaf að tekjur skorti eða af litlum efnum sem fjölskyldulífið er á þann veg sem það er í dag hjá fjölskyldum og jafnvel ungum fjölskyldum, það er oft af kolröngum kröfum og því að það er verið að eltast við mjög röng gildi.
    Í tilefni af því sem hv. 18. þm. Reykv. nefndi að mikilvægt væri að hjálpa börnum sem búa við erfiðar aðstæður vil ég geta þess að í einni af þeim breytingum sem við erum að vinna að í félmrn. varðandi þennan málaflokk er verkefni þar sem ráðuneytið hefur stuðlað að því að sameiginlegri fjölskyldumeðferðarstofnun verði komið á fót á höfuðborgarsvæðinu og rekin af öllum sveitarfélögum. Ráðuneytið bauðst til að leggja fram 13 millj. kr. á tveimur árum gegn svipuðu framlagi sveitarfélaga. Það er nokkuð ljóst að Reykjavíkurborg muni koma á fót slíkri ráðgjöf en því miður verður að segja eins og er að önnur sveitarfélög hafi verið treg til að taka þátt í þessu verkefni þó að ekki sé hægt að gera alveg útslagið um það á þessari stundu.
    Vissulega hefur verið farið víða yfir í umræðunni en alls staðar er verið að huga af því sem snýr að fjölskyldunni og börnunum: Ofbeldismyndir, tölvuleikir, sá harði heimur sem börnin hafa verið að kynnast í gegnum þessa miðla.
    Ég nefni það hér að ég hef beitt mér fyrir því í þeirri nefnd sem ég hef veitt forstöðu á öðrum vettvangi, menningarmálanefnd, að þau úrræði eigi að nýta betur sem verið er að setja í gang og heita forgangsmál. Á norrænum vettvangi er forgangsmál að stuðla að norrænni menningu og þar er líka forgangsmál að styðja norræna kvikmyndasjóðinn. Nefndin hefur verið með tillögu til umfjöllunar sem snýr að því á jákvæðan hátt að hafa áhrif á börn í þessum efnum og vinna gegn hlutum eins og eiturlyfjanotkun, ofbeldi, einelti og öðru slíku sem er hinn harði heimur barnanna, að draga fram réttsýni, virðingu fyrir öðrum, skilning og annað það sem við teljum að séu hin norrænu gildi og hin norræna samsömun. Sú áhersla og það fjármagn sem fyrir liggur sé nýtt til að búa til myndbönd, fræðsluefni inn í skólana, venjulegar unglingamyndir með jákvæðu efni, að nota það sem við höfum til að koma með hið jákvæða fram í stað þess að láta fljóta yfir sig hvað sem er.
    Virðulegi forseti. Ég ætla í lokin á máli mínu aðeins að nefna það að í tillögu flm. var vísað í átak sem Norðmenn hafa gert og það er ekki lítið verkefni sem Norðmenn hafa sett sér. Stórþingið hefur ákveðið að veita 500 millj. norskra króna til að efla það svið sem hefur verið vísað til á þremur árum. Þetta eru um það bil 1.500 millj. norskra króna á þremur árum í þessu augnamiði. Þetta er mjög metnaðarfullt átak og vissulega er ástæða til að horfa til slíkra hluta. Ég held að ekkert annað ríki hafi hleypt af stokkunum svo miklu átaki. Þetta er öðrum hvatning og þó hlutir gerist ekki strax og e.t.v. ekki núna, við höfum búið við erfiðar aðstæður. Við verðum að vera bjartsýn um að hagir breytist og við getum gert hlutina sem við hefðum kannski þurft að halda í við okkur. Ég vil geta þess að ef við mundum heimfæra þetta á okkur er verið að tala um að veita 90 millj. á þremur árum, ef við tækjum mið af mannfjölda, 30 millj. á ári. Ég vil líka segja það að við erum ekki stefnulaus eins og kom fram hjá einum þingmanni. Við erum ekki stefnulaus í þessum málum. Við erum að setja okkur stefnur í afmörkuðum þáttum ýmissa mála sem snúa að fjölskyldunni. En ég hef vakið athygli á því aftur og aftur að engin ríkisstjórn hefur sett sér fjölskyldustefnu og ég vildi óska að mér gæfist tími til að setja fram slíkt mál.